22.11.2011 | 22:32
Mótmælendur sjálfum sér til háðungar
Eins fáránlegt og það var að leyfa "tjaldbúðir" mótmælenda á Austurvelli, er það jafn skammarlegt hvernig mótmælendurnir ganga um völlinn og subbuskapurinn sem einkennir allra þeirra umgengni á staðnum er þeim til mikillar skammar.
Borgaryfirvöld hljóta að sjá til þess að hreinsa Austurvöll strax á morgun, því þó meirihlutinn hafi sýnt og sannað í sumar að snyrtimennska sé ekki hans sterka hlið, eins og opin svæði borgarinnar sýndu svo ekki varð um villst, þá er of langt gengið að líða þennan sóðaskap í hjarta borgarinnar.
Eins sjálfsagt og það er að mótmæla því sem fólki finnst miður fara, þá er jafn sjálfsagt að umhverfinu sé sýndur sá sómi að umgengni sé eins og siðuðu fólki sæmir.
![]() |
Slæm umgengni á Austurvelli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
22.11.2011 | 19:39
Skattabrjálæðið í hnotskurn
Skattabrjálæði ríkisstjórnarinnar ríður ekki við einteyming og allt skal skattlagt í drep, sem nokkur leið er að skattleggja til heljar, hvort sem um er að ræða skattpíningu einstaklinga eða fyrirtækja, stórra og smárra. Nýjasta æðiskastið beinist að hrikalegri skattlagningu orkufreks iðnaðar og reynt að fegra geggjunina með því að þetta sé gert í þágu náttúru- og loftlagsverndar, enda heldur Steingrímur J. að með slíkum "röksemdum" sé auðveldara að troða áróðrinum ofan í þjóðina.
Eftirfarandi klausa úr fréttinni segir allt sem segja þarf um málið: Miðað við framleiðsluáætlanir Elkem Ísland ehf. mun fyrirhuguð álagning kolefnisgjalds sem lögð verður á félagið verða u.þ.b. 430.000.000 kr. árið 2013, 645.000.000 kr. árið 2014 og 860.000.000 kr. árið 2015. Fyrirhugað kolefnisgjald verður því meira en tvöfalt hærri upphæð en meðalhagnaður fyrirtækisins undanfarin tíu ár. Má því vera ljóst að allar forsendur fyrir frekari rekstri Elkem Ísland ehf. í framtíðinni verða gerðar að engu, en fyrirtækið hefur verið ein af meginstoðum atvinnulífs á Vesturlandi í rúmlega 30 ár.
Vinstri grænir hafa alltaf verið heiftúðugir hatursmenn allrar atvinnuuppbyggingar í landinu og alveg sérstaklega þeirru gríðarlegu hagsæld sem fylgt hefur orkufrekum iðnaði. Nægir að benda á Hafnarfjörð, Reyðarfjörð og Akranes til sönnunar um þau gífurlegu áhrif sem stóriðjufyrirtækin hafa á nærumhverfi sitt.
Greinilegt er á öllu að VG ætlar að ná því markmiði að koma í veg fyrir frekari stóriðju í landinu og tortíma þeirri sem fyrir er með skattabrjálæði.
Þjóðin hlýtur að rísa upp og gera allt sem í hennar valdi stendur til að vernda lifibrauð sitt.
![]() |
Loka ef skattur verður lagður á |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)