Of há arðsemiskrafa Landsvirkjunar?

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir að meðalarðsemi fyrirtækisins frá árinu 1965 hafi verið um 2% á ári, en segir að stefna þyrfti að 11% arðsemi eiginfjár árlega.

Þegar hann talar um arðsemi eigin fjár, hlýtur hann að vera að tala um raunvexti fjárins, þ.e. ávöxtun umfram verðbólgu, enda bókhald félagsins fært í dollurum og allar tekjur í þeirri mynt.

Til þess að ná 11% arði af eigin fé Landsvirkjunar þyrfti væntanlega að hækka allt raforkuverð í landinu um tugi prósenta, væntanlega bæði til almennings, smærri fyrirtækja og ekki síst til stóriðjunnar.

Landsvirkjun er öflugasta og eignamesta fyrirtæki landsins, þrátt fyrir að arðsemi eigin fjár hafi ekki verið meiri en þessi 2% að meðaltali og því vaknar sú spurning, hvort ekki sé full mikið í lagt að ætla sér að nánast sexfalda þessa arðsemi á næstu árum og áratugum.

Vextir á Íslandi hafa alltaf verið háir, svo háir að um raunverulegt vaxtaokur hefur verið að ræða, en varla hefur nokkur lánveitandi og hvað þá innistæðueigendur getað látið sig dreyma um 11% raunávöxtun fjármuna sinna.

Þeir sem gagnrýna "lága" arðsemi Landsvirkjunar verða að vera reiðubúnir til að greiða margfalt raforkuverð, miðað við það sem þeir gera núna.


mbl.is Of lítil arðsemi af virkjunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslendingar eru algerlega kaupóðir

Nánast í hvert skipti sem ný verslun opnar á Íslandi grípur um sig algert kaupbrjálæði og biðraðir myndast við þessar búðir, þar sem þúsundir "berjast" um að komast sem fyrst að vörurekkunum til að birgja sig upp af því sem til sölu er hverju sinni.

Yfirmenn sænsku verslunarkeðjunnar Lindex, sem opnaði í Smáralind um helgina, höfðu aldrei í sextíu ára sögu keðjunnar séð annað eins kaupæði og rann á Íslendinga við opnun verslunar á vegum keðjunnar og í því sambandi er verið að tala um veröldina alla.

Verslunareigendur í öllum nálægum löndum þekkja þetta kaupæði Íslendinga og oft hafa birst fréttir í erlendum fjölmiðlum af geggjunni sem grípur um sig þegar mörlandahópar í flugvélaförmum birtast á þeirra svæði.

Ísland er sannarlega "stórasta land í heimi" og Íslendingar "stórustu" eyðsluklær veraldar, jafnvel í dýpstu og verstu efnahagskreppu sem yfir landið hefur dunið.


mbl.is Loka vegna vöruskorts
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er verslunarferðum til útlanda að fjölga aftur?

Samkvæmt nýjustu tölum dróst velta dagvöruverslana saman um tæp 2% í október, miðað við sama mánuð á síðasta ári og þá ekki síst í fatnaði og skóm.

Á árum áður voru farnar skipulagðar verslunarferðir, jafnvel dagsferðir, til útlanda og voru það þá ekki síst einmitt þessar vörutegundir sem vinsælastar voru í slíkum ferðum.

Nú hafa ferðalög til útlanda aukist á ný og því vaknar sú spurnig hvort tengsl séu ekki á milli þessara auknu ferðalaga og minnkandi vörusölu hér innanlands og verslun sé að flytjast í auknum mæli úr landi á ný. Hækkun virðisaukaskatts og annarra álaga hér innanlands ýtir örugglega undir að slík þróun verslunarhátta aukist á nýjan leik.

Sala áfengis hefur einnig minnkað mikið milli ára og þar er aðalskýringin án vafa gríðarleg hækkun skatta og gjalda í ríkissjóð af þeirri vörutegund, sem einnig leiðir af sér aukið smygl og heimabrugg, enda mikið farið að bera á slíku síðustu mánuði.

Fróðlegt væri að vita hvort sala áfengis í Fríhöfninni hefur fylgt þróuninni á áfengissölunni í verslunum ÁTVR, eða hvort marktæk aukning hafi orðið á sölunni þar, þrátt fyrir aukna gjaldtöku á vörunum þar, eins og annarsstaðar þar sem ríkisstjórnin er með puttana.


mbl.is Minnkandi sala á fötum og skóm
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 15. nóvember 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband