"Stórkostlegur sigur fyrir okkur" segir Steingrímur J. um algera sneypuför ESA, fyrir hönd Breta og Hollendinga, fyrir ESAdómstólnum í Icesavemálinu. Steingrímur J. ætti að fara með veggjum vegna þessa máls eftir frammistöðu sína og annarra undirlægja erlends valds og a.m.k. sjá sóma sinn í að láta vera að hrósa sér og sínum fyrir þessa niðurstöðu.
Enginn hefur gleymt framgöngu ríkisstjórnarinnar vegna Svavarssamningsins sem lagður var fram í júní 2009 og átti að keyra óséðan í gegn um Alþingi og eins er öllum í fersku minni hvernig Steingrímur J., ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir reyndu að telja almenningi trú um að Ísland yrði "Kúba norðursins" og lífskjör í landinu yrðu jafnvel verri en í Norður-Kóreu ef samningurinn yrði ekki samþykktur umsvifalaust.
Það er með ólíkindum að nokkrum skyldi detta í hug að samþykkja kúgunaraðgerðir Breta, Hollendinga, norðurlandanna og AGS vegna "erlendra skulda óreiðumanna", enda þurfti ekki annað en að lesa tilskipun ESB til þess að sjá að engin ríkisábyrgð var, eða mátti vera, á innistæðutryggingasjóðum einkabanka.
Eins og sjá má af ÞESSU bloggi frá því í júní 2009, þegar uppgjafaskilmálar Svavars og Steingríms J. komu fyrst til umræðu gat hver ólöglærður leikmaður lesið og skilið tilskipunina, enda er niðurstaða EFTAdómstólsins kristaltær þar sem enginn vafi var nokkurn tíma á því hvernig skilja átti efni tilskipunarinnar.
Niðurstaðan er mesti sigur íslensku þjóðarinnar í deilum við erlendar þjóðir síðan í þorskastríðunum, en því miður geta ekki allir kallað þetta "stórsigur fyrir okkur" og allra síst Steingrímur J. og þeir þjóðníðingar sem fylgdu honum og erlendum kúgurum að málum.
![]() |
Stórkostlegur sigur fyrir okkur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)