22.3.2011 | 20:10
Stjórnarliðar ásaka ríkisstjórnina um Hæstaréttarsniðgöngu
Ögmundur Jónasson, Innanríkisráðherra, styður ekki þingsályktunartillögu stjórnarmeirihlutans um stjórnlagaráð, sem byggt verði á kosningunni til stjórnlagaþings, sem Hæstiréttur úrskurðaði ólöglega.
Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, hefur áður lýst sömu afstöðu og nú bætist annar Samfylkingarþingmaður í hópinn, þ.e. Skúli Helgason, sem gert hefur grein fyrir afstöðu sinni, m.a. með eftirfarandi rökum: "Skúli sagði, að það væri grundvallarafstaða sín að virða skuli niðurstöður Hæstaréttar."
Með þessum orðum er Skúli að beina geysiharðri gagnrýni að flokksformanni sínum, Jóhönnu Sigurðardóttur, sem er potturinn og pannan á bak við Hæstaréttarsniðgönguna og vill og ætlar, af alkunnri þrjósku sinni og einstrengingshætti, að berja stjórnlagaráðið í gegn um þingið, hvað sem það kostar.
Æ fleiri stjórnarþingmenn eru þó farnir að sjá hvílíkt hneyksli hér er á ferðinni og eftir því sem fleiri þeirra þora að koma fram í dagsljósið með þær skoðanir sínar, því minni líkur eru á því að tillagan um stjórnlagaráðið verði samþykkt á Alþingi.
Fari hins vegar svo að stjórnlagaráði verði komið á fót með sniðgöngu á úrskurði Hæstaréttar, mun stjórnlagaráðið alls ekki hafa stuðning almennings í landinu og tillögur þess munu því verða algerlega ómarktækar og að engu hafandi.
![]() |
Styður ekki tillögu um stjórnlagaráð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.3.2011 | 11:35
Önnur fjármálakreppa framundan?
Deutsche Bank hefur tapað máli sem höfðað var á hendur bankanum vegna vaxtaskiptasamnings sem viðskiptavinur bankans tapaði 100 milljónum króna á, en dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að bankinn hefði haft þá skyldu að sinna eingöngu hagsmunum viðskiptavinarins, en hafi ekki gert það með því að leyna hann áhættunni sem samningnum fylgdi og þess gróða sem bankinn myndi njóta, ef illa færi fyrir viðskiptavininum.
Samkvæmt fréttinni vofir yfir þessum banka og öðrum, röð málaferla vegna sambærilegra mála og gæti slíkt haft afdrifaríkar afleiðingar í för með sér, eða eins og segir í fréttinni: "Financial Times segir að fjöldi sambærilegra málaferla vofi yfir Deutsche Bank í kjölfar úrskurðarins. Blaðið hefur eftir lögfræðingi bankans að úrskurðurinn kunni að hafa meiriháttar afleiðingar fyrir fjármálakerfið þar sem hann felur í sér að bankar þurfi að færa til bókar hagnað af slíkum samningum og það gæti leitt til málaferla þar sem að milljarðar evra væru undir. Að mati lögfræðingsins gæti slíkt leitt til annarrar fjármálakreppu."
Ýmis teikn hafa verið á lofti undanfarið um að ný fjármálakreppa sé um það bil að skella á, a.m.k. á vesturlöndum og er þessi dómur enn eitt hættumerkið um það sem framundan gæti verið í efnahagslífinu. Íslendingar myndu ekki fara varhluta af slíkri fjármálakreppu, fremur en aðar þjóðir og jafnvel ennþá verr, vegna þess að hér varð bankakreppan enn verri en víðast annarsstaðar á árinu 2008.
Varla dettur nokkrum manni í hug að setja íslenskan fjárhag í enn meiri tvísínu með því að samþykkja að taka á sig skuldir fjárglæframanna vegna Icesave, sem almenningur á ekki að bera nokkra ábyrgð á.
![]() |
Úrskurður hristir upp í þýska bankakerfinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
22.3.2011 | 09:02
Hefur Össur umboð til stríðsaðgerða
Í tilefni af því að kynnt hefur verið bresk könnun um afstöðu almennings þar í landi til þátttöku Breta í hernaðaraðgerðum í Líbíu vaknar sú spurning hvort ekki væri ástæða til að kanna afstöðu Íslendinga til hvatningar og stuðnings íslensku ríkisstjórnarinnar við hernaðinn.
Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, var einn harðasti stuðningsmaður hernaðar á hendur Gaddafi, Líbíuleiðtoga, og var afar óánægður með seinagang og takmarkaðan áhuga annarra verstrænna þjóða á því að blanda sér í átökin. Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði í útvarpsviðtali að þetta væru algerlega bráðnauðsynlegar hernaðaraðgerðir og því miður væri mannfall óbreyttra borgara óhjákvæmilegur fórnarkostnaður til þess að koma Gaddafi frá völdum.
Í átta ár hafa ýmsir, þá ekki síst þingmenn núverandi stjórnarflokka, býsnast mikið yfir stuðningi þáverandi ríkisstjórnar við innrásina í Írak, sem hafði það að meginmarkmiði að koma Saddam Hussein frá völdum og einnig hefur þeirri gagnrýni verið haldið mjög á lofti, að þá hafi Utanríkismálanefnd Alþingis ekki verið með í ráðum, áður en ákvörðun var tekin.
Hverjir komu að ákvörðun um hvatningu og stuðning við árásirnar á Líbíu? Var ríkisstjórnarsamþykkt á bak við athafnir og orð Össurar vegna málsins? Var Utanríkismálanefnd Alþingis með í ráðum, eða var gerð formleg samþykkt um málið á Alþingi?
Þessu öllu hljóta Össur, ríkisstjórnin og Alþingismenn að svara.
![]() |
Bretar styðja ekki aðgerðir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)