Fjárfestingar þrátt fyrir Icesave - auðvitað

Ríkisstjórnin hefur lengi haldið því fram að á meðan Icesaveþrælasamningar séu ófrágengnir verði ekki nein efnahagsuppbygging í landinu, enginn erlendur aðili muni vilja fjárfesta hér og engin erlend lánastofnun muni lána eina evru eða dollar til íslenska ríkisins, ríkisfyrirtækja eða annarra fyrirtækja, innlendra og erlendra, sem hér myndu annars vilja koma af stað nýjum fyrirtækjum.

Þrátt fyrir þessar dómsdagsspár Jóhönnu og Steingríms J. eru áform um álverksmiðjur á Reykjanesi og á Bakka við Húsavík ennþá á fullu skriði, álþynnuverksmiðja er í burðarliðnum og viðræður í gangi um ýmsa fleiri kosti til atvinnuuppbyggingar.  Í dag var svo undirritaður samningur um kísilver, sem reist verður á Reykjanesi og er kostnaður við þá verksmiðjubyggingu áætlaður um 17 milljarðar króna.

Það vekur hins vegar athygli, að eins og fyrr eru það ekki fjárfestar frá ESBlöndum sem áhuga hafa á að fjárfesta hérlendis, heldur annarsstaðar frá og þá t.d. Kína og Bandaríkjunum, eins og reyndin er með kísilverksmiðjuna, en hana reisir og mun reka Íslenska kísilfélagið ehf., sem er í meirihlutaeigu bandaríska fyrirtækisins Globe Speciality Metals.  Ekki verður séð að innlimun landsins í ESB myndi breyta miklu um þessa staðreynd, því Ísland hefur verið aðili að Evrópska efnahagssvæðinu í tuttugu ár án þess að nokkurt fyrirtæki frá Evrópu hafi fjárfest hérlendis, svo nokkru nemi.

Það hefur marg oft komið í ljós að ríkisstjórnin hefur einungis beitt Icesave sem Grýlu á þjóðina í örvæntingarfullri baráttu sinni við að ljúga landinu inn í ESB, en þjóðin hefur fyrir alllöngu séð og skilið að Grýlusagan er bara skáldskapur, eins og flest annað sem frá ríkisstjórninni kemur.

Icesave hefur aldrei verið neinn dragbítur á fjárfestingar erlendra aðila eða lánveitinga til landsins.  Það er ríkistjórnin sjálf sem er það eina sem stendur í veginum fyrir efnahagsuppbyggingunni og minnkun atvinnuleysisins í landinu.

Því fyrr sem hún fer frá, því betra.


mbl.is 17 milljarða fjárfesting
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 17. febrúar 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband