20.4.2015 | 16:23
Siðleysi að taka sjúklinga í gíslingu
Stór hluti allra kjarasamninga landsins eru í uppnámi og allt stefnir í langvarandi og hörð verkfallsátök vegna sjálfsagðrar kröfu launafólks um sanngjarnan hlut þess efnahagsbata sem orðinn er og verða mun á næstu misserum.
Allir hljóta að viðurkenna að atvinnulífið gengur vel um þessar mundir og mikið og gott borð ætti að vera fyrir báru til launahækkana. Hins vegar virðast forkólfar og fyrirsvarsmenn fyrirtækjanna vera svo gjörsamlega úr tengslum við starfsfólk sitt að þeir virðast hvorki sjá né skilja þá óánægju sem kraumar í þjóðfélaginu vegna launamálanna.
Þessir, að því er virðist algerlega siðspilltu og ofurgráðugu, stjórnendur og eigendur fyrirtækjanna virðast ekki skilja að gengdarlausar arðgreiðslur og ofurlaun þeirra sjálfra eru farin að ganga svo gjörsamlega fram af fólki að nú verður ekki undan því skotist að bæta lífskjör launafólksins verulega.
Gegn siðleysinu og græðginni verður að berjast, slá á mikilmennskubrjálæðið sem virðist vera farið að hrjá ýmsa forkólfa atvinnulífsins og skipta þjóðarkökunni á sanngjarnan hátt.
Verkalýðshreyfingin virðist hins vegar vera algerlega andlaus og föst í fornu fari og hvergi bryddar á nýjum hugmyndum til jafnari skiptingar uppskerunnar, t.d. með því að krefjast hlutdeildar í arðgreiðslum fyrirtækjanna, sem þá yrði skipt milli fjármagnsins í rekstrinum og vinnuframlags starfsmannanna.
Hvað sem um siðblindu atvinnurekenda má segja verður að lýsa yfir fyrirlitningu á þeirri aðferð stéttarfélaga að nota alvarlega veika sjúklinga sem gísla í kjaradeilu. Slíkt lýsir engu öðru en mannvonsku og skilningsleysi á stöðu langveikra, bæði andlegri og líkamlegri heilsu.
![]() |
Sjúklingar ekki í verkfalli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)