Ánægjulegir umskiptingar í ríkisstjórninni

Alger umskipti hafa orðið í afstöðu og framgöngu ríkisstjórnarinnar í Icesavemálinu, því nú keppast ráðherrarnir hver í kapp við annan að lýsa því yfir að aldrei hafi verið gert fyrir ríkisábyrgðum í tilskipunum ESB vegna tryggingasjóða innistæðueigenda og fjárfesta og því séu nánast engar líkur á því að mál tapist fyrir EFTAdómstólnum vegna kæru ESA um ætluð brot Íslands á EES-samningnum.

Þetta er allt annar og nýr tónn úr herbúðum stjórnarinnar, enda muna allir hvernig þessir sömu ráðherrar kepptust um að lýsa stuðningi við kröfur Breta og Hollendinga á hendur íslenskum skattgreiðendum og þurfti tvær þjóðaratkvæðagreiðslur til að reka þjónkunina við Breta, Hollendinga, ESB og AGS öfuga ofan í ráðherrana og koma þeim í skilning um að skattgreiðendur á Íslandi vildu ekki og ætluðu ekki að láta kúga sig til skattaþrælkunar fyrir þessa erlendu herra.

Nú kveður við algerlega annan tón, eins og eftirfarandi setning úr fréttinni ber með sér: "Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, segir Íslendinga hafa sterk efnisleg rök að byggja á í málarekstrinum gegn ESA. Hann segir Breta og Hollendinga jafnframt ætla sér að gera ástandið á Íslandi að féþúfu en hafi á engum efnislegum rökum að byggja."

Þetta eru sannarlega ánægjuleg umskipti og loksins fara ráðherrarnir að vinna í málinu eins og þeir hefðu átt að gera frá upphafi, þ.e. að verja rétt Íslendinga í málinu og berjast af öllum kröftum með þjóðinni gegn ofríkinu.

Tapist málið fyrir EFTA-dómstólnum verður það líklega vegna þeirrar staðreyndar að íslenska ríkisstjórnin var búin að fallast á sjónarmið andstæðinga sinna í málinu og staðfesta undirgefni sína með undirskrift sinni á þrjá kúgunarsamninga, sem þjóðin neitaði þó að staðfesta. 


mbl.is Eiga sér engin efnisleg rök
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Árásunum á lífeyrisþega verður að hrinda

Fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar og tilheyrandi bandormur eru samfelldar árásir á lífeyrisþega, t.d. með þeirri ætlan að svíkja hækkun lífeyris samkvæmt samningi ríkisstjórnarinnar við verkalýðshreyfinguna, ofursköttum á "umframhagnað" lífeyrissjóðanna, sem valda mun lækkun lifeyris, niðurskurði á möguleikum til sparnaðar í séreignarlífeyrissjóðunum um heil 50% o.fl.

Þetta eru því furðulegri árásir á kjör þeirra sem minnst hafa, þar sem ríkisstjórnin hefur kennt sig við "norræna velferð", þó það heiti sé nú orðið hreint öfugmæli og notað sem háðsyrði um ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms J. Engin "norræn velferðarstjórn" myndi kæra sig um að verða líkt við þá íslensku.

Raunveruleikaskin ráðherranna er orðið svo gjörsamlega brenglað og þeir eru svo gjörsamlega úr sambandi við það sem er að gerast í þjóðfélaginu, sem t.d. sannaðist eftirminnilega með ummælum Jóhönnu Sigurðardóttur um að fólksflóttinn úr landinu væri eintóm ímyndun þó annað eins hafi ekki sést síðan á tímum vesturfaranna fyrir rúmum hundrað árum.

Vonandi fær fólkið í landinu fljótlega nýja ríkisstjórn, sem lifir í sama raunveruleika og þjóðin sjálf.


mbl.is Umræður um bandorminn halda áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 14. desember 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband