15.1.2011 | 22:18
Icesavelygin afhjúpuð enn og aftur
Ríkisstjórnin með Steingrím J. í fararbroddi hafa logið því óhikað að þjóðinni að gangist hún ekki undir skattaþrældóm fyrir Breta og Hollendinga næstu áratugina, fáist enginn erlendur aðili til að fjárfesta á Íslandi og engin lánastofnun í heiminum muni nokkurn tíma veita íslenskum fyrirtækjum lán framar.
Smátt og smátt hefur verið að flettast ofan af þessari lygi, t.d. hafa Marel, Össur og Landsvirkjun fengið risastór lán frá erlendum lánastofnunum til að endurfjármagna eldri lán sín og fjöldi erlendra fjárfesta bíða á hliðarlínunni, tilbúnir til að fjárfesta hér á landi um leið og ríkisstjórnin hættir að standa í vegi fyrir allri atvinnuuppbyggingu í landinu.
Hér hefur því margoft verið haldið fram að ekkert myndi standa á að fá hingað erlenda fjárfesta og erlendar lánastofnanir til að leggja fé í hvert það fyrirtæki sem þætti arðvænlegt og gæti skilað fjárfestingunni til baka á eðlilegum árafjölda.
Það eina sem þarf er ríkisstjórn sem væri hliðholl atvinnulífinu og hefði skilning á því að með því að eyða atvinnuleysinu eyðist kreppan, en með því að stuðla að atvinnuleysi og vera haldin skattahækkanabrjálæði, eins og núverandi ríkisstjórn, mun kreppan ekki gera neitt annað en lengjast og dýpka.
Kaup Spánverja á Vífilfelli er enn ein sönnunin fyrir því að Steingrímur J. og ríkisstjórnin eru á villigötum og að fjárfestar munu stökkva á vænlegar fjárfestingar um leið og möguleiki til þess skapast.
![]() |
Spánverjar kaupa Vífilfell |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
15.1.2011 | 14:28
Björgunarhetjur
Við Íslendingar búum við að eiga ótrúlega vel þjálfaðar björgunarsveitir, bæði hjá Landhelgisgæslunni og hjálparsveitum sjálfboðaliða vítt og breitt um landið. Ferð þyrlanna frá gæslunni til að sækja skipverja af liháisku flutningaskipi 115 sjómílur út á haf í hvassviðri og mikilli ölduhæð, er nýjasta staðfesting á frábærri þjálfun, áræðni og getu þessara manna.
Í þeim fjárhagslegu hremmingum sem þjóðin á nú við að glíma og niðurskurðinum sem nauðsynlegur er í ríkisrekstrinum, verður að gæta þess að veikja ekki þær stofnanir sem sinna öryggismálunum, en þar er Landhelgisgæslan fremst í flokki, ásamt lögregluliðum landsins. Niðurskurður fjármagns til þessara aðila má ekki verða svo mikill að starfsemin verði lömuð á eftir og reynsla og þekking starfsmanna glatist.
Almenningur stendur þétt að baki björgunar- og hjálparsveitum landsins t.d. með fjárstyrkjum og ekki síst flugeldakaupum um áramót, en flugeldasalan er aðaltekjulind félaganna og fjármagnar starf þeirra að miklu leyti. Því er ömurlegt að sjá aðra en þá sem björgunar- og æskulýðsstörfum sinna kauplaust og af einskærum áhuga og hugsjónum vera að skara eld að eigin köku með flugeldasölu.
Þjóðin er í mikilli þakkarskuld við björgunarhetjur sínar og kann sannarlega að meta þær að verðleikum.
![]() |
Skipið elti mig upp |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)