Ætli Jóhanna, Steingrímur og Már séu sammála þessu?

Mervyn King, seðlabankastjóri Bretlands, segir að Bretland og reyndar veröldin öll, standi frammi fyrir gífurlegum efnahagserfiðleikum, jafnvel þeim mestu frá kreppunni miklu á fyrri hluta tuttugustu aldar.

Í fréttinni kemur m.a. fram eftirfarandi um álit Kings á ástandinu: "Hann sagði að staðan gæti jafnvel verið verri en í kreppunni miklu á fjórða áratug síðustu aldar. Mikilvægt væri að teknar væru réttar ákvarðanir sem i tilfelli Bretlands væri að dæla meiri peningum í umferð."

Með því að dæla meiri peningum í umferð á seðlabankastjórinn auðvitað við, að með því móti verði hægt að auka eftirspurn eftir vörum og þjónustu, sem fyrirtæki þurfa þá að framleiða og bjóða fram.  Með því móti eykst atvinna og þar með fækkar atvinnulausum og þeir sem vinnu hafa fá meiri peninga að spila úr.  

Þetta er svo sem ekki flókin hagfræði, en samt hefur verið unnið á þveröfugan hátt hér á landi undanfarin tvö og hálft ár, þ.e. í valdatíð núverandi ríkisstjórnar sem barist hefur með kjafti og klóm gegn hvers konar atvinnuuppbyggingu og þar með stuðlað að dýpkun og lengingu kreppunnar hér á landi.  Nýjasta hugmynd ríkisstjórnarinnar varðandi atvinnuleysið er að sekta þá sem án vinnu hafa verið í þrjú ár um hálfa milljón króna, með sviptingu atvinnuleysisbóta í þrjá mánuði.

Allir seðlabankar annarra landa hafa lækkað stýrivexti sína undanfarin misseri, jafnvel niður undir núll, en sá íslenski heldur sínum stýrivöxtum uppi og hótar enn frekari hækkunum á næstu mánuðum.  Enginn nema Már Guðmundsson og peningastefnunefnd seðlabankans skilur þá stefnu, enda er enginn að taka lán og engin fyrirtæki að fjárfesta eða framkvæma nokkurn hlut, enda berst ríkisstjórnin gegn hvers kyns framkvæmdum af þeirra hálfu.

Allir hlytu að fagna því ef Jóhanna, Steingrímur og Már færu að kynna sér hvað ráðamenn annarra þjóða telja heillavænlegast í baráttunni við efnahagskreppur. 


mbl.is „Heimurinn hefur breyst“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Andans "stórmenni" á breska þinginu

Barry nokkur Sheerman, sem ku vera þingmaður Verkamannaflokksins á breska þinginu, mun hafa sótt Ísland heim nýlega og þó hann segi Íslendinga vera hið vænst fólk, þá þurfi alþjóðasamfélagið að taka sig saman um að svelta þá til að hætta hvalveiðum og borga Icesave.

Þetta andans "stórmenni" afhjúpar hins vegar að annaðhvort viti hann ekkert um hvað hann er að tala, eða hann lýgur bara vísvitandi og þá væntanlega til að sýna kjósendum sínum og öðrum sem nenna að hlutsta á hann, að hann sé stór kall, sem láti aðra eins rudda og Íslendinar séu, þrátt fyrir fleðulæti, ekki komast upp með neinn moðreik.

Í fréttinni kemur m.a. fram að "snillingurinn" hafi m.a. látið hfa eftir sér um Icesave: "Hann segir að sér hafi verið vel tekið af þeim Íslendingum sem hann hafi hitt en fer síðan hörðum orðum um íslensku elítuna sem hafi kostað Breta háar fjárhæðir. Í stað þess að greiða þær til baka skýli þessir aðilar sér á bak við þjóðaratkvæðagreiðslur þar sem Íslendingar hafi verið spurðir að því hvort þeir vildu greiða skuldir sínar."

Þarna virðist þessi kjörni fulltrúi bresku þjóðarinnar halda að Landsbankinn, annaðhvort sjálfur eða í umboði útrásargengjanna, hafi vísað því í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort "þeir vildu greiða skuldir sínar". Þarna var alls ekki um skuldir Íslendinga að ræða og þeir neituðu í umræddum þjóðaratkvæðagreiðslum að taka að sér að greiða óreiðuskuldir einkaaðila sem átt hefðu í viðskiptum við Breta og þeir gengu til algerlega sjálfviljugir og tóku með því ákveðna áhættu sem aldrei var áhætta íslensku þjóðarinnar.

Því verður illa trúað að Barry Sheerman gefi rétta mynd af því fólki sem valist hefur á breska þingið. 


mbl.is Vill viðskiptaþvinganir gegn Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ASÍ hefur gefist upp á ríkisstjórninni - eins og aðrir

Það verða að teljast stórtíðindi að Miðstjórn Alýðusambands Íslands, undir forystu Samfylkingarmannsins Gylfa Arnbjörnssonar, skuli senda frá sér eins harðorða vantraustsyfirlýsingu á ríkisstjórnina og raun ber vitni.

Fokið er í flest skjól ríkisstjórnarinnar, þegar eins dyggur flokksmaður og Gylfi er og hefur lengi verið, lýsir yfir algerum vonbrigðum með ríkisstjórnina og lýsir því skorinort yfir að ekki sé að marka eitt einasta loforð sem hún hefur gefið í tengslum við kjarasamninga á öllum sínum líftíma.

Ekki gefur Gyldi fjárlagafrumvarpinu háa einkunn, en um það segir hann m.a:  "Það eru engin svör að sjá í þessu frumvarpi. Og engin svör að finna í stefnuræðum hvorki forsætisráðherra né fjármálaráðherra. Og þetta eru grundvallaratriði sem við gengum frá í maí að ættu að liggja fyrir í júní, en liggja ekki fyrir enn."  Varla þarf að minna á, að stjórnin sveik öll loforð í tengslum við Stöðugleikasáttmálann sen hún skrifaði undir í Júní 2009 og allt hefur verið svikið sem að atvinnumálum hefur snúið síðan, eins og reyndar flest önnur fyrirheit, t.d. um "skjaldborg heimilanna".

Ekki síður gagnrýna Gylfi og miðstjórnin þá fyrirætlan ríkisstjórnarinnar að refsa þeim sem enga vinnu hafa fengið í þrjú ár, með því að svipta þá atvinnuleysisbótum í þrjá mánuði, sem jafngildir a.m.k. hálfrar milljónar króna sektargreiðslu, sem ríkisstjórnin virðist telja að langtímaatvinnulausir hafi efni á að reiða fram, eins og ekkert sé.

Að þessi ríkisstjórn skuli kalla sig "norræna velferðarstjórn" er ekki eingöngu hreint öfugmæli, heldur hrein móðgun við almenning í landinu. 


mbl.is Vantar svör um stefnumörkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tæknitröll fallið frá

Steve Jobs, stofnandi Apple sem á undraskömmum tíma varð alger risi á tölvumarkaði og leiðandi í þeirri tæknibyltingu sem staðið hefur yfir undanfarna áratugi og ekki sér fyrir endann á ennþá.

Ef einhver hefur átt tililinn "tæknitröll" algerlega skuldlausan, þá er það Steve Jobs og hugvit hans og snilligáfa hefur haft áhrif á líf hvers einasta manns á jarðríki og ekki hægt að reikna með að slík ofurmenni líti dagsins ljós, nema í mesta lagi einu sinni á öld.

Missir heimsbyggðarinnar er mikill við fráfall þessa ofursnillings.


mbl.is Steve Jobs látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 6. október 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband