Ellen DeGeneres og ég

Uppi varð fótur og fit í fjölmiðlum í dag, þegar spurðist út að grínarinn og þáttastjórnandinn Ellen DeGeneres væri stödd á landinu og hefði sést á gangi í Reykjavík og væri líklega hingað komin til að taka þátt í Gleðigöngu Hinsegn daga.

Síðar kom í ljós að þetta var allt saman tómur misskilningur og einhver hafði ruglað grínistanum og þýskum ferðamanni saman en engum fjölmiðli dettur í hug að birta mynd af túristanum og hvað þá að birta við hann langt og gáfulegt viðtal í tilefni ruglingsins.

Annað sem er afar umhugsunarvert við þennan fréttaflutning er að ég hef sjálfur verið margoft á gangi um göturnar í 101 Reykjavík, án þess að nokkur einasti fjölmiðill hafi sýnt því minnsta áhuga. Einnig hef ég verið í bænum og fylgst með Gleðigöngunni árum saman og aldrei hefur verið á það minnst í prent- eða ljósvakamiðlum.

Hvað skyldi það vera sem Ellen DeGereres hefur fram yfir mig til að verðskulda alla þessa athygli og vera meira að segja ruglað saman við hvern annan venjulegan túrista?

Kannski að maður ætti að hafa myndavél dinglandi á vömbinni næst þegar maður fer í bæinn.


mbl.is Leiðrétt: Ellen DeGeneres ekki á landinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Læknar hér og læknar þar

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, ætlar að beita sér fyrir lækkun skatta þeirra lækna sem starfa í dreifbýlinu, í þeirri von að það verði til þess að stöðva flótta þeirra til stórborganna, þar sem vinnuaðstaða er betri og álag minna.

Íslenskir læknar flýja unnvörpum til annarra landa undan launastefnu íslensku ríkisstjórnarinnar og ekki síður skattahækkanabrjálæði hennar, en hvort tveggja helst í hendur við þá stefnu ríkisstjórnarinnar að leggja heilbrigðiskerfið í rúst með niðurskurði á rekstrarfé þess, sem helst kemur út með fækkun starfsfólks og auknu álagi á það sem enn er við störf.

Hér á landi er ekki einu sinni hægt að manna læknastöður í borginni, hvað þá í minni sveitarfélögunum, sem t.d. sést af því að fólk þarf að bíða upp undir áratug til þess að fá fastan heimilislækni, ef hann fæst þá nokkurn tíma.

Jóhann hefði átt að leita ráða hjá Merkel um fleira en bara ESB, þegar hún heimsótti hana í síðasta mánuði.


mbl.is Hyggst lækka skatta hjá læknum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráðherra á svörtu

Steingrímur J. er sannarlega ráðherra svarta markaðarins á Íslandi og hefur hann staðið sig með afbrigðum sem slíkur, enda blómstrar svört atvinnustarfsemi og skattaundandráttur sem aldrei fyrr.

Iðnaðarmenn fást ekki til starfa hjá löglegum fyrirtækjum, þrátt fyrir endurteknar starfsauglýsingar og þrátt fyrir að fjöldi manna í viðkomandi starfsgrein séu á atvinnuleysisskrá. Skýringin er auðvitað sú, að þeir eru í vinnu á hinum svarta markaði, því slík er skattpíningin orðin á löglegan atvinnurekstur að bæði er orðið erfitt að manna þar stöður og fyrirtækin þar að auki alls ekki í stakk búin til að standa í samkeppni við þá, sem engin opinber gjöld borga af rekstri sínum.

Annað dæmi um viðskipti, sem færast í síauknum mæli yfir á svarta markaðinn, eru viðskipti með áfengi og tóbak, því með skattahækkanabrjálæðinu á þeim vörum hefur Steingrímur J. ýtt æ stærri hluta þeirra viðskipta yfir í neðanjarðarhagkerfið, því smyglað áfengi og landi eru sívaxandi hluti viðskiptanna með þessar vörur. Þó einhverjir fagni minnkandi áfengissölu í "ríkinu", þá er sá fögnuður byggður á fölskum forsendum, því áfengisneysla fer ekkert minnkandi, viðskiptin færast einfaldlega til þeirra sem okra ekki eins mikið og Steingrímur J.

Steingrímur J. er sannarlega ráðherra svarta markaðarins.


mbl.is Ein umsókn eftir 3 auglýsingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 3. ágúst 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband