Hvaða skatta og gjöld eru íslensku flugfélögin að innheimta?

EasyJet ætlar að hefja flug milli London og Íslands næsta vor og mun samkeppni á þeirri flugleið verða mikil og er það að sjálfsögðu mikið fagnaðarefni, því samkeppni er af hinu góða og því meiri sem hún er því betra.

Reikna má með að nýja, eða væntanlega, íslenska flugfélagið WoWair muni einnig fljúga á þessari leið, þannig að þegar þessi félög bætast við verða þúsundir flugsæta í boði á milli Íslands og Bretlands í viku hverri og vonandi mun næg eftirspurn fylgja þessu mikla sætaframboði.

Í fréttinni af easyJet segir m.a:  "Byrjað verður að selja miða í flug til og frá Íslandi á morgun og eru ódýrustu miðarnir á 32,99 pund, 6.100 krónur aðra leiðina. Fargjaldið fyrir flugmiða fram og til baka verður 58,81 pund, 10.900 krónur, með sköttum."

Sundurliðun á fargjaldi frá Keflavík til London, aðra leiðina, með Iceland Express hljóðar svo, samkvæmt kvittun:  "Fargjald kr. 7.500, skattar og gjöld kr. 10.350, samtals kr. 17.850.  Samkvæmt kynningu easyJet ætlar félagið að fljúga báðar leiðir fyrir nánast sömu upphæð og íslensku flugfélögin innheimta í skatta og gjöld af flugferð aðra leiðina.

Hvaða skatta og gjöld eru íslensku flugfélögin að innheimta, sem erlend félög þurfa ekki að standa skil á?

Er kannski bara verið að blekkja neytendur með verðskrá íslensku félaganna og verið að fela hluta raunverulegra tekna félaganna sjálfra undir liðnum "skattar og gjöld"?

Það væri þá ekki í fyrsta sinn sem íslenskir neytendur væru hafðir að fíflum af óprúttnum viðskiptasvíðingum. 


mbl.is EasyJet flýgur til Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Í mestri þörf" fyrir innlögn á líknardeild

Svo ótrúlega sem það kann að hljóma, á að draga saman í rekstri líknardeilda Landspítalans og fækka þar leguplássum þrátt fyrir að deildirnar anni ekki þeirri þörf sem fyrir er og að jafnaði sex dauðvona sjúklingar þurfi að bíða eftir innlögn.

Í fréttinni kemur fram m.a: "Sjúklingar eru teknir inn af biðlista eftir því hver er í mestri þörf hverju sinni. Yfirleitt er biðin frá nokkrum dögum upp í tvær til þrjár vikur. Hinn 19. október sl. voru tveir á biðlista líknardeildar aldraðra á Landakoti og fjórir á biðlista líknardeildarinnar í Kópavogi."

Þetta er nánast ótrúlegur lestur, enda textinn á ómanneskjulegu stofnanamáli.  Að ræða þetta alvarlega mál á þeim nótum að fólk sé látið hanga á biðlistum síðustu lífdagana, EFTIR ÞVÍ HVER ER Í MESTRI ÞÖRF HVERJU SINNI er nánast hneykslanlegt, því enginn sækist eftir því að FÁ að komast inn á líknardeild án þess að vera svo langt leiddur vegna öldrunar eða sjúkdóms, að ekkert bíði þess annað en dauðinn.

Það ætti ekki að vera ofverk þessa þjóðfélags að sjá til þess að aldrað fólk og sjúklingar, sem útséð er um að eigi ekkert framundan annað en að yfirgefa þessa jarðvist, geti gert það með reisn og sóma og án þess að líða kvalir.  Nógu erfiður er slíkur biðtími fyrir viðkomandi sjálfa og aðstandendur hans, að ekki sé aukið á þjáningar og kvöl með fyrirslætti um að þjóðfélagið hafi ekki efni á að líkna dauðvona fólki.

Vonandi skammast ráðamenn þessa málaflokks sín fyrir ástandið á þessu sviði heilbrigðisþjónustunnar og fjölga leguplássum á líknardeildum í stað þess að fækka þeim.

Ef einhversstaðar á að útrýma biðlistum gjörsamlega, þá er það á líknardeildunum. 


mbl.is Sex á biðlista líknardeilda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 9. nóvember 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband