7.10.2015 | 18:34
Óseðjandi gróðafíkn alþjóðarisafyrirtækja
Rio Tinto Alcan er dæmigert fyrir þau alþjóðafyrirtæki (og önnur) sem stjórnað er af siðblindingjum sem skammta sjálfum sér þvílík ofurlaun að þeim sjálum og ætt þeirra allri tækist ekki að eyða árslaunum þeirra á æviskeiði a.m.k. þriggja ættliða.
Siðblindingjar þessir sjá hins vegar ofsjónum yfir þeim launum sem óbreyttir starfsmenn þeirra fyrirtækja sem þeir stjórna strita fyrir og þurfa yfirleitt að horfa í hvern eyri til að sjá sér og fjölskyldum sínum farborða frá degi til dags.
Alltaf þykjast þetta siðblinda lið vera að "hagræða" í rekstrinum þrátt fyrir óheyrilegan hagnað fyrirtækjanna flest árin, þó inn á milli komi eitt og eitt ár þar sem gróðinn er minni en venjulega vegna einhverra markaðsaðstæðna. Þær aðstæður hafa hins vegar aldrei náð yfir nema skamman tíma og jafnvel á þeim árum komast fyrirtækin ágætlega af vegna þeirra digru sjóða sem safnað er upp með svívirðilegri græðginni flest ár.
Rio Tinto Alcan er nú í alheimsbaráttu gegn starfsfólki sínu með það að markmiði að brjóta niður samstöðu þess og eins og venjulega til að auka gróða sinn, sem þó er ævintýralegur fyrir. Starfsfólk álversins í Straumsvík þurfa að standa í þessu stríði, eins og aðrir starfsmenn Rio Tinto annarsstaðar í heiminum, og beitir fyrirtækið því lúalagi að neita að gagna frá kjarasamningi nema verkalýðsfélögin samþykki að heimila verksmiðjunni að ráða stóran hóp fólks á smánarlaunum í svokallaðri undirverktöku. Enginn er svo skyni skroppinn að skilja ekki til hvers siðleysingjarnir setja fram þessa úrslitakosti við kjarasamningagerðina.
Vonandi standa verkalýðsfélögin í lappirnar gegn þessum yfirgangi, en því miður hefur verkalýðshreyfingin ekki staðið sig sem skyldi í varðstöðunni um réttindi félaga sinna fram að þessu.
![]() |
Mótmæltu í Straumsvík |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)