Lýsing berst "til síðasta blóðdropa".

Fjármálafyrirtækin hafa verið að hrekjast úr einu vígi í annað vegna dóma Hæstaréttar um ólögmæti gegnistryggingar lánasamninga. Þrátt fyrir að niðurstaða Hæstaréttar sé skýr í hverju því máli sem lokið er fyrir dómstólnum, neita fjármálastofnanirnar að viðurkenna dómana sem fordæmi vegna annarra lánasamninga en nákvæmlega þeirra sem dæmt er um hverju sinni.

Þetta hefur orðið til þess að nauðsynlegt hefur verið að fara með hvert einasta lánsform í sérstök málaferli og þrátt fyrir að niðurstaða Hæstaréttar sé sú sama í hvert sinn, hvort sem um raunverulega lánasamninga eða fjármögnunarsamninga hafi verið að ræða, að alltaf er sagt að orðalag næsta samnings sé ekki nákvæmlega eins og í þeim samningum sem þegar hefur verið felldir dómar vegna og þess vegna eigi dómsniðurstaðan ekki við um "okkar samninga".

Lýsing hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna dóms Hæstaréttar um ólögmæti fjármögnunarleigusamninga Íslandsbanka og segir að sá dómur eigi alls ekki við um sína samninga, enda sé orðalagið á þeim öðruvísi en á samningum Íslandsbanka og því verði sá dómur að engu hafður varðandi samninga Lýsingar.

Lýsing ætlar að "berjast til síðasta blóðdropa" og segir að niðurstaðu dómstóla varðandi orðalag sinna samninga verði vonandi að vænta um mitt næsta ár. Síðan "harmar" fyrirtækið hve dómstólarnir rugli fólk mikið í ríminu og fái það jafnvel til að halda að dómar Hæstaréttar geti verið fordæmi fyrir viðskiptavini sína.

Falsið og tvískinnungurinn í málflutningi Lýsingar veldur flökurleika hjá hraustasta fólki. Aðrir kasta strax upp.


mbl.is Segja dóminn ekki gefa fordæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Villimennska á báða bóga í Líbíu

Þegar uppreisnarmenn í Líbíu fundu Gaddafi, fyrrum einræðisherra, eftir bardagana um fæðingarbæ hans, virðist hann hafa verið særður en þó með fullri rænu og rólfær.

Ekki er annað að sjá en að harðstjórinn hafi verið beittur miklu harðræði og í raun níðingsskap eftir handtökuna, honum verið misþyrmt og að lokum drepinn og líkið dregið um götur í háðungarskyni.

Gaddafi hafði stjórnað landinu með mikilli hörku og miskunnarleysi gagnvart andstæðingum sínum í áratugi og því byggt upp mikið hatur á sjálfum sér og stuðningsklíku sinni, en eftir sem áður er framferði uppreisnarmannanna eftir handtöku hans algerlega óafsakanlegt og ógeðslegt.

Það miskunnarleysi sem uppreisnarmenn hafa sýnt ýmsum samstarfsmönnum einræðisherrans, hermönnum hans og málaliðum gefur ekki miklar vonir um að stjórnarhættir breytist mikið í landinu á næstunni og raunverulegt lýðræði mun eiga langt í land með að verða að veruleika.

Næstu vikur og mánuðir munu skera úr um hvort bjartari tímar renni í raun og veru upp fyrir almenning í þessu langhrjáða landi, sem ætti að geta átt bjarta framtíð við eðlilegar aðstæður.


mbl.is „Þá sáum við hans loðna höfuð“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 21. október 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband