Ótrúlegt tilboð RÚV vegna HM í handbolta

Þegar sýningarrétturinn á HM í handbolta var boðinn út taldi RÚV sig ekki hafa efni á að borga það sem þurfti til þess að fá að sýna keppnina. Undanfarið hefur stofnunin staðið í niðurskurði dagskrár og hætti t.d. með Spaugstofuna, þar sem hún sagði hana vera allt of dýra til að RÚV hefði efni á að hafa hana á dagskrá lengur.

Núna allt í einu, viku áður en HM í handbolta á að hefjast, sendir RÚV tilboð til 365 hf. og býðst til að borga það sem félagið greiddi fyrir sýningarréttinn að HM að viðbættu 20% álagi vegna þeirrar vinnu sem búið væri að leggja í undirbúning sýninganna.

Þetta eitt og sér er nógu geggjað, en fréttin af þessu ótrúlega tilboði endar svona: "RÚV skuldbindur sig til að virða alla samninga sem 365 hafi gert við þriðja aðila, svo sem kostendur, auglýsendur o.fl., eða endursemja við þá eftir atvikum. Þá yrði 365 heimilt að sýna alla leikina a HM samhliða RUV og vinna úr útsendingunum allt það ítarefni, sem fyrirhugað var til þáttagerðar og annarra nota."

Hér hlýtur að vera um eitthvert brjálaðasta tilboð sem opinber stofnun hefur gert einkafyrirtæki, þ.e. að bjóðast til að kaupa útsendingarrétt á svona stórkeppni, en einkafyrirtækið fái síðan að sýna alla leikina eftir sem áður og nota það til þáttagerðar og annarra nota, eins og því sýnist.

Að ætla sér að fara svona með opinbert skattfé er svo ótrúlegt, að fyrst datt manni ekki annað í hug en að um grín væri að ræða.  Hingað til hefur útvarpsstjóri notið stuðnings á þessari bloggsíðu, en með þessu útspili hefur hann fyrirgert honum algerlega.  

Í þetta sinn verður HM í handbolta að sjálfsögðu sent út á Stöð2 Sport og þeir sem vilja horfa á keppnina kaupa sér einfaldlega áskrift að stöðinni.  Þegar kemur að næstu stórkeppni berjast þessar stöðvar og jafnvel fleiri um sýningarrétt þeirrar keppni og verði fjárhagur RÚV viðunandi þegar þar að kemur, þá getur stofnunin hugsanlega boðið hæsta verðið í útsendingarréttinn.

Það er algerlega geggjað af RÚV að ætla sér að kaupa sýningarréttinn af hæstbjóðanda hverju sinni örfáum dögum áður en útsendingarnar hefjast. 


mbl.is RÚV vill kaupa HM
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Annar þingflokkur VG hótar að reka hinn

Eftir þingflokksfund VG í gær reyndi Steingrímur J. að gera lítið úr þeim djúpstæða ágreiningi sem ríkir milli manna á þeim bænum, en hins vegar kom mjög vel í ljós í viðtölum við Ásmund Daða og Lilju Mós. að öll ágreiningsmál hefðu einungis verið sett á bið og að í raun væru þingflokkar VG tveir en ekki einn.

Þetta staðfestir Lilja ótvírætt í dag á Fésbókarsíðu sinni með þessari færslu: "Á þingflokksfundi VG í gær ræddum við málefnalegan ágreining eins og gera á í lýðræðislegu ríki. Okkur tókst hins vegar ekki að klára umræðuna, enda mörg og stór mál undir. Hótanir um að sumir séu ekki í liðinu og eigi því að víkja úr stjórnarliðinu og þingnefndum er merki um skoðanakúgun."

Ekki er að reikna með að klofningur þingflokks VG verði betur útskýrður en þetta á þessu stigi málsins, en greinilegt er að "villikettirnir" hafa látið þvinga sig til að vera stilltir og góðir eitthvað áfram til að halda sætum sínum í þingnefndum og formennsku í einhverjum þeirra.  Einhverjir myndu nú  kalla þetta undirlægjuhátt til að halda í bitlinga, en sjálfsagt telja Lilja og félagar sig verða að vinna tíma til að móta næstu skref sín í innanflokksátökunum og hvernig best verði staðið að uppgjörinu við Steingrím J. og hans arm í flokknum.

Það er a.m.k. orðið dagljóst að VG mun ekki bjóða fram í óbreyttri mynd í næstu Alþingiskosningum, en líklega heldur Steingrímur J. nafni flokksins, en Ögmundur, Ásmundur, Lilja, Guðfríður Lilja, Atli og fleiri, munu bjóða fram lista í nafni nýs stjórnmálaflokks. 

Allt stefnir í mikið úrval stjórnmálaflokka í næstu kosningum og ættu allir að finna þar eitthvað við sitt hæfi, eins og oft er sagt í auglýsingunum. 


mbl.is Vildu ekki birta minnisblaðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 6. janúar 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband