Guðmundur aflétti leyndinni sjálfur

Í fréttum RÚV í kvöld var því haldið fram að Landsbankinn væri búinn að afskrifa um tuttugu milljarða króna af skuldum Guðmundar Kristjánssonar, útgerðarmanns í Brimi, og fyrirtækjum sem honum tengjast.

Landsbankinn hefur sent frá sér athugasemd vegna fréttarinnar og segir hana ranga og villandi og þar að auki sé óskildum hlutum ruglað saman, en hins vegar geti bankinn ekkert upplýst um raunveruleika málsins vegna bankaleyndar.

Guðmundur sjálfur er ekki bundinn af neinni slíkri leyndarkröfu og ætti því í anda opinnar umræðu, þar sem allt er uppi á borðum og almenningi aðgengilegt, að upplýsa málið og skýra allar fjármálatilfærslur sem fram hafa farið frá hruni vegna hans sjálfs og allra fyrirtækja sem honum tengjast.

Það á engin "bankaleynd" að hvíla yfir því hvernig "skuldaaðlögun" fer fram hjá þeim sem mest mjólkuðu af lánum út úr bankakerfinu á árunum fyrir bankahrunið, sem einmitt varð vegna slíkra "viðskipta".

Þó Landsbankinn geti ekki leiðrétt frétt RÚV getur Guðmundur sjálfur gert það mjög auðveldlega.


mbl.is „Alvarlegar athugasemdir“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innlimunarferlið að ESB er á ábyrgð Ögmundar

Ögmundur Jónasson, Innanríkisráðherra, fór mikinn í ræðu á 50 ára afmælisráðstefnu embættis ríkissaksóknara í dag og gagnrýndi afskipti ESA af ýmsum málum hérlendis harðlega.

Ástæða gagnrýninnar var ekki síst afskipti og fyrirspurn ESA af lánveitingu Reykjavíkurborgar til OR og sagði Ögmundur m.a. um þau afskipti: "Lýðræðið – vilji almennings – er þannig dreginn í efa. Ég spyr: Hvert erum við eiginlega að halda?"

Ögmundur veit auðvitað svarið við eigin spurningu, um hvert við séum eiginlega að halda.  Hann þykist vera að vara við inngögnu í ESB, enda sé vilji almennings fótum troðinn af því bákni.

Ögmundur samþykkti sjálfur stjórnarsáttmála við Samfylkinguna, sem innihélt sameiginlegan vilja beggja stjórnarflokkanna til innlimunar Íslands, sem afdalahrepps, í væntanlegt stórríki ESB.

Það sem Ögmundur þykist vera að gagnrýna er á hans eigin ábyrgð og undan því getur hann ekki vikist. 


mbl.is Lýðræðið dregið í efa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hvers að byggja nýjan spítala?

Í undirbúningi er að byggja nýtt sjúkrahús upp á tugimilljarða króna, sem ríkisstjóður getur ekki fjármagnað, en ætlar að láta lífeyrissjóðina reisa og leigja það síðan af þeim aftur. Að sjálfsögðu munu árlegar leigugreiðslur nema hundruðum milljóna króna, sem ríkissjóður mun eiga í erfiðleikum með að greiða.

Ekki er hægt að reka núverandi sjúkrahús eða heilbrigðiskerfi skammlaust, enda niðurskurður viðvarandi á öllum sviðum, endurnýjun tækja engin nema fyrir gjafafé og ekki hægt að greiða læknum og hjúkrunarfólki samkeppnishæf laun.

Í viðtali við Moggann segir Birna Jónsdóttir, formaður læknafélagsins, m.a: "Íslenskir læknar gera þá kröfu að ríkisstjórn og velferðarráðherra komi fram með skýra áætlun um hvernig þessari þróun skal snúið við, það er á ábyrgð framkvæmdavaldsins að sjá til þess að gera samninga og ráða í vinnu lækna til að sinna sjúkratryggðum Íslendingum."

Á meðan ekki er einu sinni hægt að útvega fólki heimilslækni, þrátt fyir sex ára bið, ekki hægt að reka heilbrigðiskerfið í núverandi mynd og sjúkrahús og heilbrigðisstofnanir fá ekki eðlilegt viðhald, hvorki á húsnæði eða tækjum, er fáránlegt að láta sér detta í hug að ráðast í byggingarframkvæmdir við nýtt risahúsnæði.

Þó húsið rísi innan fárra ára munu líða áratugir áður en búið verður að búa það þeim tækjum sem til þarf og þá mun það líklega verða orðið úrelt og líklegast að ráðast þurfi í meiriháttar breytingar til þess að taka það í notkun. 

 


mbl.is Þriðji hver læknir erlendis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 1. júlí 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband