Lýðskrum í hæstu hæðum

Í dag fengu margir helstu lýðskrumarar landsins kjörið tækifæri til að koma boðskap sínum á framfæri við þjóðina, sumir á 1. maí fundum vítt og breitt um landið og Ögmundur Jónasson, fékk að koma sínu skrumi til skila við messu í Neskirkju.

Boðskapur Ögmundar var sá, að enginn í landinu ætti að fá greitt meira í launaumslagið en þreföld lágmarkslaun og með því mætti koma á endanlegu réttlæti í okkar ágæta, en fátæka þjóðfélagi.

Svipuð launastefna var rekinn í kommúnistaríkjunum og hvergi hafa spilling og mútugreiðslur af öllum toga verið meira vandamál, en einmitt í þeim ríkjum. Ekki var hægt að fá tíma hjá lækni, nema greiða aukalega fyrir það undir borðið og nánast sama á hvaða sviði það var, ekkert fékkst gert nema gegn aukagreiðslum, sem viðkomandi móttakandi leit einungis á sem launauppbót, vegna ósanngjarnra kjara sem hann naut frá vinnuveitanda sínum, ekki síst ef um opinbera aðila var að ræða.

Ögmundur var sjálfur formaður launþegasamtaka í langan tíma og aldrei heyrðist af þessari "réttlætiskröfu" úr þeim herbúðum undir hans stjórn, en hins vegar vita allir að hjá hinu opinbera eru launataxtarnir aðeins til málamynda í mörgum tilfellum og alls kyns aukagreiðslur tíðkaðar, svo sem fyrir óunna yfirvinnu, bifreiðastyrkir, að ekki sé talað um titlatogið sem notað er til að hækka fólk í töxtum, t.d. með skrifstofustjóra-, deildarstjóra- og fulltrúatitlum.

Lýðskrumið er í sjálfu sér ekkert skemmtilegt áheyrnar, en þó er ekki hægt annað en hlæja að því.


mbl.is Hæstu laun verði þreföld lægstu laun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forsjárhyggjuleysi og atvinnubótavinna

Skipulagsráð Reykjavíkur hefur krafið fjármálaráðherra svara um áætlanir ríkisins varðandi nýtingu mannvirkja og lóða sem eru í eigu ríkisins og tengjast rekstri Borgarspítalans, en þar á að leggja niður allan rekstur þegar og ef nýr Landsspítali verður tekinn í notkun.

Spyrja má þeirrar spurningar, hvort nokkurt vit sé í að fara af stað með byggingu þess nýja risavaxna hátæknisjúkrahúss sem fyrirhugað er að reisa við Hringbrautina, þegar ríkið hefur ekki efni á að reka núverandi heilbrigðisþjónustu, hvorki með þeim mannafla sem til þarf, sinnir ekki viðhaldi þeirra fasteigna sem fyrir eru og getur ekki fjármagnað nauðsynlegustu tækjakaup, en þau hafa að stórum hluta verið fjármögnuð með söfnunar- og gjafafé einstaklinga og félagssamtaka.

Fyrirséð er að ríkið mun ekki hafa efni á að fjármagna þetta nýja sjúkrahús, enda er skuldastaða ríkissjóð slík, að lánshæfi hans leyfir engar frekari lántökur á næstu árum.  Ríkissjóður hefur ekki peninga til að fjármagna nauðsynlegustu vegagerð á næstu árum og er þó sú upphæð sem til þess vantar einungis brot af þeim milljarðatugum, sem í byggingu sjúkrahússins þarf.

Fjármögnunina á að leysa með stofnun sérstaks byggingar- og rekstrarfélags spítalans og síðan er ríkinu ætlað að greiða árlega leigu í nokkra áratugi til að niðurgreiða stofnkostnaðinn.  Allt er þetta gert til að fela raunverulega skuldastöðu ríkissjóðs samkvæmt grískri fyrirmynd, en undanfarin misseri hafa einmitt leitt í ljós til hvers slíkar hudakúnstir leiddu fjárhag gríska ríkisins.

Eins og ástand ríkisfjármálanna er nú og verður næstu árin a.m.k. hlýtur að vera viturlegra að endurnýja það húsnæði sem fyrir er til sjúkrahúsareksturs í Reykjavík og nágrenni og stækka það húsnæði, ef brýn nauðsyn er á því á næstunni, í stað þess að fara af stað með risabyggingu, sem vitað er að mun kosta tugi milljarða króna og auðvitað má gera ráð fyrir að sá byggingakostnaður fari langt fram úr öllum áætlunum, eins og gerst hefur í nánast öllum tilfellum með byggingaframkvæmdir opinberra aðila.

Ekki er réttlætanlegt að fara af stað í svona risaverkefni eingöngu á forsendum atvinnubóta, því vafalaust má skapa jafn mörg störf í tengslum við viðhald og endurnýjun núverandi húsakosts.

Bæði þjóðin og ríkið verða að fara að venja sig á að sníða stakk eftir vexti.  Geðtruflunartímabili fjárfestinga og eyðslu lauk á árinu 2007 og vonandi verður langt í að það gleymist.

Það er ekki nóg að segjast hafa lært af reynslunni, það þarf líka að læra að nýta sér þann lærdóm.


mbl.is Vilja vita hvað verður um Borgarspítalann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Megi dagurinn færa launþegum gæfu og hagsæld

Launþegum landsins er óskað til hamingju með alþjóðlegan baráttudag sinn og sú von sett fram að í kjölfar hans setjist aðilar vinnumarkaðarins niður og ljúki á allra næstu dögum við þá kjarasamninga, sem unnið hefur verið að undarfarið og ætti að vera hægt að ganga frá með litlum fyrirvara, ef vilji er raunverulega fyrir hendi.

Undanfarna daga hafa forkólfar launþegafélaganna verið að koma sér í gírinn fyrir ávörp sín í tilefni dagsins og venju samkvæmt munu þau vera uppfull að stóryrðum og skömmum út í vinnuveitendur og sitjandi ríkisstjórn og hafa ýmis ummæli foringjanna á síðustu dögum gefið tóninn fyrir innihald hátíðarræðanna.

Á morgun mun innihald flestra hátíðarávarpanna vera gleymt, enda hugsuð sem einnota og verða ekki dregin fram aftur fyrr en að ári og þá verður orðalagi breytt í takt við tímann og það ástand sem uppi verður í þjóðfélaginu á þeim tíma og svo mun áfram ganga, enda hafa þessi ávörð lítið breyst undanfarna áratugi, eða eins lengi og elstu menn muna.

Fram eftir miðri síðustu þurftu launþegar að berjast harði baráttu fyrir kjörum sínum og réttindum, en sem betur fer er heimurinn breyttur frá þeim tíma og núorðið eru kjarasamningar grundvallaðir á því efnahagsumhverfi sem ríkir á hverjum tíma og sjaldan nauðsynlegra en einmitt núna að ganga frá kjarasamningum sem raunverulega bæta kjör launþega, en verði ekki til þess að auka verðbólgu þannig að allur bati hverfi á örfáum mánuðum, eins og raunin varð lengstum, sérstaklega á áratugunum frá 1970 - 1990.

Megi 1. maí 2011 verða upphaf að raunverulegum kjarabótum, aukinni atvinnu og ekki síst minnkun atvinnuleysisins, en það er mesta böl sem vinnufúsir einstaklingar geta orðið fyrir.


mbl.is 1. maí fagnað um land allt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 1. maí 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband