3.12.2011 | 19:11
"Stelpurnar okkar" í stuði
Íslenska kvennalandsliðið í handbolta vann frækilegan sigur á Svartfjellingum á heimsmeistaramótinu í Brasilíu í dag, eftir æsispennandi leik sem lauk með sigri íslendinganna sem skoruðu 22 mörk gegn 21 svartfjellsku.
Þetta var óvæntur sigur, þar sem Svartfjellingar eru með sterkt lið og hefur verið spáð verðlaunasæti á mótinu. Þar sem þetta er í fyrsta sinn sem íslenskt kvennalið í handbolta kemst á heimsmeistaramót var í sjálfu sér ekki reiknað með að liðið næði að skipa sér á bekk með þeim bestu, en þessi úrlit auka þó vonir um gott gengi liðsins á mótinu.
Stelpunum er óskað góðs gengis í leikjunum sem eftir eru og nú sameinast þjóðin að baki stelpnanna okkar.
![]() |
Ísland vann fyrsta leik á HM |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
3.12.2011 | 13:09
Inn í hvernig stórríki vill Össur innlimast?
ESB stendur á miklum tímamótum núna og allir málsmetandi menn eru sammála um að nú sé orðið bráðnauðsynlegt að ganga skrefið til fulls og stofna formlegt stórríki Evrópu, með einni yfirstjórn og breyta núverandi ríkisstjórnum aðildarlandanna í héraðsstjórnir.
Takist ekki að ná fram nauðsynlegum breytingum á "stjórnarskrá" ESB verður a.m.k. að stofna nýtt efnahagsbandalag evruríkjanna með einum fjármálaráðherra og einum samræmdum fjárlögum fyrir þau öll og náist ekki heldur samkomulag um slíkt yrði þrautalendingin að skipta myntbandalaginu í tvennt, þ.e. í sambandsríki fjárhagslega sterkra og ábyrgra ríkja og svo hinna veiku og óábyrgu.
Allir virðast vera sammál um að evran muni ekki standast sem gjaldmiðill til framtíðar nema miklar breytingar verði á efnahagsstjórn myntbandalagsins og vonandi tekst að bjarga henni fyrir horn, enda hefði það alvarlegar afleiðingar fyrir fjármálakerfi heimsins ef evran springi í frumeindir sínar og ríkin neyddust til að taka upp sína gömlu gjaldmiðla.
Þar sem allt er í lausu lofti með framtíð ESB og ekki síður evrunnar, er algerlega óskiljanlegt að áformum um innlimun Íslands í þennan veikburða þurs, sem ESB er nú um stundir, skuli ekki hætt eða a.m.k. slegið á frest þangað til séð verður hvernig úr rætist fyrir ESB og myntsamstarfinu.
Angela Merkel og Nicolas Sarkozy, sem raunverulega eru allsráðandi í ESB munu ákveða sín á milli eftir helgi hvað aðrir verða látnir samþykkja varðandi björgunaraðgerðirnar.
Afar ólíklegt er að þau muni ráðfæra sig við Jóhönnu, Össur eða Steingrím J. áður en þau ákveða hvað gera skuli.
![]() |
Delors gagnrýnir evrusamstarf |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)