20.1.2012 | 20:45
Ísland í milliriðil á ölmusumörkum?
Allt bendir til að Slóvenar hafi hreinlega gefið íslenska handboltaliðinu tvö mörk í leikslok, þegar Slóvenar voru fjórum mörkum yfir í leiknum og gert það til þess að koma íslenska liðinu í milliriðil án stiga, en komast þangað sjálfir með tvö stig í farteskinu.
Þetta munu þeir hafa gert í þeirri vissu að Króatar myndu vinna Noreg, sem þar með félli úr keppni og lyki þar með þátttöku á mótinu. Svona "svindl" á stórmóti er algerlega óforsvaranlegt og á ekki að líða.
Forráðamenn íslenska liðsins ættu að krefjast rannsóknar á þessu máli og sannist að þetta sé rétt, hljóta Slóvenar að verða dæmdir frá keppninni og þar með færu Norðmenn áfram í milliriðil í þeirra stað.
Verði Slóvenar ekki reknir heim með skömm eftir þessa leikfléttu geta Íslendingar varla gert annað en að afþakka þátttöku í milliriðlinum og gefa sætið eftir til Norðmanna.
Frammistaða liðsins í keppninni fram til þessa verðskuldar hvort sem er ekki frekari þátttöku í þessari keppni.
![]() |
Þjálfarinn gaf skipun um að gefa eftir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
20.1.2012 | 18:27
Salti stráð í fjölmiðlasárið
Í síðustu viku var þjóðin særð holundarsári með æsifréttum fjölmiðla af iðnaðarsalti sem notað hefur verið í matvælaiðnaði hér á landi undanfarin ár.
Matís og Heilbrigðisnefnd Reykjavíkur hafa nú, með mælingum, staðfest fullyriðnar framleiðanda saltsins um að saltið sé framleitt undir ströngum heilbrigðiskröfum og sé í raun enginn munur á iðnaðarsalti og matarsalti, annar en kornastærðin.
Þar með er komið í ljós að fjölmiðlafárið var einungis stormur í vatnsglasi, eins og fjölmiðlarnir blása iðulega upp og valda með því miklum usla í þjóðfélaginu, oft af litlu tilefni eins og í þessu máli.
Þegar upp er staðið hafa fjölmiðlarnir sært sjálfa sig mest með þessu upphlaupi og nú má segja að iðnaðarsalti sé stráð í það djúpa sár.
![]() |
Iðnaðarsaltið ekki hættulegt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.1.2012 | 14:52
Pólitískur sakamálafarsi
Nú fer fram á Alþingi pólitískur farsi, dulbúinn sem umræða um sakamál, og fara nokkrir þingmenn VG og Samfylkingar með helstu hlutverkin í skrípaleiknum. Hlutverk þessara þingmanna er að þykjast ekki hafa vit á hlutverki sínu sem ákærenda í sakamáli og láta eins og þeim komi málið gegn Geir H. Haarde ekki við lengur, eftir farsann sem leikinn var í þinginu haustið 2009 þegar tókst að hringla málum svo að engum ráðherra var stefnt fyrir Landsdóm öðrum en Geir.
Atli Gíslason, sem var formaður nefndarinnar sem lagði til að fjórir ráðherrar yrðu kærðir, er þó maður að meiri eftir að hann viðurkenndi að mistök hefðu verið gerð við afgreiðslu málsins, en hann sagði m.a: í þinginu í dag: "Ég hygg að okkur hafi orðið á mistök, þar á meðal þeim sem hér stendur, og dæmi það ef til vill fyrst og fremst á því, að flestir ef ekki allir þingmenn yfirgáfu þingsal eftir atkvæðagreiðsluna með stein í maganum og óbragð í munninum. Ef til vill olli sú spenna og geðshræring, sem var í þingsal, því að atkvæðagreiðslu um málið í heild var ekki frestað. Það er gott að vera vitur eftir á og rétt að vera vitur eftir á geri maður mistök."
Atli sagði einnig að algerlega óeðlilegt væri að vísa tillögu Bjarna Benediktssonar um niðurfellingu málsins fyrir Landsdómi frá þinglegri meðferð og að tillögunni ætti að vísa til Saksóknarnefndar Alþingis, þar sem nefndin og þar með Atli sjálfur, ætti að taka tillöguna til vandlegrar og efnislegrar umföllunar.
Það er ekki nema von að Atla hafi ekki verið vært innan þingflokks Vinstri grænna.
![]() |
Tel að við höfum gert mistök |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)