"Tækniundur" sem gæti umbylt umferðarmenningunni á Íslandi

Í viðhangandi "fréttaskýringu" er útskýrt "tækniundur" sem gerir bílstjórum kleyft að gefa öðrum í umferðinni til kynna að þeir hyggist beygja inn í aðra götu en þá sem þeir eru að keyra eftir í það og það sinnið.

Þrátt fyrir að fáir áratugir séu þangað til að hægt verði að halda upp á aldarafmæli þessa "tækniundurs" sem stefnuljósin eru, þá eru ótrúlega margir bílstjórar á Íslandi sem virðast aldrei hafa heyrt minnst á þessa "nýjung" og hvað þá að þeir hafi tamið sér að nota hana, sjálfum sér og öðrum vegfarendum til hægðarauka.

Ef og þegar Íslenskir bílstjórar taka almennt þetta "tækniundur" í þjónustu sína og uppgötva jafnvel til hvers götum er skipt í tvær, eða fleiri akreinar, gæti það jafnvel orðið til þess að einhverjir færu að hleypa bíl á milli akreina sem gæfi með stefnuljósi til kynna að slíkt stæði til og væri jafnvel bráðnauðsynlegt.

Þeir sem hafa ekið eitthvað erlendis hafa væntanlega tekið eftir því að bílstjórar þar virðast almennt þekkja til notkunar stefnuljósa og vita líka til hvers akreinar eru og því er alls ekki ótrúlegt að þessi þekking gæti með tímanum orðið almenn á Íslandi líka.


mbl.is Hvernig virka stefnuljós?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 25. janúar 2013

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband