26.3.2011 | 08:01
Spurningar til þeirra sem ætla að segja JÁ við Icesave
Samkvæmt skoðanakönnunum undanfarið er tiltölulega mjótt á mununum milli þess fjölda kjósenda sem ætla að segja JÁ og þeirra sem ætla að segja NEI í þjóðaratkvæðagreiðslunni um Icesave, sem fram fer þann 9. apríl n.k., en JÁin eru þó í meirihluta þessara kannana.
Í tilefni þessara kannana vil ég óska eftir svörum frá þeim sem ætla að samþykkja lögin við eftirfarandi spurningum:
Hvaða skatta á að hækka og hvaða nýju skatta vilt þú láta leggja á skattgreiðendur til þess að standa undir þeim útgjöldum sem fylja munu samþykktinni, hvort sem verið er að tala um 60 milljaða eða 240 milljarða?
Er það bara eðlilegt að láta íslenska skattgreiðendur greiða erlendar kröfur, sem aldrei var gert ráð fyrir að á þeim myndu lenda, hvorki í samþykktum eða tilskipunum ESB, eða í íslenskum lögum?
Fulltrúar atvinnulífsins halda því fram að með samþykktinni opnist leiðir að ódýrari lánum frá erlendum lánastofnunum. Finnst fólki eðlilegt að skattgreiðendur niðurgreiði vaxtakjör fyrirtækja með sköttum sínum?
Er ásættanlegt að allar launahækkanir sem til geta komið á næstu árum fari til að greiða "erlendar skuldir óreiðumanna", þannig að kaupmáttur aukist ekki neitt á greiðslutímanum?
Ef niðurskurður útgjalda hins opinbera á að koma í stað skattahækkana, hvað á þá að skera niður til viðbótar við það sem þegar hefur verið ákveðið vegna fjárvöntunar ríkissjóðs?
Svör við miklu fleiri spurningum vantar, en gott væri að fá svör við þessum til að byrja með. Öllum þessum atriðum og miklu fleiri hljóta allir að hafa velt fyrir sér við ákvarðanatöku sína og hljóta því að hafa svör við þeim á reiðum höndum.
Tilfinningar, leiðindi og uppgjöf vegna langdreginnar umræðu getur ekki ráðið afstöðu til málsins og því er vinsamlega óskað svara við þessum spurningum.
![]() |
42,6% styðja Icesave en tæpur fjórðungur er óákveðinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (40)