24.4.2014 | 13:38
Ruddabrandar felldu Guðna frá endurkomu í stjórnmál
Guðni Ágústsson, fyrrverandi ráðherra, var búinn að samþykkja að skipa fyrsta sætið á lista Framsóknarflokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar í Reykjavík og ætlaði að tilkynna þá ákvörðun sina með pompi og prakt á blaðamannafundi í dag, Sumardaginn fyrsta.
Forysta Framsóknarflokksins í Reykjavík var búin að ganga frá framboðslistanum með Guðna í efsta sæti og skipulagði kosningaherferðina út frá fréttamannafundinum og ætlaði að láta mikið fyrir sér fara á næstunni, enda tiltölulega stutt til kosninganna.
Eftir að Guðni hætti við framboðið lýsti flokksforystan yfir miklum vonbrigðum með þessa breyttu afstöðu hans, frestaði kjördæmisþingi og leggur nú dag við nótt í leit að heppilegum frambjóðands í efsta sætið og mun, eftir því sem frést hefur, stefna á að finna frambærilega konu til þess að skipa sætið. Þeirri konu sem áður skipaði annað sæti listans verður hins vegar kastað út í ystu myrkur þrátt fyrir hetjulega baráttu fyrir því að fá að færast upp í efsta sætið eftir að sá sem skipaði það upphaflega hrökk frá borði.
Það sem einna helst varð til þess að Guðna snerist hugur var upprifjun á ruddalegum "bröndurum" hans á karlakvöldum um kynfæri og bólfarir kvenna í stjórnmálum, sem aðhyllast þó ekki Framsóknarflokkinn eða hafa verið Guðna mikið tengdar í gegn um tíðina.
Frá því að vitnað var til þessara einkennilega ruddafengnu "gamansagna" á netinu um páskana hafa netheimar logað af hneykslun á þessum einkennilega húmor og þeirri lítillækkun sem Guðni þykir hafa sýnt kvenfólki með uppátæki sínu.
Logarnir sem þetta hefur kveikt hafa brennt allar áætlanir Guðna um að snúa aftur í stjórnmálin og munu reyndar verða til þess að hann verður almennt litinn öðrum augum sem "skemmtikraftur" en hingað til hefur verið gert.
![]() |
Guðni gefur ekki kost á sér |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)