Er lýðræðið einungis fyrir suma og ekki aðra?

Ýmslegt furðulegt er haft eftir einstaka stjórnmálamanni um framboð Ólafs Ragnars Grímssonar í forsetakosningunum sem framundan eru og virðast þeir telja að slíkt framboð sé ekki frjálst fyrir þá sem þessum pólitíkusum eru ekki að skapi.

Ekki er síður undarlegt að fylgjast með því sem skrifað er á ýmsa netmiðla, sem kalla sig fréttamiðla en eru hlutdrægari, pólitískari og sumir ofstækisfyllri en nokkurt flokksblað var á áratugum áður, þegar dagblöðin studdu dyggilega "sinn" stjórnmálaflokk í samræmi við hver útgefandinn var.

Á þessum miðlum, sumum, er sitjandi forseta úthúðað á persónulegum nótum og honum fundin öll þau illnefni sem hægt er að láta sér detta í hug og ekki liggja lesendurnir heldur á liði sínu í ógeðsorðræðunni í athugasemdadálkunum frekar en fyrri daginn.

Engu er líkara en að lýðræðið sé einkaeign þessa fólks og hinir sem ekki taka þátt í þessu illa umtali, eða þeirri ofstækisumræðu sem oft tröllríður netheimum af minnsta tilefni, eigi ekkert tilkall til þess að fá að kjósa þann sem þeim sýnist frambærilegastur hverju sinni, hvort sem þar er um einstakling að ræða eða stjórnmálaflokk.

Aldrei nokkurn tíma hefur verið mælt með kosningu Ólafs Ragnars Grímssonar á þessu bloggi, en komi ekki fram áhugaverðari frambjóðendur til forsetaembættisins en þegar hafa tilkynnt um framboð verður ekki erfitt að gera upp hug sinn að þessu sinni.


mbl.is Mótmælin ekki til einskis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 19. apríl 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband