Ruddabrandar felldu Guðna frá endurkomu í stjórnmál

Guðni Ágústsson, fyrrverandi ráðherra, var búinn að samþykkja að skipa fyrsta sætið á lista Framsóknarflokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar í Reykjavík og ætlaði að tilkynna þá ákvörðun sina með pompi og prakt á blaðamannafundi í dag, Sumardaginn fyrsta.

Forysta Framsóknarflokksins í Reykjavík var búin að ganga frá framboðslistanum með Guðna í efsta sæti og skipulagði kosningaherferðina út frá fréttamannafundinum og ætlaði að láta mikið fyrir sér fara á næstunni, enda tiltölulega stutt til kosninganna.

Eftir að Guðni hætti við framboðið lýsti flokksforystan yfir miklum vonbrigðum með þessa breyttu afstöðu hans, frestaði kjördæmisþingi og leggur nú dag við nótt í leit að heppilegum frambjóðands í efsta sætið og mun, eftir því sem frést hefur, stefna á að finna frambærilega konu til þess að skipa sætið.  Þeirri konu sem áður skipaði annað sæti listans verður hins vegar kastað út í ystu myrkur þrátt fyrir hetjulega baráttu fyrir því að fá að færast upp í efsta sætið eftir að sá sem skipaði það upphaflega hrökk frá borði.

Það sem einna helst varð til þess að Guðna snerist hugur var upprifjun á ruddalegum "bröndurum" hans á karlakvöldum um kynfæri og bólfarir kvenna í stjórnmálum, sem aðhyllast þó ekki Framsóknarflokkinn eða hafa verið Guðna mikið tengdar í gegn um tíðina.

Frá því að vitnað var til þessara einkennilega ruddafengnu  "gamansagna" á netinu um páskana hafa netheimar logað af hneykslun á þessum einkennilega húmor og þeirri lítillækkun sem Guðni þykir hafa sýnt kvenfólki með uppátæki sínu.

Logarnir sem þetta hefur kveikt hafa brennt allar áætlanir Guðna um að snúa aftur í stjórnmálin og munu reyndar verða til þess að hann verður almennt litinn öðrum augum sem "skemmtikraftur" en hingað til hefur verið gert. 

 


mbl.is Guðni gefur ekki kost á sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Maður bíður bara eftir því að hinir rétthugsandi gefi út brandarakver með leiðbeiningum. Kenni manni að hlæja hátt og innilega á réttum stöðum. Ekki um of þó.

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 24.4.2014 kl. 14:46

2 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Brandarar og grín af öllu tagi eru auðvitað af hinu góða og þá ekki síður tvíræðir brandarar en aðrir. Það er líka afar saklaust og meira að segja mjög skemmtilegt að snúa gríni upp á nafngreindar persónur, ef slíkt er gert af smekkvísi og án þess að meiða.

Að snúa klúrum klámbröndurum upp á einstakar persónur, þekktar eða óþekktar, er hins vegar ekkert annað en ruddaskapur og ber í raun vott um siðleysi og glámskyggni.

Guðni er vænn maður og bráðfyndinn og þess vegna undrar mann stórlega að hann skuli hafa leiðst út á svona brautir.

Þú, Elín, mátt hins vegar hlægja að hverju sem þig lystir, hvar og hvenær sem þú vilt og verður sjálf að meta siðleysi brandaranna hverju sinni.

Axel Jóhann Axelsson, 24.4.2014 kl. 16:02

3 identicon

Held að flestum Reykvíkingum hafi reyndar létt, því eins og Ólafur ritstjóri Stephensen vakti athygli á í leiðara í morgun, þá er gjörsamlega útilokað að þessi einstaklingur geti orðið trúverðugur fulltrúi hagsmuna borgarbúa miðað við afstöðu hans, orð og gerðir, á allt of löngum stjórnmálaferli. Menn á þessu þroskastigi eiga ekkert erindi í stjórnmál.

Hitt er svo annað mál, hvort framsóknarfyrirbærið á yfirleitt nokkurt erindi sem slíkt í pólitík. Man einhver eftir að sá flokkur hafi nokkurn tíma komið nokkrum sköpuðum hlut til leiðar sem ekki snerist um þrönga sérhagsmuni forréttindahópa?

E (IP-tala skráð) 24.4.2014 kl. 20:05

4 identicon

Þurfa menn að hafa náð ákveðnu þroskastigi til að taka þátt í stjórnmálum? Kannski er rétt að láta kjósendur taka greindarpróf áður en þeim er hleypt í klefann? Og kímnigáfuna þarf greinilega að vega og meta líka. Kannski er best að Ólafur Stephensen ákveði þetta bara fyrir kjósendur. Þeim er varla treystandi.

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 24.4.2014 kl. 20:22

5 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Þetta er ekki spurning um kímnigáfu. Af henni hefur Guðni nóg, en þarna virðist hann hafa farið út fyrir öll eðlileg velsæmismörk.

Ég hef nokkrum sinnum verið á skemmtunum þar sem Guðni hefur farið með gamanmál og alltaf skemmt mér konunglega. Hann hefur verið vel innan allra velsæmismarka í þau skipti.

Axel Jóhann Axelsson, 24.4.2014 kl. 20:33

6 identicon

Mér finnst þetta ekki snúast um Guðna eða brandarana hans. Mér hefði þótt eðlilegt að kjósendur hefðu fengið að segja sitt álit. Annars er lítið gefið fyrir álit kjósenda í Reykjavík - eins og flugvallarmálið sýnir best. Brandari út af fyrir sig að halda þessar kosningar.

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 24.4.2014 kl. 20:40

7 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Þetta vilja þeir þá eða er þeim eftirminnilegt körlunum á Karlakveld,sem annað hvort voru þarna eða hafa það eftir öðrum. allt eins ýkt. Konur vilja vera jafnfætis körlum og munar svo sannarlega ekki um að klúrast um karlpunga,þegar þeim býður svo við horfa. Nei konur hafa áunnið sér titilinn sterka kynið,frekjudósirnar og eru þá ekki að niðurlægja karla,þótt segi gamansögur.

Helga Kristjánsdóttir, 25.4.2014 kl. 03:03

8 identicon

Veit svo sem ekki fyrir víst hvað Elín Sigurðardóttir á við með því að spyrja um hvort fólk þurfi að ná ákveðnu þroskastigi til að taka þátt í pólitík. Almennt talað gerir fólk kröfur til þeirra, sem bjóða sjálf sig fram til að vera í forystu fyrir okkar lýðræðislega (vonandi) samfélagi, að þau hafi til að bera þann þroska, menntun og skynsemi sem þarf til að vera fær um að taka stefnumarkandi ákvarðanir fyrir þjóðfélagsins hönd. Okkur finnst ansi mörgum, að ef einhver einstaklingur fer opinberlega með aulabrandara sem niðurlægja konur, samkynhneigt fólk, börn og gamalmenni, beri það þess vott að viðkomandi hafi ekki þennan lágmarksþroska.  Í þeim athugasemdum sem ég las um þennan tiltekna, fyrrverandi ráðherra komu ekki fram önnur ummæli en þau, sem hann hafði sjálfur við haft.

E (IP-tala skráð) 25.4.2014 kl. 11:17

9 identicon

Hvaða kröfur gera menn til stjórnvalda? Tvær grímur renna nú á Ómar Ragnarsson. Stefna stjórnvalda hefur tekið á sig sérkennilegar myndir. Sérkennilegur húmor er greinilega ekki að allra skapi. Sérkennilegir stjórnunarhættir falla kannski betur í kramið?

http://omarragnarsson.blog.is/blog/omarragnarsson/entry/1379405/

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 25.4.2014 kl. 11:40

10 Smámynd: Sigurður Ingólfsson

Í einni grein var talað um að "netskrímslin" hefðu étið Guðna en eitt "skrímslið vildi leiðrétta það og að Guðni sjálfur hefði gert það. Þessi grein á Herðubreið var lýsandi fyrir ástandið. Netskrímsli er ágætt orð yfir fólk á netinu sem sér sér hag í að ráðast á einstaklinga, sem eru ekki í sama flokki í pólitík eða af öðrum ástæðum. Guðni og fjölskylda hans sáu sér ekki hag í að fara út á þetta forað að manni skilst. Nú eru nýir og verri tímar framundan í stjórnmálunum ef þetta heldur svona áfram. 

Sigurður Ingólfsson, 25.4.2014 kl. 13:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband