Vitlausasta verkfallsboðun sögunnar

Verkfalli sem hefjast átti í kvöld í fiskimjölsverksmiðjum hefur nú verið aflýst með þeim skýringum að vinnuveitendur hafi greinilega ekki ætlað að gefa eftir með að semja um fáránlegar launakröfur starfsmanna þessara fyrirtækja. 

Verkalýðshreyfingin ætlaði að nota þennan fámenna starfshóp, sem þó hefði getað valdið milljarða tjóni fyrir þjóðarbúið, sem tilraunadýr vegna þeirra viðræðna sem nú standa yfir um nýja kjarasamninga og áttu samningar við bræðslustarfsmennina að verða fyrirmynd annarra samninga, sem ætlunin var að knýja fram, með hótunum um að verkfallinu yrði ekki aflýst fyrr en kominn væri á heildarkjarasamningur.

Þetta verður að teljast vitlausasta og verst undirbyggða verkfallsboðun sem um getur, enda atvinnuástandið þannig í landinu að atvinnulausum fjölgar stöðugt og þá ekki síst þeim sem hafa verið atvinnulausir í ár, eða lengur.  Einnig hafa þúsundir manna flúið land í atvinnuleit þannig að skráning atvinnuleysisins segir ekki nema hálfa söguna um ástandið.

Það sem nú þarf að leggja áherslu á, eru hóflegar kauphækkanir en því meiri kraft þarf að setja í að greiða fyrir fjölgun starfa, ekki síst í orkufrekum iðnaði og þeirri þjónustu sem honum fylgir.  Þjóðarbúið bráðvantar fleiri verðmætaskapandi fyrirtæki, ekki síst útflutningsfyrirtæki því gjaldeyri mun skorta á næstu áratugum til greiðslu allra erlendu skulda þjóðarbúsins, þrátt fyrir að erlendir lánadrottnar hafi þurft að afskrifa mörg þúsund milljarða vegna bankahrunsins.

Brýnasta hagsmunamál allra landsmanna er að ríkisstjórnin og þá sérstaklega VG hætti að berjast gegn atvinnusköpun í landinu, því grunnurinn að bættum kjörum þjóðarinnar byggist á verðmætasköpun og öðru ekki.

Þegar Steingrímur J. og félagar fara að skilja þetta, þá mun kvikna von fyrir þjóðina.  Það mun ekki gerast með verkföllum og því tjóni fyrir þjóðarbúið sem þeim fylgir.


mbl.is Búið er að aflýsa verkfalli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eina rétta leiðin

Rök þeirra stjórnmálamanna sem ætla að greiða Icesave III atkvæði sitt á Alþingi hafa helst verið þau, að samþykkt þrælasamningsins myndi liðka til fyrir endurreisn atvinnulífsins í landinu og að mikil áhætta fælist í því að fara með málið fyrir dómstóla.

Allir eru hinsvegar sammála um að fjárkúgunarkrafa Breta og Hollendinga sé ólögvarin og ekkert í tilskipunum eða regluverki ESB skyldi ríkissjóði til að ábyrgjast tryggingasjóði innistæðueigenda og fjárfesta í Evrópulöndum, heldur þvert á móti banni í raun slíkar ábyrgðir vegna samkeppnissjónarmiða.  Þetta hafa ráðamenn innan ESB staðfest og það fleiri en einn ásamt því að allir lögspekingar, sem um málið hafa fjallað eru á sama máli.

Af þeim sökum er vandséð í hverju sú áhætta á að vera fólgin að fara með málið fyrir dómstóla, enda hefur enginn stjórnmálamaður reynt að útskýra hvar sú áhætta liggur.  Ekki hefur heldur verið útskýrt með viðhlýtandi hætti hvernig það myndi stuðla að endurreisn atvinnulífsins og liðka til fyrir með erlendar lántökur að ríkissjóður tæki á sig tuga eða hundraða milljarða skuldbindingar vegna gjaldþrota einkabanka.

Allt þetta gæfist tóm til að ræða og útskýra fyrir þjóðinni í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslu, ásamt því að leggja fram og ræða þær skattahækkanir og þá nýju skatta sem leggja þyrfti á íslenska skattgreiðendur til að standa undir greiðslu þessara auknu útgjalda ríkissjóðs. 

Með málefnalegri umræðu og útskýringum gætu kjósendur gert upp hug sinn hvort þeir væru tilbúnir til að leggja fram það fé sem til þarf til greiðslu þrælaskattsins og engir eru bærari til að ákveða um það, aðrir en þeir sem sjálfir þurfa að þola svipuhöggin frá þrælahöfðingjunum.

Á hátiðar- og tyllidögum er vinsælt hjá stjórnmálamönnum að tala um lýðræðið og aukna þátttöku almennings í afgreiðslu stórra mála með beinni aðkomu í þjóðaratkvæðagreiðslum.  Nú hafa þeir tækifæri til að standa við fögru orðin með því að samþykkja á morgun að vísa Icesave III til kjósenda til endanlegrar afgreiðslu.

Til þess að sýna samhug með slíkri afgreiðslu málsins er nauðsynlegt fyrir almenning að skrá sig á undirskriftalista kjosum.is strax í dag, því á morgun getur það verið orðið of seint.  Fljótlegt er að skrifa nafnið sitt á þennan áskorendalista, sem finna má HÉRNA

 


mbl.is Styður ekki þjóðaratkvæði um Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lokaatlaga Alþingis að þjóðinni hafin

Í eitt og hálft ár hefur Steingrímur J. reynt ítrekað að hafa milligöngu um  að selja íslenska skattgreiðendur í áratugaþrældóm í þágu erlendra fjárkúgara, en í tvígang hefur tekist að hrinda slíkum atlögum, þ.e. Icesave I og Icesave II.

Á morgun á að keyra í gegnum Alþingi svokallaðan Icesavesamning III, sem auðvitað er ekki samningur um annað en þrælasölu íslenskra skattgreiðenda til Breta og Hollendinga, eins og hinir fyrri tveir, en nú á að ljúga Icesave III inn á þjóðina með því að þessi þrælasamningur sé svo miklu betri en hinir tveir og því muni ekki svíða eins sárlega á þrælabökunum undan svipuhöggunum.

Undirskriftasöfnunin á kjosum.is er í fullum gangi, enda málinu flýtt á Alþingi til þess að ekki náist að safna nægum fjölda undirskrifta í tíma og því verður að benda fólki að hafa hraðar hendur við að skrá sig á listann og sýna þannig í verki að þjóðin láti ekki selja sig í þrælavist baráttulaust.

Ekki tekur nema eina mínútu að skrá sig og það er gert HÉRNA 


mbl.is Icesave á hraðferð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 15. febrúar 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband