18.7.2015 | 15:40
Vertíðarhasar í ferðamannaþjóustunni
Ferðamönnum á Íslandi fjölgar stöðugt og verða að minnsta kosti 1,2 milljónir á þessu ári og hefur fjölgunin undanfarin ár verið 15-20% árlega.
Öll áhersla hefur verið á að auglýsa landið sem ákjósanlegan áfangastað fyrir þá sem eiga nóga peninga og eru orðnir leiðir á "venjulegum" ferðamannastöðum. Þrátt fyrir þessa áherslu virðast margur túristinn ekki tíma að eyða tvöhundruðkalli til að komast á salerni til að sinna óhjákvæmilegum þörfum líkamans til losunar úrgangsefna og leggur allt slíkt frá sér hvar sem hann er staddur þá og þá stundina með tilheyrandi áhrifum á umhverfið.
Raunar er tvöhundruðkallasalernin á landinu allt of fá og endalaust er rifist um það hvernig eigi að plokka nógu mikið af ferðalöngunum til að fjármagna öll þau klósett sem nauðsynleg eru fyrir allan þann saur og þvag sem til fellur frá þessum hópi, sem allar spár telja að tvöfaldist innan tíu ára.
Miðað við öngþveitið sem nú er á helstu ferðamannastöðum er auðvelt að gera sér í hugarlund hvernig það verður þegar ferðamannafjöldinn nær tveim og hálfri milljón. Verði ekki gripið í taumana strax og þessi þjónusta skipulögð almennilega og ekki síður settar ákveðnar reglur um umgengni við náttúruperlur landsins mun innan fárra ára verða algert öngþveiti vegna ferðamannanna og úrgangsins frá þeim.
Þegar ekki verður lengur hægt að auglýsa Ísland sem land viðernis og fagurrar náttúru og hvað þá hreinleika, mun ferðamannafjöldinn hrynja með tilheyrandi gjaldþrotum í greininni og kreppu í gjaldeyrisöflun þjóðarinnar a.m.k. ef fyrirhyggjan verður ekki meiri í framtíðinni en hún hefur verið hingað til.
Fram til þessa hefur fiskaflinn verið helsta tekjulind þjóðarinnar og á árum áður komu gríðarleg fiskveiðiár og svo önnur það sem alger ördeyða ríkti. Stjórn á tekjuöflun sjávarútvegsins fékkst með fiskveiðistjórnarkerfinu og svipað kerfi þarf sjálfsagt að setja upp vegna vertíðarhegðunarinnar sem ríkir í ferðaþjónustunni.
![]() |
Massatúrismi af verstu gerð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)