Stuðningsmönnum fjárkúgunarinnar fækkar.

Samkvæmt nýrri könnun MMR segjast 52% aðspurðra ætla að samþykkja að selja sjálfa sig, aðra Íslendinga, börnin sín og annarra í skattaþrældóm til næstu áratuga í þágu Breta og Hollendinga. Í sambærilegri könnun í síðasta mánuði sögðust 56% aðspurðra ætla að gangast undir skattakvöðina, þannig að heldur fjölgar þeim sem sjá fáránleikann við gangast undir slíkt sjálfviljugur.

Allir vita að ríkissjóður á í verulegum fjárkröggum um þessar mundir og getur t.d. ekki fjármagnað vegaframkvæmdir út frá Reykjavík á næstu fjórum árum, en áætlaður kostnaður við það er sexmilljarðar króna. Sparnaður og niðurskurður er mottó dagsins í ríkisrekstrinum, en samt hvetur fjármálaráðherra skattgreiðendur til að samþykkja ólögvarða skattakröfu á sjálfa sig, með fyrstu afborgun að upphæð kr. 26,1 milljarð króna,sem greiða skal í einni greiðslu strax 11. apríl n.k., samþykki almenningur skattaþrælkunina.

Ótal atriði er hægt að tína til sem mæla gegn samþykki þrælalaganna, en fá eða engin sem mæla með samþykkt, nema þá þrælslund og ræfildóm.

Að nokkrum skuli detta í hug að samþykkja skattaáþján á þjóðina til að greiða ólögvarða kröfu sem kemur almenningi á Íslandi ekkert við, er óskiljanlegt.


mbl.is Mjótt á mununum um Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gaddafí á Alþingi

Utandagskráumræða mun verða á Alþingi á morgun þar sem ræða á stjórnun Gaddafís í Líbíu og meðferð hans á þegnum sínum. Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, mun þar verða til svara, en málshefjandi er Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Framsóknarflokksins.

Þingmenn og ríkisstjórn Íslands hafa ekki getað stjórnað sínu eigin landi almennilega undanfarið og frá Alþingi hafa hver meingölluðu lögin á fætur öðrum verið afgreidd og mörg hver í andstöðu við stjórnarskrána, að ekki sé minnst á klúðrið við að reyna að koma saman hópi manna til að gera tillögur um stjórnarskrárbreytinga.

Óþarft er að rekja aðgerðir ríkisstjórnarinnar gegn eigin þegnum, svo sem með því að berjast með oddi og egg gegn hvers konar atvinnuuppbyggingu í landinu, sem aftur magnar atvinnuleysið og brottflutning fjölskyldufólks úr landinu.

Á meðan Alþingi og ríkisstjórn geta ekki stjórnað skammlaust heima fyrir, ætti þingið ekki að gera sjálft sig að athlægi með afskiptum af málefnum annarra ríkja, jafnvel þó þeim sé stjórnað af harðstjórum og illmennum.

Dettur einhverjum í hug að afskipti Alþingis veki önnur viðbrögð hjá ráðamönnum í Líbíu en hæðnishlátur.

Það eru sömu viðbrögðin og þessar umræður vekja hér á landi.


mbl.is Rætt um Gaddafí á Alþingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólöglegt verðsamráð?

Í öllum verðkönnunum reynist Bónus vera með lægst heildarverð á þeim vöruliðum sem kannaðir eru í hvert skipti og er í raun ekkert nema gott um það að segja, kæmu ekki upp í hugann spurningar um það, hvaða aðferðum Bónus notar til að verðleggja vörur sínar.

Sjálfur versla ég nánast eingöngu í Krónunni á Bíldshöfða og nánast í hvert einasta skipti sem þangað er komið, hvenær dags sem er og hvaða dag sem er utan Laugardaga og Sunnudag, er þar staddur starfsmaður frá Bónus með verðskanna og afritar þau verð sem Krónan býður sínum viðskiptavinum.  Sjálfsagt er sömu sögu að segja um aðrar verslanakeðjur, þ.e. að Bónus sé einnig með starfsmenn þar til verðkönnunar.

Í verðkönnunum kemur svo í ljós að í mjög mörgum tilfellum er vöruverð einni krónu lægra hjá Bónusi en Krónunni, þannig að augljóst er að Bónus stillir sínum verðum eftir verðum keppinautanna, en ekki eftir eigin útreikningum miðað við sitt innkaupsverð og annan kostnað.

Í ljósi umræðna um ólögleg verðsamráð og markaðsráðandi stöðu fyrirtækja vaknar sú spurning hvort svona aðferðir við verðlagningu söluvöru sé eðlileg, jafnvel þó ekki sé um eiginlegt samráð að ræða heldur einhliða njósnir um útsöluverð keppinautanna.

Að minnst kosti getur þetta varla kallast eðlileg samkeppni.

 


mbl.is Bónus oftast með lægsta verðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Icesavegrýlan að missa tennurnar?

Már Guðmundsson, Seðlabankastjóri, hefur verið dyggur þjónn Jóhönnu, Steingríms J. og Icesavegrýlunnar og tekið undir svartagallsrausið um allt myndi fara í bál og brand, verði Icesavelögin felld úr gildi í þjóðaratkvæðagreiðslunni og hingað til lands myndu ekki fást neinir erlendir fjárfestar og alls ekki yrði hægt að endurfjármagna erlend lán og hvað þá að nýjar lántökur yrðu mögulegar.

Flest stærstu fyrirtæki landsins hafa þegar sannað að vandræði við endurfjármögnun erlendra lána eru alls ekki fyrir hendi og á blaðamannafundi í dag dró meira að segja Seðlabankastjórinn talsvert í land með sínar svartsýnisspár í þessum efnum.

M.a. kemur þetta fram í fréttinni: "Þá sagðist Már geta fullyrt, að þjóðaratkvæðagreiðslan um Icesave-lögin muni ekki tefja birtingu áætlunarinnar um afnám gjaldeyrishaftanna. Allir væru sammála um, að þegar þegar komin væri niðurstaða um áætlunina þá yrði hún birt. „Áætlunin mun einnig gefa mikilvægar upplýsingar fyrir markaðinn og almenning til að skilja hvernig Icesave gæti komið eða ekki komið inn í myndina."

Fram að þessu hafa ráðherrarnir og bankastjórinn margstaglast á því, að afnám Icesavelaganna myndi tefja allar áætlanir um afnám gjaldeyrishaftanna um ófyrirséðan tíma.

Icesavegrýlan er greinilega farin að missa tennurnar, eða a.m.k. er komin mikil skemmd í þær. 


mbl.is Áætlun um afnám hafta mun róa markaðinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 16. mars 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband