Tekur ríkisstjórnin aldrei mark á landslögum?

Steingrímur J. upplýsti á Alþingi í dag, að ríkissjóður hefði alls ekki haft efni á því að greiða út þá vexti til Breta og Hollendinga, sem greiða hefði átt núna í vikunni, hefði ríkisstjórnin fengið sínu framgengt og þjóðin samþykkt þrælasamninginn um Icesave.

Hortugur eins og venjulega, svaraði Steingrímur því til, að hugmyndin hefði verið að nota eignir Tryggingasjóðs innistæðueigenda og fjárfesta til að greiða vextina, eftir því sem þær hefðu hrokkið til og ríkissjóður svo greitt mismuninn.

Tryggingasjóðurinn hefði hins vegar alls ekki haft lagalega heimild til að greiða þessa vexti, enda á hann að borga lágmarkstryggingu hvers innlánsreiknings, eftir getu sinni og annað ekki. Því er í raun furðulegt að eignir sjóðsins skuli ekki nú þegar hafa verið greiddar upp í kröfu Breta og Hollendina og þannig grynnkað á höfuðstól skuldarinnar á meðan beðið er eftir uppgjöri á búi Landsbankans.

Lögin um tryggingasjóðinn taka af allan vafa um hvað má og skal greiða úr sjóðnum, en vextir eru ekki þar á meðal, samkv. eftirfarandi grein laganna um sjóðinn:

10. gr.

Fjárhæð til greiðslu.

Nú hrökkva eignir viðkomandi deildar sjóðsins ekki til þess að greiða heildarfjárhæð tryggðra innstæðna, verðbréfa og reiðufjár í hlutaðeigandi aðildarfyrirtækjum og skal þá greiðslu úr hvorri deild skipt þannig milli kröfuhafa að krafa hvers þeirra allt að 1,7 millj. kr. er bætt að fullu en allt sem umfram er þessa fjárhæð skal bætt hlutfallslega jafnt eftir því sem eignir hvorrar deildar hrökkva til. Fjárhæð þessi er bundin við gengi evru (EUR) miðað við kaupgengi hennar 5. janúar 1999. Sjóðurinn verður ekki síðar krafinn um frekari greiðslu þótt tjón kröfuhafa hafi ekki verið bætt að fullu. Hrökkvi eignir sjóðsins ekki til og stjórn hans telur til þess brýna ástæðu er henni heimilt að taka lán til að greiða kröfuhöfum. Komi til greiðslu úr sjóðnum yfirtekur hann kröfu kröfuhafa á hendur hlutaðeigandi aðildarfyrirtæki eða þrotabúi.

Það verður að teljast með ólíkindum, hve frjálslega ráðherrar telja sig geta farið eftir lögum landsins og halda að auki að þeir geti ráðstafað eignum sjálfstæðra stofnana eftir sínu höfði, burtséð frá þeim lögum sem um þær gilda.

 

 


mbl.is Á ekki 26 milljarða inni á bankabók
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ítrekaðar árásir Íslands á varnarlaust Bretland

Bresku dagblöðin bregðast misjafnlega við niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar um þrælalögin, sum segja að Bretar eigi að skammast sín og önnur eru harðorð í garð Íslendinga fyrir að standa á rétti sínum.

Fyndnast er þó þetta, sem mbl.is tekur upp úr leiðarasíðu Daily Mirror:  "Þar segir, að nærri 40 ár séu liðin frá þorskastríðunum en Ísland hafi ekkert breyst. Þeir hafi þá farið og rænt fiskimiðum Breta á Norður-Atlantshafi, siglt á breska togara og skorið ítrekað á net þeirra.

Nú eru þeir með sama yfirganginn í garð Breta vegna peninga, sem töpuðust þegar bankakerfið þeirra hrundi og tvívegis neitað í þjóðaratkvæðagreiðslu að endurgreiða féð. Ráðherrarnir okkar verða að sýna samskonar staðfestu og leggja áherslu á, að við viljum fá peningana okkar til baka... með vöxtum."

Það á ekki af smáríkinu Bretlandi að ganga, að þurfa á nokkurra áratuga fresti að verjast árásum og yfirgangi annars eins risaveldis og Ísland er.

Daily Mirror vonast greinilega eftir samúð umheimsins með lítilmagnanum.


mbl.is Misjöfn viðbrögð breskra blaða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað vita Hollendingar, sem við vitum ekki?

Sylvester Eijffinger, prófessor í hagfræði við Tilburg-háskóla og einn ráðgjafa Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands í Icesave-deilunni, segir að eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna muni Íslendingar ekki með nokkru móti fá inngöngu í ESB og ef það er rétt, þá verður slík niðurstaða að teljast mikill bónus til viðbótar öðrum ávinningi þjóðarinnar af höfnun þrælasamningsins.

Annað er þó enn athyglisverðara við það sem maðurinn sagði, en í fréttinni kemur m.a. eftirfarandi fram hjá þessum ágæta manni: "Spurður um það sjónarmið að þrotabú Landsbankans eigi að duga til að bæta Hollendingum og Bretum tjón vegna tapaðra innistæðna á Icesave-reikningnum svarar Eijffinger að þeir hinir sömu lifi í „blekkingu“".

Áður hefur komið fram, að Bretar og Hollengingar hafi hafnar 47 milljarða króna eingreiðslu, sem boðin var til að ljúka Icesavemálinu í eitt skipti fyrir öll, en þeir hafi hafnað slíkum málalokum vegna þess að með því væru ÞEIR að taka allt of mikla áhættu, enda reiknuðu þeir með miklu hærri upphæð frá ríkissjóði, bæði vegna höfuðstóls og ekki síður vegna vaxta á næstu árum og jafnvel áratugum.

Skilanefnd landsbankans hefur haldið því fram, að innheimtuhlutföll útistandandi krafna búsins fari síbatnandi og allar líkur séu til að nægilega góðar heimtur verði til að greiða forgangskröfur Breta og Hollendinga algerlega að fullu.

Hvað vita Bretar og Hollendingar um innheimturnar, sem við fáum ekki að vita?

Í hvaða "blekkingum" lifir skilanefnd Landsbankans? 

 


mbl.is Hóta að standa í vegi aðildar að ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 11. apríl 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband