Snýst um Icesave, ekki forsetann eða ríkisstjórnina

Nokkuð er farið að bera á þeim fullyrðingum að ef kjósendur hafni Icesavelögunum í þjóðaratkvæðagreiðslu, þá verði ríkisstjórnin að segja af sér en verði lögin staðfest, að þá verði forsetinn að víkja af Bessastöðum.

Sé það virkilegur vilji manna að auka beina þátttöku almennings að ákvörðunum í stórum málum, má alls ekki snúa umræðunni upp í einhverskonar uppgjör á milli sitjandi ríkisstjórnar hverju sinni og þess forseta sem vísar málum í þjóðaratkvæðagreiðslu, því slíkar kröfur munu aðeins leiða til þess að ekkert verður rýmkað til mað slíkar kostningar eða endalaus ríkisstjórnar- eða forsetaskipti.

Umræðan verður að snúast alfarið um það málefni sem kosningarnar eiga að fjalla hverju sinni og vera algerlega óháð afstöðu kjósenda til stjórnmálaflokka, ríkisstjórnar eða forseta. Í því tilfelli sem nú er um að ræða er það Icesave III og ekkert annað og álit kjósenda á því, hvort heillavænlegra sé fyrir land og þjóð að staðfesta þau lög eða hafna þeim.

Ekki er þetta sagt vegna stuðnings við núverandi ríkisstjórn, því sá stuðningur er minni en enginn og ekki er ástin brennandi heldur á núverandi forseta og seint kæmi til álita að greiða þeim atkvæði í nokkrum kosningum.

Atkvæði í væntanlegri þjóðaratkvæðagreiðslu á að ráðast af afstöðunni til þrælasamningsins sjálfs og hver sem niðurstaðan verður á enginn að segja af sér hennar vegna.


mbl.is 57,7% myndu samþykkja Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Himininn mun ekki hrynja

Í leiðara Financial Times er sagt að himnarnir hafi ekki hrunið þegar Íslendingar höfnuðu því að gerast skattaþrælar Breta og Hollendinga til margra áratuga vegna skulda einkabanka og ef þeir neiti nýjustu útgáfu samningsins gætu aðrir farið að fá ýmsar hugmyndir.

Ríkisstjórnin kepptist við að hræða þjóðina með alls kyns dómsdagsspám um framtíðina, yrði Icesave II felldur í þjóðaratkvæðagreiðslu og Ísland yrði Kúba norðursins og yrði algerlega einangrað á alþjóðavettvangi og enginn myndi skipta við Íslendinga framar, hvorki einkaðaila eða opinbera.

Allt reyndist þetta vera alger della og t.d. hefur skuldatryggingarálag á erlendar skuldir lækkað, íslensk fyrirtæki endurfjármagnað erlend lán sín svo hundruðum milljörðum nemur og erlendir fjárfestar ekki misst áhuga sinn á fjárfestingum hérlendis.

Icesave III er sannarlega miklum mun hagstæðari íslenskum skattaþrælum, en eftir sem áður er eina hættan sú, verði hann felldur í þjóðaratkvæðagreiðslu, að Bretar og Hollendingar fari í fýlu og reyni að koma í veg fyrir að Ísland veðrði innlimað í ESB og ekki er víst að margir muni harma það.

Ríkisstjórnin skuldar kjósendum upplýsingabækling um alla kosti og galla þess að samþykkja lögin og eins hverjar afleiðingarnar gætu hugsanlega verstar orðið við höfnun þeirra.

Nú eru kjósendur löggjafarvaldið og eiga heimtingu á öllum sömu gögnum og upplýsingum um málið og þingmenn og þingnefndir höfðu undir höndum við sína umfjöllun og afgreiðslu málsins.


mbl.is Aðrir gætu fengið hugmyndir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar liggur áhættan?

Nú, þegar forsetinn hefur vísað lögunum um Icesave III til endanlegrar afgreiðslu þjóðarinnar, sem annars löggjafaraðila landsins, verður þjóðin að fá að kynna sér allar upplýsingar sem Alþingi hafði undir höndum við sína umfjöllun um málið.  Upplýsingum hefur kerfisbundið verið haldið frá þjóðinni og jafnvel hluta þingmanna, þ.e. alls kyns upplýsingar hafa verið lagðar fram í nefndum þingsins, sem stimplaðar hafa verið sem trúnaðarmál og þingmenn utan nefndanna ekki einu sinni fengið að sjá þær.

Strax eftir undirskrift Svavarssamningsins hroðalega í júní 2009 átti að keyra þann samning óséðan í gegnum þingið með þeim skýringum að Ísland yrði Kúba norðursins eða önnur Norður-Kórea yrði samningurinn ekki samþykktur samstundis á Alþingi, upplýsinga- og umræðulaust.  Sem betur fer tóku þingmenn stjórnarandstöðunnar í taumana í það skiptið og í annarri tilraun, árið eftir, felldi þjóðin þrælasamninginn, sem þá lá fyrir lítillega mildaður.

Því var haldið fram á þessu bloggi strax 22. júní 2009 að ríkisábyrgð ætti ekki og mætti ekki vera á tryggingasjóðum innistæðueigenda og fjárfesta og mun það líklega vera í fyrsta skipti sem sú skoðun var sett fram opinberlega, en það blogg má sjá Hérna og stóðu deilur um það efni lengi framan af, en nú viðurkenna allir að ekki hafi verið gert ráð fyrir ríkisábyrgðinni í lögum og tilskipunum ESB og meira að segja hafa fulltrúar Framkvæmdastjórnar ESB viðurkennt það.

Icesavelögin snúast fyrst og fremst um ríkisábyrgð á Icesave, sem auðvitað þyrfti ekki að samþykkja sérstaklega núna, hefði verið gert ráð fyrir henni áður í lögum og reglum ESB og Íslands og þar sem allir viðurkenna núna að um ólögvarða kröfu sé að ræða, á alveg eftir að útskýra í hverju hættan við dómstólaleiðina er fólgin.

Talsmenn þess, að þjóðin sem annar hluti löggjafarvaldsins, staðfesti lögin um Icesave hljóta nú að útskýra í hverju hættan af dómstólaleiðinni sé fólgin og hvort eitthvað hangi þar á spýtunni annað en Icesavereikningarnir sjálfir.  Kjósendur verða að fá ALLAR upplýsingar upp á borðið og þá er átt við ALLAR upplýsingar sem Alþingismenn reistu sínar ávarðanir á.

Boltinn er alfarið hjá þeim sem vilja að lögin verði staðfest í þjóðaratkvæðagreiðslunni væntanlegu.


mbl.is Þjóðin kýs að nýju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 21. febrúar 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband