15.3.2011 | 19:29
Jóhanna og Icesavegrýlan
Jóhanna Sigurðardóttir hélt ræðu á Alþingi í dag aldrei þessu vant, og talaði bæði í eigin nafni og stöllu sinnar, Icesavegrýlunnar, og lofaði 2.200 störfum á næstu mánuðum gegn því að þjóðin samþykki fjárkúgunarkröfur Breta og Hollendinga. Geri þjóðin það ekki, gaf Jóhanna í skin að í refsingarskyni yrði áfram haldið af hálfu ríkisstjórnarinnar í baráttunni gegn hvers kyns atvinnuuppbyggingu í landinu.
Samkvæmt fréttinni voru skilaboð Icesavegrýlunnar í gegn um Jóhönnu m.a. þessi: "Þá sagði hún að ef litið væri til þeirra framkvæmda, sem væru í undirbúningi og ef sátt næðist um fjármögnun þeirra, svo sem í vegamálum, þá yrðu fljótlega sköpuð 2.200-2.300 ársverk og 500-600 bein varanleg störf við framtíðarrekstur. Nefndi Jóhanna aukna afkastagetu álversins í Straumsvík, framkvæmdir við Búðarhálsvirkjun, byggingu kísilmálmverksmiðju í Helguvík, hreinkísilverksmiðju í Grindavík og natríumklóratverksmiðju á Grundartanga."
Þessi tilvísun Jóhönnu til sáttar um fjármögnun vegaframkvæmda er vægast sagt einkennileg, þar sem stutt er síðan að Innanríkisráðherra voru nýlega afhentar yfir 40.000 undirskriftir kjósenda, sem mótmæltu harðlega öllum fyrirhuguðum nýjum vegasköttum, sem boðaðir voru vegna nýrra vegaframkvæmda.
Engar af nefndum framkvæmdum tengjast Icesave á nokkurn hátt og ekki mun standa á fjármögnun þeirra vegna, sýni hagkvæmisreikningar að borgi sig að fara í þær á annað borð, því fjármagn leitar ávallt í góða ávöxtun og erlendum fjárfestum stendur nákvæmlega á sama um líf eða dauða Icesavegrýlunnar.
Það sem aðalalega vantar til að koma þessum framkvæmdum í gang er að ríkisstjórnin hætti að flækjast fyrir þeim.
![]() |
Boðar 2.200 ársverk |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
15.3.2011 | 15:09
Jón Gnarr borginni til skammar í Vín
Jón Gnarr mun vera staddur í Vínarborg til að fylgja eftir og kynna sýningu á heimildarmyndinni um framboð hans og Besta flokksins til borgarstjórnar Reykjavíkur á síðasta ári og sýnir enn og sannar óhæfni sína til þess að gegna borgarstjóraembættinu og að koma fram fyrir hönd borgarbúa, að ekki sé talað um þegar hann fer að tjá sig um landsmálin og mesta deiluefni undanfarinna missera.
Eftirfarandi eru tilvísanir til svara hans í viðtali við austurrísku fréttastofuna APA, þegar hann var spurður um Icesave: "Ég ætla að greiða atkvæði með því, ekki vegna þess að ég skilji það eða ég telji að það sé rétt, heldur er ég einfaldlega orðinn frekar leiður á málinu. Ég ætla að kjósa það í burt."
Jafn gáfulega lét sá óhæfi hafa eftir sér um gjaldmiðil þjóðarinnar: "Krónan okkar er Mikkamúsarpeningur, sagði Jón og bætti við að hann væri persónulega hlynntari því að taka upp dollara. Ekki þarf að ganga í Bandaríkin til þess."
Á meðan að tekist er á um stefnu meirihluta borgarstjórnar í mennta- og uppeldismálum fer "leiðtoginn" af landi brott til að kynna bíómynd um sjálfan sig og verður borginni, íbúum hennar og þjóinni allri til háborinnar skammar með fáránlegum yfirlýsingum um landsins gagn og nauðsynjar, sem hann segist sjálfur ekki hafa hudsvit á, en sé bara svo leiður á þeim.
Það er ekkert minna en stórskandall, þegar svokallaðir ráðamenn haga sér á þennan hátt.
Hvers eiga Reykvíkingar að gjalda, að þurfa að sitja uppi með þessi ósköp í þrjú ár í viðbót?
![]() |
Bölsýnn borgarstjóri í Vín |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (39)
15.3.2011 | 14:28
Stjórnarskrársniðganga
Sigurður Líndal, fyrrv. lagaprófessor, komst vel að orði, eins og oft áður, þegar hann mætti fyrir þingnefnd vegna fyrirhugaðrar skipunar stjórnlagaráðs á grundvelli úrslita ógildra kosninga, að hann teldi slík vinnubrögð, væru þau ekki klárt brot á stjórnarskrá, þá flokkuðust slík vinnubrögð a.m.k. sem STJÓRNARSKRÁRSNIÐGANGA.
Samkvæmt stjórnarskránni sjálfri fer Alþingi Íslendinga með umboð til að stjórnarskrárbreytinga og skulu þær bornar undir tvö þing, með Alþingiskosningum á milli og þó heimilt sé að skipa ráðgefandi nefnd til að undirbúa og vinna tillögur til þingsins um slíkar breytingar, eru þær eftir sem áður á ábyrgð þingsins og fram til þessa hefur verið talið nauðsynlegt að sæmileg sátt væri innan þingsins og þjóðfélagsins um hvers kyns breytingar á sjálfum grundvallarlögum landsins.
Nú ætlar meirihluti þingsins að skipa nefnd til tillögugerðar um stjórnarskrárbreytingar í andstöðu við stóran hluta þingmanna, niðurstöðu Hæstaréttar og í óþökk stórs meirihluta þjóðarinnar, sem algerlega hundsaði kosningarnar til stjórnlagaþings, sem enda voru síðan úrskurðaðar ólöglegar.
Þrátt fyrir að væntanlegir nefndarmenn hafi alls ekki verið kosnir á löglegan hátt til starfsins, hafa nokkrir þeirra sagt að þeir myndu ekki taka sæti í nefndinni nema á sínum eigin forsendum og myndu ekki hlýða neinum fyrirmælum frá Alþingi um hvernig þeir muni haga störfum sínum og þar til viðbótar krafist þess að væntanlegar tillögur nefndarinnar verði bornar undir þjóðaratkvæði áður en Alþingi fjalli nokkuð um þær.
Eins og flest annað sem núverandi meirihluti á Alþingi og ríkisstjórn láta frá sér fara, er þetta stjórnlagaráðsskrýpi algjört rugl, sem aldrei verður nein samstaða um og ekki verður tekið alvarlega af nokkrum manni.
![]() |
Ítreka andstöðu við tillögu um stjórnlagaráð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)