Alltaf jafn snöggir, þingmennirnir

Þann 12. apríl 2010 skilaði Rannsóknarnefnd Alþingis skýrslu sinni um aðdraganda falls bankanna og hverjir bæru þar mesta sök, en niðurstaða nefndarinnar var að ótvírætt bæru eigendur og stjórnendur bankanna aðalábyrgðina, enda eru þeir flestir eða allir með stöðu sakborninga hjá embætti sérstaks saksóknara.

Nú hefur Allsherjarnefnd Alþingis lagt fram tillögu um að sambærileg rannsókn skuli fara fram vegna hruns sparisjóðakerfisins í landinu, eða eins og segir í greinargerð nefndarinnar með tillögunni: "Þrátt fyrir þessi miklu áföll innan sparisjóðakeðjunnar á síðustu árum er ekki fjallað sérstaklega um málefni sparisjóðanna í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsök falls íslensku bankanna 2008. Þar er þó bent á að það verðskuldi slíka rannsókn. Undir það tók síðan Alþingi með samþykkt framangreindrar þingsályktunartillögu þingmannanefndar sem fjallaði um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis."

Þingmannanefnd Atla Gíslasonar, sem vitnað er til í lokasetningunni hér að framan, skilaði sínum niðurstöðum í fyrrasumar, þannig að það hefur tekið Alsherjarnefnd Alþingis ótrúlega langan tíma að sjóða saman tillögu um rannsókn á falli sparisjóðanna og er illskiljanlegt í hverju sú töf liggur. Líklega er skýringin þó ekki flóknari en það, að allt sem stjórnarmeirihlutinn á Alþingi tekur sér fyrir hendur tekur ótrúlega langan tíma og niðurstöður oftast ófullnægjandi og stundum algerlega út í hött.

Rannsóknarnefnd sparisjóðanna á síðan ekki að skila niðurstöðum sínum fyrr en 1. september 2012, en þá verða liðin tæp fjögur ár frá bankahruninu og líklega allar hugsanlegar sakir fyrndar, þannig að ekki verði hægt að draga nokkurn mann fyrir dómstóla, jafnvel þó ásæða þætti til.

Röggsemi hefur aldrei verið aðalsmerki núverandi stjórnarmeirihluta á Alþingi.  Þetta er aðeins eitt dæmi af mörgum eins og skuldarar þessa þjóðfélags geta t.d. borið vitni. 

 


mbl.is Fall sparisjóðanna rannsakað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hafa ríkisstjórnin og erlendir fjárfestar gleymt Icesave?

Fyrir örfáum vikum margítrekuðu Steingrímur J., Jóhanna Sig. og aðrir ráðherrar þá skelfingu sem ríða myndi yfir þjóðarbúið ef þrælasamningurinn um Icesave yrði ekki samþykktur í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ráðherrarnir, með seðlabankastjóra sér til fulltingis, sögðu kreppuna dýpka til muna, efnahagsbati yrði enginn á næstu árum og algerlega yrði útilokað fyrir ríkissjóð, ríkisfyrirtæki og aðra að fá erlend lán og engir erlendir fjárfestar myndu fást til að millilenda á Keflavíkurflugvelli, hvað þá að leggja fjármagn til atvinnuskapandi verkefna hérlendis.

Núna, þessum fáu vikum síðar, keppist Iðnaðarráðherra við að lýsa því hve mikið sé framundan í orku- og stóriðjuuppbyggingu og í raun bíði erlendir fjárfestar í röðum á biðstofunni eftir að fá að taka þátt í hinum ýmsu stórverkefnum. Á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar sagði Jóhanna að kreppan væri búin og þvílík birta í efnahagslífinu, að helst þyrfti þjóðin að ganga með sólgleraugu til að fá ekki ofbirtu í augun af allri þeirri hagsæld, sem framundan væri.

Nú er Steingrímur J., í samstarfi við erlendar fjármálastofnanir, að undirbúa útgáfu ríkisskuldabréfa í erlendri mynt, sem reiknað er með að peningafurstar erlendis muni gleypa við, enda sé ríkissjóður Íslands með allra traustustu skuldurum, ekki síst í samanburði við evruríkin, sem mörg hver eru á barmi gjaldþrots, þrátt fyrir að hafa "traustan" gjaldmiðil, sem ráðherrarnir keppast við að segja umheiminum að Ísland hafi alls ekki, heldur þvert á móti "handónýta krónu", eins og Árni Páll segir, en líkir sér að vísu við "fábjána", varandi skilning á fjármálum.

Alveg er það stórmerkilegt hvað Ísland býr við gleymið ráðherralið, eða ef til vill ósannsögult og ómerkilegt, þegar að samskiptum við almenning kemur.


mbl.is Undirbýr útgáfu erlendra skuldabréfa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samræma sjúkra- og lyfjaskrár

Umfjöllun Kastljóss undanfarið um læknadópið hefur verið sláandi og varpað skýru ljósi á hversu útbreitt vandamálið er. Að þeir fimm læknar, sem mest ávísa á lyf úr þeim lyfjaflokkum sem helst eru misnotaðir, skuli á árinu 2009 hafa gefið út lyfseðla fyrir slíkum lyfjum fyrir 160 milljónir króna, eru ótrúlegar og enn ótrúlegra að sá sem stórtækastur er skuli vera nálægt helmingi þeirrar upphæðar.

Miðað við upplýsingarnar sem fram komu í Kastljósinu um verð á þessum lyfjum á götunum, þá er augljóst að veltan á þessu læknadópi nemur einhverjum milljörðum króna. Ekki má gleyma því að þetta læknadóp er stórlega niðurgreitt úr ríkissjóði og auðvitað alger óhæfa að nokkur læknir skuli misnota aðstöðu sína á þennan hátt, ekki síst í því ljósi að þeir vinna eið að því að vernda og bjarga mannslífum, en ekki steypa þeim í helvíti eiturlyfjafíknar.

Á tækni- og tölvuöld er auðvelt að koma á samræmdum sjúkra- og lyfjaskrám, þar sem allir læknar hafi aðgang að allri sjúkrasögu sjúklinga, allri læknismeðferð þeirra um ævina og alla lyfjanotkun. Svo sjálfsagt ætti að vera að koma slíkum skrám í gagnið, að ekki ætti einu sinni að þurfa að ræða málið meira.

Slíkur sameiginlegur aðgangur lækna að sjúkrasögu sjúklinga væri ekki eingöngu til þess að koma í veg fyrir misnotkun sjúklinga á kerfinu og óhóflegar ávísanir einstakra lækna á ávanabindandi lyf, heldur ekkert síður vegna hagsmuna "venjulegra" sjúklinga, sem oft þurfa að leita til lækna með mismunandi sérfræðinám og ekki síður vegna þess mikla fjölda, sem ekki hefur fastan heimilislækni og hittir því einn lækni í dag, en annan næst og þarf þá að endurtaka alla sína sjúkrasögu og viðkomandi læknir hefur engin tök á að sannreyna söguna, eða samhæfa þá meðferð sem hann teldi nauðsynlega.

Það er allra hagur að samræma sjúkra- og lyfjaskrár strax og þó fyrr hefði verið.


mbl.is Ávísuðu lyfjum fyrir 160 milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 31. maí 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband