22.5.2013 | 19:58
Voru IPAstyrkirnir mútur eftir allt saman?
Össur Skarphéðinsson, fráfarandi utanríkisráðherra, hefur jafnan látið eins og IPAstyrkir Evrópusambandsins séu nánast veittir af fádæma góðvild og umhyggjusemi stórríkisins væntanlega fyrir hinum smærri bræðrum og systrum og veittist harkalega að Jóni Bjarnasyni, fyrrverandi landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, fyrir að neita að þiggja slíka góðmennsku til handa sinna ráðuneyta og þeirra málaflokka sem hann réð yfir.
Ný ríkisstjórn er varla búin að kynna stefnu sína og samt eru Evrópuþingmenn hrokknir úr gæðahamnum og komnir í stríðsbrynjurnar og farnir að heimta endurgreiðslur "styrkjanna", fyrst ekki eigi að halda áfram vinnunni við að gera Íslands að útnárahreppi í stórríkinu væntanlega. Í fréttinni er vitnað í Twitter síðu bresks ESBþingmanns þar sem segir m.a: ".... sem það veitti Íslandi til þess að undirbúa landið fyrir inngöngu í sambandið og annað sem ætlað var að gera inngöngu meira aðlaðandi í augum Íslendinga."
Eins og oft áður tala ESBfulltrúar alveg skýrt um það sem í gangi hefur verið, þ.e. að um vinnu við innlimun sé að ræða, en ekki samningaviðræður um eitt eða neitt.
Íslenskir ESBvinnumenn hafa hins vegar aldrei viljað viðurkenna staðreyndir málsins og reynt að halda blekkingum og lygum að þjóðinni árum saman.
![]() |
Spyr hvort ESB heimti styrki til baka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
22.5.2013 | 10:27
Til hamingju Ísland
Ástæða er til að óska íslensku þjóðinni til hamingju með nýja ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks og að vera þar með laus við fyrstu, og vonandi síðustu, ríkisstjórn sem sjálf kallaði sig "hreina og tæra" vinstri stjórn og á hátíðarstundum "norræna velferðarstjórn".
Sjálfsagt hefur fráfarandi ríkisstjórn gert eitthvað rétt í stjórnartíð sinni, þó fátt komi upp í hugann í fljótu bragði, en þó einkenndist kjörtímabilið af óeiningu innan og milli stjórnarflokkanna, að ekki sé talað um hatrið og óbilgirnina sem stjórnarandstöðunni var sýnd í orðum og verkum. Segja má um stjórnunarstíl Jóhönnu Sigurðardóttur að hún hafi ávallt valið ófrið og deilur um málefnin, jafnvel þó samkomulag og sátt væri í boði.
Vonandi horfir nú til bjartari tíma með nýja von fyrir þjóðina um uppbyggingu nýrra atvinnumöguleika, betri kjör fólksins og von um bættan hag þjóðarinnar allrar með aukinni verðmætasköpun og tekjum ríkissjóðs sem af henni mun leiða ásamt réttlátari, einfaldari og lægri skattbyrði launþega og fyrirtækja.
Ný ríkisstjórn mun væntanlega taka við á Ríkisráðsfundi á Bessastöðum á morgun, fimmtudaginn 23. maí 2013. Sá dagur markar nýtt upphaf og nýja framfarasókn.
![]() |
Ný ríkisstjórn rædd á Bessastöðum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)