28.1.2011 | 23:22
Óglæsileg framtíðarsýn
Matsfyrirtækið Moody´s varar Bandarísk yfirvöld við því að lánshæfismat Bandaríkjanna verði lækkað, taki þau ekki kröftuglega á hallarekstri landsins, sem hefur farið sívaxandi undanfarin ár og stefnir í 1.500 milljarða dollara á þessu ári.
Mörg af öflugustu hagkerfunum stefna í miklar ógöngur og má, fyrir utan Bandaríkin benda á Evrópu, sem á nú í miklu basli og útlit fyrir að evran hrynji sem gjaldmiðill á næstu misserum og Japan, en matsfyrirtækið Standard & Poor's lækkaði í gær lánshæfismat Japana, vegna hallarekstrurs landsins og olli það mikilli lækkun Jensins, sem hefur verið með allra sterkustu gjaldmiðlum undanfarin ár.
Nýti Íslendingar ekki þau tækifæri sem nú bjóðast varðandi erlenda fjárfestingu í atvinnufyrirtækjum á landinu mun þeir missa algerlega af lestinni, því innan skamms tíma verður ekki um neina erlenda fjárfesta að ræða hérlendis, því þeir munu hafa nóg með að halda sjó og verja fjárfestingar sínar frá fyrirséðu verðhruni á næstu árum.
Mestar líkur eru á því að gífurleg fjárhagsleg kreppa muni hrjá veröldina næstu tíu til tuttugu árin og verði gæsirnar ekki gripnar núna, munu þær fljúga frjálsar um langan tíma.
![]() |
Líkur á breyttu mati aukast |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.1.2011 | 19:35
Fáheyrð tíðindi
Þau fáheyrðu tíðindi hafa nú gerst, að Landskjörstjórn hefur axlað sinn hluta ábyrgðar af klúðrinu með kosninguna til Stjórnlagaþings og nú verður að reikna með því að einhverjir embættismenn í Innanríkisráðuneytinu og nokkrir ráðherranna fylgi fordæminu fljótlega.
Ef rétt er munað var ein af niðurstöðum Rannsóknarnefndar Alþingis sú, að allt of mikil lausung hefði ríkt í stjórnkerfinu hérlendis og lög og reglur hefðu verið umgengnar með allt of mikilli léttúð með þeim afleiðingum að mikil lausatök hefðu verið í öllu kerfinu og ekki hefði verið festa og samkvæmni í afgreiðslum mála. Af öllum þeim tugum manna, sem mættu fyrir Rannsóknarnefndina til skýrslutöku, taldi enginn sig bera nokkra ábyrgð á því sem gerst hafði og engum datt í hug að segja af sér starfi eða embætti af því tilefni.
Ekki er ólíklegt að Hæstiréttur hafi einmitt tekið mið af þessari hörðu gagnrýni Rannsóknarnefndarinnar og því dæmt eftir ýtrasta bókstaf, ekki síst til að sýna það fordæmi að stjórnkerfinu sé ætlað að starfa samkvæmt lögum landsins í framtíðinni og að Hæstiréttur a.m.k. muni ekki taka neinum vettlingatökum þá sem ákærðir verða fyrir að reyna að fara með léttúð í kringum lögnin.
Mikið má þakka fyrir að Hæstiréttur skuli sýna enn og aftur að í öllu því umróti sem ríkir í þjóðfélaginu, er a.m.k. einn aðili sem rækir skyldur sínar og er haldreipið sem þjóðin getur treyst fullkomlega á til framtíðar.
![]() |
Landskjörstjórn sagði af sér |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
28.1.2011 | 10:22
Hægri og vinstri hendur
Greinilegt er að hægri hendin veit ekki hvað sú vinstri er að gera í málefnum dómstóla landsins, því önnur veitir auknum fjármunum til að ráða fleiri dómara til dómstólanna vegna málafjöldans, sem hrúgast upp vegna bankahrunsins, en hin sker framlög til annars rekstur svo mikið niður, að ekki er hægt að ráða fleiri dómara vegna fjárskorts.
Um þessa fáránlegu stjórnsýslu segir Símon Sigvaldason, formaður Dómstólaráðs í fréttinni: "Þetta er mjög einkennileg staða að okkur sé gert að skera niður á sama tíma og við fáum fjárveitingar til þess að fjölga fólki. Það leiðir til þess að við getum kannski ekki ráðið í stöðurnar á þeim tíma sem við ættum, því að þó það fylgi með þeim fjármunir er verið að taka þá af okkur á öðrum stað með niðurskurði."
Það má alls ekki skera niður fjárframlögin til rannsóknaraðila og dómskerfisins á meðan að verið er að komast í gegnum að upplýsa og dæma vegna allra þeirra glæpa, sem framdir voru í aðdraganda bankahrunsins, stórra og smárra, en málin eru seinleg í vinnslu og flókin og verða að fá þann tíma og fjármagn sem til þarf. Ekki síður þarf að hraða byggingu nýs fangelsis, enda bíða 300 manns eftir afplánun og þeim á eftir að fjölga mikið, eftir því sem dómar fara að falla vegna fjármálaglæpanna.
Íslendingar mega ekki láta það um sig spyrjast, til viðbótar við aðra skandala, að þeir tími ekki að koma glæpamönnum á bak við lás og slá.
![]() |
Héraðsdómur að drukkna í málum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)