Hækka vexti í niðursveiflu?

Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, segir meiri líkur en minni á því að stýrivextir bankans verði hækkaðir í ágúst vegna þess að stjórnvöld ráða ekkert við verðbólguþróunina í landinu.

Verðbólgan núna er af flestum rakin til þess að gengi krónunnar hefur verið að veikjast í gjaldeyrishöftunum þó seðlabankinn ætti að geta ráðið genginu, einmitt vegna haftanna, og því hafa innfluttar vörur hækkað mikið upp á síðkastið. Aðrir vilja kenna of miklum launahækkunum um að eiga sinn þátt í verðbólgunni og enn aðrir hafa bara ekki hugmynd um orsakirnar, þar á meðal er ríkisstjórnin sem heldur að skattahækkanir dragi úr verðbólgu í stað þess að auka hana.

Samkvæmt upplýsingum úr skattskrám eru Íslendingar hættir að taka ný lán og eru heldur farnir að greiða niður þau eldri, enda er enginn að fjárfesta eitt eða neitt, hvorki einstaklingar né atvinnulífið.

Að ætla að hækka vexti á lánum þegar engin eftirspurn er eftir þeim er álíka gáfulegt og að stórhækka verð á vörum sem seljast alls ekki.


mbl.is Líklegt að vextir hækki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sleppur út "á besta aldri"

Samkvæmt norskum lögum er ekki hægt að dæma ómennið Breivik nema í tuttuguogeins árs fangelsi verði hann ákærður fyrir hryðjuverk, en a.m.k. 76 manns létu lífið í sprengjuárás hans í Osló og skotárásinni á unglingana á Utöya.

Ræddur er sá möguleiki að ákæra á þeim grundvelli að um glæp gegn mannkyninu hafi verið að ræða og þá gæti hámarksrefsing orðið þrjátíu ára fangelsisdómur.

Hvernig sem ákært verður mun þessi viðbjóður ganga laus aftur meðal manna þegar hann verður um sextugt, eða ennþá á "besta aldri". Það er lítið tilhlökkunarefni fyrir samfélagið að vita af slíkum fjöldamorðingja lausum á nýjan leik.

Svona verknað hefði maður haldið að enginn myndi fremja, nema sá sem væri svo alvarlega andlega bilaður, að hann teldist eiga að vistast á öryggisgeðdeild til æviloka og án nokkurs möguleika á að fá að leika lausum hala á meðal manna á ný.


mbl.is Hámark 30 ára fangelsi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 26. júlí 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband