22.11.2013 | 20:15
Hræsni vegna upplýsingaleka
Trúnaðarupplýsingar um menn og málefni eiga skiljanlega ekki að liggja á glámbekk og vera á almannavitorði, hvorki upplýsingar um hælisleitendur, fórnarlömb mansals né annað sem trúnaður á að ríkja um.
Vegna þeirra upplýsinga sem "lekið" hafa um hælisleitanda sem segist eiga von á barni með konu, sem "lekinn" gefur í skyn að sé fórnarlamb mansals sem hælisleitandinn hafi verið viðriðinn, hafa margir ruðst fram á ritvöllinn og hneykslast á því að slíkar upplýsingar skuli yfirleitt komast fyrir almenningssjónir.
Stundum er gerð krafa um opið þjóðfélag, þar sem allar upplýingar skuli vera uppi á borðum og öllum aðgengilegar til þess að almenningur geti myndað sér upplýsta skoðun á öllum málum til þess að geta tekið afstöðu til þeirra á málefnalegan og öfgalausan hátt. Þegar upplýsingar "leka" til almennings verður hins vegar oftar en ekki uppi fótur og fit á samfélagsmiðlunum og skammast ógurlega vegna slíks upplýsingaleka.
Hallærislegast af öllu er að sjá og heyra Birgittu Jónsdóttur, þingmann Sjóræningja og fyrrverandi starfsmann Wikileaks, hneykslast upp úr skónum vegna upplýsingaleka frá opinberum aðilum, en eins og allir vita snýst starfsemi Wikileaks einmitt um að brjótast inn í opinber upplýsingakerfi og leka öllum þeim upplýsingum sem þar er unnt að komast yfir.
Allar gerðir Birgittu á vegum Wikileaks snerust um að réttlæta upplýsingaleka til almennings og engar upplýsingar væru svo viðkvæmar að réttlætanlegt væri að leyna þeim.
![]() |
Ekki frá embættismönnum ráðuneytisins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.11.2013 | 08:56
Morð sem hafði áhrif á alla heimsbyggðina
John F. Kennedy, Bandaríkjaforseti, er öllum ógleymanlegur sem með honum fylgdist á sínum tíma, enda fylgdu honum nýjir og ferskir vindar í heimspólitíkinni og auðvitað ekki síður í stjórnmálum Bandaríkjanna.
Nánast hver einasti maður, sem kominn var til vits og ára þegar Kennedy var myrtur man nákvæmlega hvar hann var staddur þegar hann heyrði fréttirnar af atburðunum og eru ekki margar fréttirnar sem í þann flokk hafa komist, hvorki fyrr eða síðar.
Vegna þess hvernig morðið var framið og síðan eftirmálar þess, þ.e. örlög meints morðingja, þeirra gríðarlegu þjóðfélagsbreytinga innanlands sem Kennedy stóð fyrir, Kúbudeilunni og fleiri stórræðna sem þessi ungi forseti stóð fyrir, hafa verið á lofti endalausar samsæriskenningar um aðdragandann og atburðinn sjálfan.
Líklega mun málið aldrei upplýsast á svo afgerandi hátt að samsæriskenningarnar þagni. Minningin um John F. Kennedy munu hins vegar lifa lengi og hans minnst sem mikils og merks forseta, þrátt fyrir ýmsa breyskleika sem í ljós voru leiddir eftir dauða hans.
John F. Kennedy var stórmenni og einn merkasti forseti Bandaríkjanna, þrátt fyrir skamma forsetatíð.
![]() |
Margir trúa enn samsæriskenningum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)