7.1.2011 | 22:39
Ímynduð samsæri á mbl.is
Ótrúlega oft fyllist bloggið af samsæriskenningum út af einhverjum ósköp venjulegum fréttum sem birtast á mbl.is og fólk nær ekki upp í nefið á sér af vandlætingu og hneykslan á því hryllilega leynimakki og myrkraverkum sem fram fara á ritstjórn mbl.is.
Oftast eru samsæriskenningasmiðirnir með það algerlega á hreinu að Davíð Oddson sé höfuðpaurinn í skipulagi myrkraverkanna og skrifi sjálfur nánast hverja einustu frétt, sem birtist í Mogganum og á mbl.is og allar fréttirnar verði að lesa með það í huga að á bak við þær sé sóðalegt samsæri gegn þjóðinni í heild sinni, eða a.m.k. einhverjum ákveðnum þjóðfélagshópum í hvert skipti.
Nú ryðjast fram á völlinn nokkrir þessara samsæriskenningasmiða fullvissir um að nú sé Davíð að reyna að eyðileggja undirskriftasöfnun Bjarkar Guðmundsdóttur og félaga með því að skrifa lymskulega frétt um að einhverjir gætu hafa verið skráðir á listann án sinnar vitundar.
Í fréttinni kemur eftirfarandi reyndar fram, haft eftir Oddnýju Eir Ævarsdóttur, talsmanns undirskriftasöfnunarinnar: "Sumir hafa skráð sig áður - þetta er auðvitað búið að vera í gangi frá því í sumar - og kannski gleymt því að þetta er það sama."
Svo, þegar nokkrir bloggarar eru búnir að tjá sig um djúphugsaða samsæri Davíðs til eyðileggingar á verkum hugsjónamannanna sem að undirskriftunum standa, kemur fram einn sem einmitt staðfestir framangreind orð Oddnýjar um að hann hafi hreinlega verið búinn að gleyma því að hafa tekið þátt áður, enda söfnunin staðið yfir í a.m.k. hálft ár og því telja margir að söfnuninni sem hófst s.l. sumar hafi verið lokið og ný tekin við.
Svona geta skemmtilegustu samsæriskenningar hrunið á einu augnabliki og höfundarnir sitja eftir með sárt ennið og orðnir aðhlátursefni vegna vitleysunnar sem þeir voru búnir að láta frá sér.
![]() |
Skráð gegn vilja sínum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
7.1.2011 | 16:16
Áskoranir um að skrifa undir áskoranir
Um þessar mundir eru a.m.k. tvennar undirskriftarsafnanir í gangi á netinu og er þátttaka í þeim mjög mikil, þó tíminn sem farið hefur í að safna nöfnunum á listana hafi tekið mismikinn tíma.
Undirskriftasöfnun hefur staðið yfir í nokkra mánuði vegna kröfu um að orkuauðlindir landsins skuli vera í "eigu þjóðarinnar" og að komið verði í veg fyrir sölu HS-orku til Magma Energy og hafa nú tæplega þrjátíuþúsund manns skráð sig fyrir þeirri kröfu.
Björk Guðmundsdóttir og fleiri listamenn standa fyrir þessari undirskriftasöfnun og eftir því sem Björk hefur sagt í fréttum, mun ríkisstjórnin hafa sagt henni að taka yrði mark á kröfunni, ef a.m.k. 35 þúsund manns myndu skrifa undir. Til að tryggja þann mannfjölda á listann stendur Björk fyrir þriggja daga karókímaraþoni í Norræna húsinu og troða þar upp allir helstu listamenn þjóðarinnar í þeim tilgangi að hvetja almenning til að skrá sig á listann. Miðað við að síðasta sólarhring hafa um áttaþúsund manns skráð sig, er ekki að efa að listamönnunum mun takast ætlunarverk sitt og gott betur, áður en maraþoninu lýkur.
Einnig er í gangi undirskirftasöfnun, sem mun standa yfir á vef FÍB fram til þriðjudagskvöldsins n.k., sem fólk hefur flykkst til þátttöku í til að mótmæla þeim áformum ríkisstjórnarinnar að girða alla vegi til og frá Reykjavík af með vegtollahliðum og innheimta með því móti nýja umferðaskatta af bíleigendum í viðbót við allt annað skattabrjálæði sem þjóðin þarf að þola af hálfu núverandi ríkisstjórnar.
Á fjórum sólarhringum hafa tæplega fjörutíuþúsund manns skráð sig og mótmælt þannig þessu nýjasta skattahækkanabrjálæðiskasti stjórnarinnar og eru allar líkur á að hátt í 50 þúsund verði búnir að skrá sig á listann fyrir þriðjudagskvöld.
Gangi það eftir, verða þetta fjölmennustu, sneggstu, friðsamlegustu og kröftugustu mótmæli sem sett hafa verið fram á Íslandi frá upphafi vega.
Engin ríkisstjórn getur hunsað slík mótmæli. Sé það rétt, sem Björk segir, að ráðherrarnir setji markið við 35 þúsund manns, til þess að mark sé tekið á kröfum þeirra, þá dettur engri ríkisstjórn á næstu áratugum í hug að leggja slíka vegatolla á í landinu, nema fella niður aðra skattheimtu til vegagerðar á móti.
![]() |
Hátt í þrjátíu þúsund undirskriftir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.1.2011 | 13:27
Siðblinda á Facebook og víðar
Frétt um að ungmenni í Kanada hafi sett myndir af nauðgun inn á Facebook og víðar um vefinn vekja upp ýmsar hugrenningar um hvernig siðferði fer hrakandi og glæpalýður er jafnvel farinn að hreykja sér af illverkum sínum og fá jafnvel klapp á bakið frá almenningi fyrir athafnir sínar.
Í þessu máli er fyrsti glæpurinn auðvitað nauðgunin sjálf, en hún fór fram í rave-partýi að viðstöddum fjölda manna, sem skemmtu sér við að taka ljós- og kvikmyndir af glæpnum og hafa þá greinilega haft hina bestu skemmtan af þessu hroðalega athæfi gagnvart 16 ára stúlku.
Að glæpnum loknum rauk fjöldi viðstaddra til og setti myndir sínar af "skemmtuninni" inn á Facebook og fleiri samskiptavefi og þrátt fyrir að myndirnar hafi verið fjarlægðar af vefjunum síðar, var fjöldi siðleysingja búinn að hlaða þeim niður á tölvur sínar og birta þær svo reglulega á vefnum síðan, þannig að þær munu fylgja stúlkunni ævilangt til upprifjunar á þessum hroðalega glæp sem á henni var framinn.
Það sem þó er allra furðulegast við þessa frétt er eftirfarandi: " Stúlkan, sem varð fyrir árásinni, hefur í kjölfarið sætt einelti og þurfti nýlega að skipta um skóla vegna þessa. " Að fórnarlamb nauðgunar skuli í kjölfarið sæta einelti og ekki vera vært í skóla lýsir slíku siðleysi og mannvonsku að ekki er hægt að líkja slíku við neitt annað en nauðgunina sjálfa og að gerendur eineltisins séu þar með orðnir beinir þátttakendur í glæpnum og nánast jafnsekir hinum, sem upphaflega beittu stúlkuna ofbeldi.
Ekki er langt síðan svipað mál kom upp hérlendis, en í því tilfelli varð kona sem nauðgað hafði verið að flýja heimabæ sinn vegna eineltis af hálfu ættingja og vina glæpamannsins.
Allt sýnir þetta að siðferðisvitund fólks virðist fara verulega þverrandi. Með sama áframhaldi á þessu sviði er lítil tilhlökkun til framtíðarinnar, því ef fer sem horfir verður alger upplausn á siðferissviðinu a.m.k. í mannlegum samskiptum á næstu áratugum.
![]() |
Settu myndir af nauðgun á Facebook |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)