5.1.2012 | 23:17
Bókhaldsóreiða hjá Framsókn?
Ríkisendurskoðandi hefur farið fram á að ríkisstyrk til Framsóknarflokksins, að upphæð sextíumilljónum króna, verði haldið eftir og hann ekki afhentur flokknum fyrr en hann skilar ársreikningi fyrir árið 2010, en frestur til þess rann út fyrir rúmum þrem mánuðum.
Það verður að teljast nokkuð hart, að flokkar sem taka þátt í því að setja lög á Alþingi um allt milli himins og jarðar og setja borgurunum hinar og þessar skorður á ýmsum sviðum og leggur á þá skyldur á öðrum skuli ekki fara að lögum sjálfir.
Alþingi setur lög um bókhald og ársuppgjör og setur fólki og fyrirtækjum fresti til að skila slíkum gögnum til viðkomandi yfirvalda að viðlögðum hörðum viðurlögum og sektum verði misbrestur á slíku, t.d. hörðum refsingum við að skila ekki ársreikningum og framtölum til skattayfirvalda, að ekki sé minnst á þær gríðarlegu álögur sem lagðar eru á rekstraraðila sem ekki skila staðgreiðsluskatti eða virðisaukaskatti á réttum tíma.
Það getur varla talist mikil kröfuharka að ætlast til þess að þeir sem setja öðrum lög og reyndar lög um sjálfa sig líka, fari eftir þeim lögum sem um þá sjálfa gilda og þá jafnt um bókhald, ársreikningaskil sem annað.
Varla liggur skýringin á þessum drætti í bókhaldsóreiðu flokksins. Eða hvað?
![]() |
Fá ekki styrk fyrr en uppgjöri er skilað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.1.2012 | 07:09
Ólga og upplausn í stjórnarliðinu
Sífellt opinberast meiri og meiri ólga, óánæja og upplausn innan beggja stjórnarflokkanna og á milli þeirra. Í Samfylkingunni grasserar óánægja með forystu Jóhönnu Sigurðardóttur í ríkisstjórninni, stefnuleysi flokksins í atvinnumálum og nú síðast ráðherrakapal hennar, þar sem hún fórnaði Árna Páli Árnasyni til þess að réttlæta brottrekstur Jóns Bjarnasonar úr embætti landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra.
Í VG hefur óánægjan með forystu Steingríms J. kraumað alllengi og þá ekki síst vegna svika hans við flest helstu stefnumál flokksins og þá ekki síst sveigju flokksins í átt til samþykktar á innlimun Íslands sem útkjálkahrepps í væntanlegt stórríki Evrópu, en andstaðan við ESB hefur frá upphafi verið einn af hornsteinum stefnumörkunar allra helstu stofnana flokksins.
Margir burðarásar flokkanna beggja koma nú fram hver af öðrum og ræða opinskátt um þá reiði sem grefur sífellt meira um sig innan flokkanna og er svo komið að ýmsir af stofnfélögum VG hafa sagt sig úr flokknum og aðrir sem lýst hafa óánægju sinni með gang mála segjast þó ennþá kjósa að halda áfram að berjast gegn málaefnasvikunum innan flokksins sjálfs.
Undiralda óánæjunnar í þjóðfélaginu endurspeglast einnig í þeim fjölda nýrra stjórnmálaflokka sem hyggjast bjóða fram í næstu Alþingiskosningum, en ef fer fram sem horfir verða allt að tíu flokkar í framboði þegar að þeim kemur.
Nái flest þau framboð fólki inn á þing, mun það ekki verða til þess að auka jafnvægi í þjóðmálunum, heldur þvert á móti auka á þá pólitísku kreppu sem fyrir er í landinu og að öllum líkindum tefja enn frekar fyrir að bjartari tímar renni upp í efnahagslífi landsins.
Næstu ár verða að öllum líkindum spennandi pólitískt séð, en landanum dýrkeypt að öðru leiti.
![]() |
Sögð hafa svikið flest loforð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)