Icesave og samviskan

Rísisstjórnin hefur klúðrað því í tvígang að koma í gildi samningi við Breta og Hollendinga um að gera Íslendinga að skattaþrælum þessara þjóða til næstu áratuga og nú skal reynt í þriðja sinn.  Sjálfstæðismenn á Alþingi hafa fram að þessu staðið í lappirnar gegn þessum áformum, enda með afdráttarlausa samþykkt Landsfundar flokksins í farteskinu gegn slíkri þrælasölu.

Við aðra umræðu um Icesave III greiddu níu þingmenn Sjálfstæðisflokksins atkvæði með samþykkt þrælalanganna og hafa með því valdið gífurlegri úlfúð meðal flokksmanna, sem reiknuðu með því að farið yrði að eindreginni samþykkt Landsfundarins, sem endurspeglar sterkar skoðanir flestra Sjálfstæðismanna í málinu.

Þingmennirnir eru harðlega gagnrýndir í leiðara Morgunblaðsins í dag, en þar segir m.a:  "Á almanna vitorði er að þingflokkur sjálfstæðismanna er enn án sjálfstrausts og ekki til stórræðanna. Það er þó óþarfi. Þeir eru í stjórnarandstöðu gagnvart einni verstu stjórn sem í landinu hefur setið. Stjórn sem klúðrar öllu. Eftir hvert klúður gerir forsætisráðherrann hróp að Sjálfstæðisflokknum, hrakyrðir hann og uppnefnir. Þegar ofsinn rjátlast af þá kallar sami ráðherra á forystumenn Sjálfstæðisflokksins í sín hús til að láta þá gera fyrir sig viðvik. Og alltaf mæta þeir trítlandi. Hvers vegna? Hvað er eiginlega að?"

Þarna er tekið nokkuð djúpt í árinni, en þó er ekki að undra að svo sé gert því mikill hiti er í flokksmönnum vegna þessarar fjárkúgunarkröfu, sem enga stoð á í lögum eða reglugerðum, hvorki íslenskum eða evrópskum.  Þingmenn bera jafnan fyrir sig að þeim beri skylda til að láta samvisku sína ráða við atkvæðagreiðslur í þinginu og er ekkert nema gott um það að segja að þeir geri það.

Gangi það sem samviskan segir þeim hinsvegar algerlega gegn samþykktum æðsta stjórnvalds flokks þeirra og þvert gegn samvisku mikils meirihluta þeirra kjósenda sem veitt hafa þeim brautargengi, verða þeir einfaldlega að sitja hjá við atkvæðagreiðslu frekar en að veita slíku máli framgang.  Málið snýst í sjálfu sér heldur ekki um samvisku þingmanna, heldur tilraun til að þvinga íslendinga til að samþykkja ólögvarðar kröfur útlendinga og þingmönnum þjóðarinnar ber skylda til að verjast öllum árásum á landið og hagsmuni þess, lagalega sem og fjárhagslega.

Samviska einstakra þingmanna er varla svo miklu merkilegri en samviska meirihluta kjósenda þeirra.


mbl.is Sjálfstæðisflokkurinn gagnrýndur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 4. febrúar 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband