Aldrei á að beita viðskiptaþvingunum eða styðja slíkar aðgerðir.

Rússar hafa verið ein helsta viðskiptaþjóð Íslendinga í áratugi og hafa þau viðskipti stundum skipt sköpum þegar næstu nágrannalönd hafa staðið að viðskiptaþvingunum og öðrum yfirgangi gagnvart Íslandi.

Nú bregður hins vegar svo við að Rússar hafa sett innflutningsbann á flestar vörur frá Íslandi og mun það hafa tugmilljarða tap í för með sér fyrir fyrirtæki hér á landi, starfsmenn þeirra og þjóðarbúið í heild sinni, bæði vegna tapaðra tekna og aukins atvinnuleysis.

Það ótrúlega við þetta er að aðgerðir Rússa eru svar við viðskiptabanni ESB og Bandaríkjamanna sem Íslendingar hafa lýst fullum stuðningi við, að því er virðist án þess að hafa haft hugmynd um hvað þeir væru að samþykkja og hvað þá hvaða afleiðingar slíkur stuðningur myndi hafa í för með sér.

Viðskiptabannið sem ESB og Bandaríkjamenn hafa sett á Rússa nær að því er virðist ekki til nema afar takmarkaðra viðskipta og t.d. virðast ESB ríkin halda m.a. áfram að flytja inn olíu og gas frá Rússum og selja þeim alls kyns vél- og tæknibúnað eins og ekkert hafi í skorist.  Að því leyti er þetta viðskiptabann sem sett var á Rússa vegna framferðis þeirra á Krímskaga, austurhéruðum Úkraínu og víðar hálfgerð sýndarmennska að því er best verður séð.

Viðskiptabönn hafa sjaldan eða nokkurn tíma haft áhrif á stjórnvöld ríkja, né skaðað stjórnendur þeirra og herforingja því þegar slíkum bönnum er beitt hafa slíkir aðilar alla möguleika til að halda áfram lúxuslífi sínu, en almenningur þjáist hins vegar og líður skort á öllum sviðum.

Því er borið við að Ísland hafi samþykkt stuðning við efnahagsþvinganirnar vegna aðildarinnar að EES, sem er furðuleg yfirlýsing þar sem EES-samningurinn snýst um viðskipti milli aðildarríkjanna en utanríkismál koma þar ekkert við sögu.

Viðskiptabönnum á aldrei að beita í milliríkjaviðskiptum og enn síður ætti Ísland nokkurn tíma að lýsa stuðningi við slík óhappaverk.


mbl.is Mikið misræmi í áhrifum refsiaðgerða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 14. ágúst 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband