21.6.2011 | 19:04
Jón Gnarr og Besti hafa runnið sitt skeið
Besti flokkurinn kom nýr inn í stjórnmálabaráttuna fyrir borgarstjórnarkosningarnar í fyrra og fékk ótrúlega mikið fylgi, eða um 34%, enda kraumaði mikil ólga í þjóðfélaginu eftir útrásar- og bankahrunið og kjósendur vildu refsa "gömlu" stjórnmálaflokkunum með því að greiða þessum nýja flokki og grínistanum sem leiddi hann atkvæði sitt.
Besti flokkurinn myndaði meirihluta í borgarstjórn með Samfylkingunni, sem beðið hafði algert afhroð í kosningunum og samþykkti því hvað sem var til að komast í meirihlutasamstarf, þar á meðal að Jón Gnarr fengi borgarstjórastólinn í sinn hlut.
Nánast strax kom í ljós að góður grínisti er ekki það sama og góður borgarstjóri, enda sýndi það sig að hann réð alls ekki við starfið og eftir að hafa gefist upp á þeirri hugmynd sinni að fjölga borgarstjórunum í tvo, kom hann flestum verkefnum borgarstjóra yfir á embættismenn, aðallega skrifstofustjóra borgarinnar, en hefur síðan aðallega fengist við að skemmta sjálfum sér og félögum sínum í meirihlutanum.
Skoðanakönnun Capacent sýnir að fylgið er algerlega hrunið af Besta flokknum og aðeins 17% Reykvíkinga treysta Jóni Gnarr sem borgarstjóra, en 50,5% telja Hönnu Birnu Kristjánsdóttur best fallna til að gegna embættinu.
Þetta fylgishrun á aðeins einu ári hlýtur að vera nánast einsdæmi í stjórnmálasögunni og það þó víðar væri leitað en einungis hér á landi.
![]() |
Hanna Birna nýtur mest trausts |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
21.6.2011 | 16:09
Ríkisstjórnin stendur aldrei við sín loforð
Aðilar vinnumarkaðarins hafa nú staðfest kjarasamningana sem undirritaðir voru þann 5. maí s.l., þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi ekki staðið við loforðin sem hún gaf í tengslum við þá, um ýmsar ráðstafanir til að koma atvinnu- og efnahagslífinu á hreyfingu.
Það, sem ríkisstjórnin lofaði helst að gera, var að hætta að flækjast fyrir þeim möguleikum, sem til skoðunar hafa verið undanfarna mánuði, til uppbyggingar orkufreks iðnaðar, ásamt því að beita sér fyrir sátt um fiskveiðistjórnunarkerfið og jafnframt þóttist stjórnin ætla að beita sér fyrir stórátaki í vegagerð.
Öll þessi loforð voru endurnýtt, en þau voru inni á loforðalista ríkisstjórnarinnar við undirritun Stöðugleikasáttmálans í júní 2009. Líklegra er, en hitt, að enn verði hægt að nýta sama loforðalistann við endurnýjun kjarasamninga árið 2014, nema ríkisstjórnin hrökklist frá völdum fljótlega og ný stjórn taki að sér að efna fyrirheitin.
Svo virðist sem aðilar vinnumarkaðarins hafi gert þá kröfu að vegaframkvæmdir yrðu fjármagnaðar með aukinni skattpíningu, enda var það upphaflega ætlun Ögmundar að fara þá leið, en guggnaði á því vegna eindreginna mótmæla fjörutíuþúsund skattgreiðenda.
Hafi ekki verið um neina baktjaldasamninga um skattpíningu vegna vegagerðar á suðvesturhorni landsins að ræða, er óhætt að fagna staðfestingu kjarasamninganna, enda hefur ríkisstjórnin þá enga afsökun fyrir áframhaldandi ræfildómi í efnahagsstjórnuninni.
![]() |
Staðfesta kjarasamning |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.6.2011 | 07:01
Er SA að heimta aukna skattlagningu?
Getur það verið að Samtök atvinnulífsins og jafnvel ASÍ séu að gera þá kröfu á hendur ríkisstjórninni, að skattar verði hækkaðir til þess að flýta vegaframkvæmdum yfir Hellisheiðina?
Ekki var annað að heyra á fulltrúa SA í sjónvarpsfréttum fyrir nokkrum dögum, en að samtökunum fyndist alveg sjálfsagt að leggja nýja skatta á alla þá, sem leið eiga um suðvesturhorn landsins, enda yrði ekki byrjað að innheimta þá fyrr en eftir tvö til þrjú ár.
SA hafa kvartað mikið yfir þeim skattahækkunum, sem yfir atvinnulífið hafa dunið undanfarin tvö ár og því með ólíkindum ef samtökin leyfa sér að krefjast skattahækkana á almennt launafólk í þeim eina tilgangi að útvega einum til tveim verktökum vinnu við vegaframkvæmdir, sem ekki einu sinni eru mjög mannaflsfrekar.
Almenningur hefur þegar hafnað sérstökum vegasköttum sem kæmu sem viðbót við alla aðra gjaldapíningu sem skattgreiðendur þurfa að þola vegna notkunar á bifreiðum sínum.
![]() |
Kallað eftir skýrari svörum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)