Sjálfstæði - Þorskastríð - Icesave

Árið 1944 var samstaða þjóðarinnar um að lýsa yfir sjálfstæði Íslands alger og allir Íslendingar tilbúnir til að takast á við að berjast fyrir lýðveldið Ísland, þrátt fyrir fyrirséða erfiðleika, fátækt og basl, sem því yrði samfara til að byrja með. Sjálfstæðinu var lýst yfir í óþökk Dana, sem áður voru herrar landsins og tók þá nokkra áratugi að fyrirgefa "svik" Íslendinga.

Eftir miðja síðustu öld færðu Íslendingar út landhelgina í nokkrum skrefum, fyrst úr fjórum mílum í fimmtíu og síðar úr fimmtíu í tvöhundruð mílna fiskveiðilögsögu. Í bæði skiptin var það gert í algerri óþökk annarra þjóða, t.d. Þjóðverja, Hollendinga, Belga, Breta o.fl. Í bæði skiptin sendu Bretar flota sinn á Íslandsmið til verndar togurum sínum og við lá að þeir stórslösuðu og jafnvel dræpu íslenska varðskipsmenn í tilraunum sínum við að sökkva skipunum undan þeim, en svo er forsjóninni fyrir að þakka að það tóks ekki, en skipin voru hins vegar stórlöskuð eftir þau átök.

Í Þorskastríðunum stóðu Íslendingar þétt saman gegn yfirgangi og ofbeldi Breta og tóku á sig ýmsa efnahagslega erfiðleika sem fylgdu þessari réttindabaráttu. Bretar, sem áður voru helsti innflytjandi fisks frá Íslandi, settu löndunarbann á Íslensk fiskiskip og settu þar með gríðarlega efnahagslega pressu á afkomu Íslendinga, sem þó létu ekki kúga sig til uppgjafar og þrátt fyrir mun lægra útflutningsverð fundust aðrir markaðir fyrir fiskinn og þá aðallega í vöruskiptum við Sovétríkin sálugu.

Í dag gefst Íslendingum enn á ný tækifæri til að sýna hvað í þeim býr, þegar þeir standa frammi fyrir þvingunum og hótunum um efnahagslegar refsiaðgerðir, verði þeir ekki við ólöglegum kröfum erlendra kúgunarþjóða, þar sem Bretar eru í broddi fylkingar eins og áður og hafa meðal annars beitt hryðjuverkalögum í þeim tilgangi að koma íslensku efnahagslífi endanlega á kné.

Í kosningunum í dag velur þjóðin um að sýna stolt sitt, sjálfstæði og baráttuvilja fyrir réttindum sínum með því að seja NEI við að selja sig í skattaþrældóm fyrir Breta og Hollendinga til næstu ára- eða áratuga vegna skulda óreiðumanna, sem skattgreiðendur bera enga ábyrgð á. Kjósendur hafa einnig þann valkost að segja JÁ í þessari atkvæðagreiðslu, en með því er umheiminum sýnt fram á að sá baráttuandi sem áður einkenndi þessa þjóð er henni horfinn úr brjósti og ný kynslóð sé ekki tilbúinn til að leggja á sig nokkurt erfiði þjóð sinni og landi til varnar á örlagastundu.

Valið í dag stendur á milli þess að sýna umheiminum að hér búi ennþá sjálfstæð og stolt þjóð, sem ekki lætur troða á rétti sínum, eða baráttusnauðar undirlægjur sem öllu eru tilbúnar að fórna vegna ótta við einhverja erfiðleika sem þjónkunarsinnar erlendra kúgara hóta að beita þá, gangi þeir ekki skilyrðislaust að fjárkúgunarkröfunum.

Þessu verður best svarað með því að merkja við NEI á kjörseðlinum.


mbl.is Stefnir í mikla kosningaþátttöku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 9. apríl 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband