Forseti ASÍ eða hvað?

Ekki er nokkur leið að átta sig á því hvaða hagsmunamat Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, leggur á hlutverk sitt sem talsmanns launþega og forystumanns þeirra í viðræðum um kjör umbjóðenda sinna til lengri tíma litið.

Allt tal hans um að nú sé hann, ASÍ og launþegahreyfingin í fýlu og vilji alls ekki lengur semja til þriggja ára, nánast sama hvað í boði væri frá SA einungis vegna þess að viðræðurnar hafa ekki gengið nákvæmlega eins og fulltrúar ASÍ óskuðu, er algerlega út í hött og rugl hans um að atvinnurekendur geti ekki leyft sér að hugsa um sína hagsmuni í viðræðunum er vægast sagt kjánalegt, enda hlýtur það að vera hlutverk SA að gæta hagsmuna atvinnulífsins í viðræðunum, alveg eins og það er hlutverk ASÍ að gæta hagsmuna launþega.

Líklega skýrist þetta digurbarkalega tal ASÍ-forystunnar núna af því, að stutt er í 1. maí og á þeim degi telur forystan nauðsynlegt að tala fjálglega og digurbarkalega um kröfur sínar og tregðu illmennanna innan SA til að samþykkja þær, enda séu þeir eiginhagsmunaseggir og illmenni, sem stöðugt níðist á launþegum landsins og arðræni þá.

Daginn eftir eldheitar barátturæðurnar má svo reikna með að sest verði niður í karphúsinu og gengið frá þriggja ára kjarasamningi, eins og ekkert hafi ískorist.


mbl.is Ekki hægt að hafa þetta eins og jójó
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undarleg krafa um verkföll

Guðmundur Gunnarsson, formaður Rafiðnaðarsambandsins, virðist vera harðákveðinn í því að stefna að verkfalli 25. maí n.k. og hafnar algerlega að ganga á ný til samninga til þriggja ára, en krefst þess að nýjir kjarasamningar verði aðeins gerðir til næstu tíu mánaða og þá hefjist þvargið upp á nýtt.

Þessi yfirlýsig Guðmundar kemur áður en samningafundur er boðaður milli deiluaðila og án þess að hann hafi nokkuð í höndunum um viðbrögð SA við lokayfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um aðild hennar að því að stuðla að friði á vinnumarkaði og uppbyggingu atvinnu- og efnahagslífsins á ný.

Náist ekki samningar til skamms tíma, segir Guðmundur m.a. þetta:  "Ef það tekst ekki, þá er bara allsherjarverkfall 25. maí. Það verður allt stoppað; Alcan, RARIK, Landsvirkjun, Síminn og hreinlega allt. Það verða allar viðræður stoppaðar og það munu allir berjast með almenna markaðinum í þessu."

Það er í fyrsta lagi furðulega afstaða að hafna algerlega langtímasamningi fyrirfram, án þess að vita hvað í boði gæti verið og í öðru lagi birtist undarleg afstaða í þessum orðum vegna þeirrar stöðu sem atvinnulífið og þjóðfélagið er í um þessar mundir og hefði mátt ætla að allt yrði reynt til þrautar, sem afstýrt gæti verkföllum, því verði af þessari hótun Guðmundar mun allt fara endanlega á hvolf í þjóðfélaginu og þá verður fyrst hægt að tala um kreppu í landinu og þykir flestum þó ástandið nógu slæmt núna.

Vonandi er þetta allt saman hluti af handriti þess leikrits, sem leikið er í hvert sinn sem kjaraviðræður standa yfir.


mbl.is Hætt að tala um 3 ára samning
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Sparnaður" Ögmundar bitnar hart á almenningi

Ríkisstjórnin hælir sjálfri sér fyrir sparnað og aðhaldssemi í ríkisrekstrinum, sem þó er í raun sáralítill, þegar tillit er tekið til heildarútgjalda ríkissjóðs, en hins vegar hafa tekjur ríkisstjóðs verið auknar með skattahækkanabrjálæði á öllum mögulegum og ómögulegum sviðum.

Dæmigert fyrir vinnubrögð stjórnarinnar er að minnka útgjöld ríkisstjóðs til ákveðinna málaflokka, en hækka þjónustugjöld viðkomandi stofnana í staðinn og velta "sparnaðinum" þannig beint yfir á almenning, til viðbótar við skattabrjálæðið.

Svar Ögmundar Jónassonar, Innanríkisráðherra, við spurningu blaðamanns um 50% hækkun gjaldskrár Icepark/Isavia á Keflavíkurflugvelli, er lýsandi fyrir vinnubrögð stjórnarinnar: "Ég verð því miður að taka afleiðingum eigin gjörða, ég hef skorið niður fjárveitingar til Isavia og þar með þröngvað þessum aðilum til að auka beina gjaldtöku."

Það er hins vegar ekki Ögmundur sjálfur, sem þarf að taka afleiðingum gjörða sinna í þessu máli, frekar en á öðrum, heldur bitna gjörðir hans og hinna ráðherranna grimmilega á almenningi í landinu.

Það er afar djúp gjá á milli ráðherranna og almennings og verður sú gjá varla brúuð úr þessu.


mbl.is Ráðherra gagnrýnir ekki hækkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 29. apríl 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband