Bændur í ánauð sláturleyfishafa?

Sláturleyfishafar, sem eru í raun með einokun á slátrun búfjár í landinu, neita að greiða bændum uppsett verð fyrir það lambakjöt, sem bændur þurfa að selja þeim í haust.

Þetta hlýtur að vera eina dæmið um það, að kaupandi vöru geti ákveðið sjálfur hvaða verð hann greiðir fyrir þá vöru sem hann kaupir, því venjan er sú að seljendur verðleggja vörur sínar og síðan ræður eftirspurnin hvort kaupendur sætta sig við uppsett verð.

Sláturleyfishafar hafa svo frjálar hendur um verðlagningu sína til verslana, sem aftur hafa frjálsa álagningu og geta því lagt á landbúaðarvörur, eins og aðrar, eins mikið og kaupendur láta bjóða sér. Að vísu eru kaupendur matvara í erfiðri aðstöðu gagnvart seljendum, þar sem allir neyðast til að borða, en þeir geta þó fært sig á milli vöruflokka, þegar verðlagning einstakra vara gengur fram úr öllu hófi.

Þó flestum þyki verð á landbúnaðarvörum vera of hátt nú þegar, er þessi einokunarstaða sláturleyfishafa eins og draugur úr fortíðinni, þegar kaupfélögin réðu logum og lofum á þessum markaði.

Einkennilegast af öllu er, að bændur skuli sætta sig við þetta fyrirkomulag á verðlagningu þeirra eigin framleiðslu.


mbl.is Féllust ekki á kröfur bænda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vaxtaokrið er verra en verðtryggingin

Lífeyrissjóður veslunarmanna tilkynnti um lækkun vaxta, frá og með morgundeginum, á lánum sem bera fasta vexti, úr 4,9% í 4,5%, um leið og tekið er fram í yfirlýsingunni að sjóðurinn hafi ávallt lánað sjóðfélögum sínum húsnæðislán á hagstæðum kjörum.

Fastir vextir af verðtryggðum lánum upp á 4,9% eru ekki "hagstæð kjör" og það eru 4,5% vextir ekki heldur.  Hér á landi hefur þvílíkt vaxtaokur tíðkast um áratugaskeið, að sumum gæti þótt þetta vera tiltölulega lágir vextir þó þetta séu í raun okurvextir, þó vissulega sé þetta minna okur en ýmsar aðrar lánastofnanir stunda, nú sem áður.

Eðlilegir vextir af verðtryggðum lánum ættu alls ekki að vera mikið hærri en 2-2,5%, enda væru slíkir vextir algerlega eðlilegt endurgjald fyrir slík lán, enda höfuðstóllinn tryggður með verðtryggingunni. Íslendinar hafa hins vegar látið bjóða sér algert vaxtaokur, enda lánaóðir flestir og verið meira en viljugir til að taka öll þau lán, sem í boði hafa verið, án þess að velta vaxtakjörunum nokkurn tíma fyrir sér. 

Enginn berst fyrir eðlilegum vaxtakjörum í landinu, en hins vegar liggja fáir á liði sínu í skömmunum út af verðtryggingunni og láta eins og hún sé allt að keyra um koll í húsnæðislánum landsmanna. Henni er meira að segja kennt um að höfuðstóll lána skuli ekki lækka mikið á fasteignalánum, enda þótt þar sé um endurgreiðslufyrirkomulagið að ræða, þ.e. annuitetslánin, en ekki verðtrygginguna sem því veldur.

Óskandi væri að baráttunni yrði beint að raunverulega vandamálinu, sem er vaxtaokrið og verðbólgan, en ekki eingöngu rætt um verðtrygginguna, enda ekki vandamál  sem slík, ef verðbólga er lítil.  Þar að auki vex kaupmáttur meira en neysluverðsvísitalan í eðlilegu efnahagsumhverfi og algerlega ófært að miða eingöngu við kreppuárin frá 2008.

Kreppunni mun linna áður en yfir lýkur, a.m.k. fljótlega eftir að skipt verður um ríkisstjórn í landinu. 

 


mbl.is Lækka vexti á lánum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Andstaða við evruna eykst - í evruríkjum

ESBríkin, flest, hafa átt við efnahagserfiðleika að etja undanfarið og þó þeir hafi verið mismiklir eftir löndum, hefur nokkuð stór hluti evrulandanna átt bágast og það svo, að evran sjálf á orðið í vök að verjast og ekki útséð um það ennþá hvað um hana verður.

Ef skoðanakönnun sem gerð var í Hollandi er lýsandi fyrir afstöðu almennings í þeim evrulöndum sem betur standa um þessar mundir, er greinilegt að hratt fjarar undan samstöðunni um gjaldmiðilinn, að ekki sé talað um afstöðuna til aðstoðar við skuldugustu og verst stöddu evrulöndin.

Samkvæmt skoðanakönnun fyrir dagblaðið AD í Hollandi vilja 54% aðspurðra að Grikkjum verði vikið af evrusvæðinu og rétt tæpur helmingur vill að evran verði aflögð og gömlu gjaldmiðlarnir verið teknir í notkun aftur.

Eins kemur fram í frétt Reuters af málinu, að meirihluti vill ekki að Ítalíu og Spáni verði bjargað, lendi löndin í skuldakreppu, álíka þeirri sem hrjáð hefur mörg önnur evrulönd. Í Reutersfréttinni kemur þetta fram um þessa afstöðu: "A Maurice De Hond poll published on Sunday showed that 60 percent of those surveyed wanted the Netherlands to stop lending money to other euro zone countries. A week ago, 55 percent said support should not be extended to Spain and Italy if they needed it."

Svo láta ESBsinnar á Íslandi eins og öll umræða um efnahagsástandið í Evrópu og vandamálin með evruna séu hreinn uppspuni andstæðinga þess að Ísland verði innlimað sem útkjálkahreppur í þetta vandamálasamband. 


mbl.is Vilja Grikki af evrusvæðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 15. ágúst 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband