22.10.2011 | 19:27
Þyrfti að lesast upp á landsfundi Samfylkingarinnar
Paul Krugman, Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, hefur verið að kynna sér stöðu ríkja, sem farið hafa illa út úr fjármálakreppunni sem skall yfir á haustdögum árið 2008 og komist að þeirri niðurstöðu að neyðarlögin sem ríkisstjórn Geirs H. Haarde setti við bankahrunið, hafi orðið til að bjarga því sem bjargað varð í efnahagslífi Íslands.
Setning neyðarlaganna og sjálfstæður gjaldmiðill hafi orðið til þess að Íslendingar hafi langt í frá orðið þjóða verst úti í fjármálakreppunni, eða eins og hann útskýrir hvers vegna þetta er staðreyndin:
"Aðalástæðan sé sú, að Íslendingar neituðu að axla ábyrgð á þeim skuldum, sem bankamenn höfðu hlaðið upp. Einnig hafi Íslendingar getað látið gengi krónunnar lækka mikið og þannig fengið forskot á þær þjóðir, sem annaðhvort voru með evru eða tengdu gjaldmiðla sína við þá mynt."
Þessi niðurstaða verðlaunahagfræðinsins er svo sem ekki ný uppgötvun hans, því flestir aðrir en stuðningsmenn Samfylkingarinnar hafa gert sér grein fyrir þessum staðreyndum alveg frá bankahruninu í október 2008.
Einhver þyrfti að taka sig til og kynna álit Paul Krugmans á landsfundi Samfylkingarinnar sem nú stendur yfir.
![]() |
Ísland hefur ekki farið verst út úr kreppunni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.10.2011 | 16:36
Ekki er von á góðu í Líbíu
Eftir að uppreisnarmönnum í Líbíu tókst að drepa Gaddafi, fyrrum einræðisherra, án þess að ná því að skýra rétt frá aðdraganda og framkvæmd þeirrar gjörðar, geta leiðtogar hinna ýmsu hópa, sem að byltingunni stóðu, ekki komið sér saman um hvar, hvenær eða hvernig skuli husla líkið af harðstjóranum.
Ekki vekja þessar deilur miklar vonir um að framtíðin verði friðsamleg í Líbíu, eða að þar takist að koma á friðsamlegum stjórnarháttum á næstunni. Fylkingar uppreisnarmanna eru svo margar og "framámenn í héraði" svo margir, að ólíklegt er að samkomulag náist um stærri og brýnni mál en hvernig skuli staðið að þessari útför hins hataða harðstjóra.
Ekki kæmi á óvart þó bardögum sé langt frá því lokið í landinu og þeim verði ekki hætt fyrr en nýr "þjóðarfrelsari" verður búinn að drepa af sér alla keppinauta um hver skuli teljast vera "faðir" Líbíu í framtíðinni.
Sú valdabarátta mun að sjálfsögðu bitna mest á almenningi landsins, sem þó hefur mátt þola meira en nógar þjáningar í áratugi, meira að segja aftur fyrir valdatíma Gaddafis.
![]() |
Deilur um útför Gaddafis |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.10.2011 | 13:02
Árás "velferðarstjórnarinnar" á lífeyriskerfið
"Norræna velferðarstjórninni" er að takast það markmið sitt að fá fólk á besta aldri til að eyða þeim sparnaði sem það átti í séreignarlífeyrissjóðunum til þess að ná af því auknum tekjuskatti og að auki stærir hún sig af því að hagvöxtur, byggður á aukinni einkaneyslu, hafi farið vaxandi.
Slíkur hagvöxtur er auðvitað falskur og nú þegar sér fyrir endann á því að frekari úttektir úr séreignarsjóðunum verði mögulegar, dettur "velferðarstjórninni" í hug það snjallræði að minnka möguleika fólks á slíkum sparnaði um heil fimmtíu prósent.
Með því móti tekst ráðherrunum, sem svo háðulega kenna sig við "velferð" að auka skattpíninguna á launafólk, án þess að þykjast vera að hækka skattprósentur. Þetta bætist við þá skattahækkun sem orsakast af því að launaþrep í skattstiganum verða ekki hækkuð í samræmi við launavísitölu. Slík hækkun launaþrepanna er bæði lögbundin og bundin í loforð ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga, en hvort tveggja vílar ríkisstjórnin sér ekkert við að svíkja.
Það er ömurlegt að horfa upp á "norrænu velferðarstjórnina" ráðast ítrekað á og brjóta niður það velferðarkerfi sem sífellt var verið að bæta á tuttugu ára valdatíma Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn.
Ekki þarf annað en að lesa umsagnir öryrkja og annarra lífeyrisþega til að skilja þvílíkt öfugmæli nafnið er, sem þessi "norræna velferðarstjórn" hefur gefið sjálfri sér.
![]() |
Ekki val heldur lögboðuð þvingun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.10.2011 | 09:14
Hvað gerir Steingrímur J. vegna ólöglegs virðisaukaskatts?
Verði endanleg niðurstaða dómstóla sú, sem líklegast er, að kaupleigusamningar fjármálafyrirtækjanna sem voru gengisbundnir verði úrskurðaðir ólöglegir eins og aðrir gengisbundnir lánasamningar, mun það kalla á háar endurgreiðslur úr ríkissjóði vegna virðisaukaskatts sem greiddur hefur verið frá upphafi þessara gengisviðmiðana.
Um milljarða tugi gæti verið að ræða þar sem þúsundir fyrirtækja og einstaklinga hafa í gegn um tíðina fjármagnað tækjakaup sín með þessu móti og margir hreinlega orðið gjaldþrota, eftir að gengið hrundi og afborganir þessara samninga hækkuðu gífurlega.
Að slíkri niðurstöðu fenginni yrði ríkissjóður að skila til baka þeim virðisaukaskatti sem innheimtur hefur verið af ólöglegum innheimtum, því ríkið verður auðvitað að skila illa fengnu fé, eins og aðrir. Ekki síður mun þetta koma illa við þá sem innskattað hafa slíka samninga í rekstri sínum og þurfa þá að endurgreiða ríkissjóði vegna þess.
Nema Steingrími J. detti í hug að setja lög í snarhasti, sem undanskilji báða aðila frá slíku uppgjöri.
![]() |
Ríkissjóður gæti tapað á dómi um fjármögnunarleigu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)