Lýðræðið og lýðveldisafmælið fótum troðið

Einhver hópur hefur rottað sig saman á Facebook og sammælst um að fjölmenna á Austurvöll í fyrramálið, 17. júní, og eyðileggja þá virðulegu hefð að leggja blómsveig að styttu Jóns Sigurðssonar, í tilefni af lýðveldisstofnuninni þann dag árið 1944.

Annað markmið hópsins er að öskra og veifa spjöldum með kröfum um að ríkisstjórnin segi af sér, eða verði sett af ella.  Ekki er vitað hverja þessir æsingaseggir ætla að setja í ríkisstjórnarstólana ef áætlanir þeirra ganga eftir.

Einkennilegt er að fólk sem aðhyllist skoðanir sem taldar eru til vinstri í stjórnmálum skilja ekki eðli lýðræðisins, en í öllum siðmenntuðum þjóðfélögum ræður vilji meirihluta þjóðarinnar sem fram kemur í kosningum hverju sinni. Núverandi stjórnarflokkar fengu góðan meirihluta í Alþingiskosningum fyrir rúmum tveim árum og hafa fullt umboð kjósenda til að stjórna í tvö ár til viðbótar.

Það er nánast ótrúlegt að óeirðaseggir skuli ætla að fótum troða bæði lýðræðið sjálft og hefðbundin hátíðahöld í minningu þeirra sem börðust fyrir lýðveldinu á Íslandi, sem endaði síðan með stofnun þess á Þingvöllum árið 1944.

Allir siðaðir Íslendingar hljóta að fordæma svona óhæfu á þessum degi.


mbl.is „Samfélagsmiðlar hafa breytt mótmælum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 16. júní 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband