Jón Gnarr í útrás

Jón Gnarr mun vera kominn í útrás með hugmyndir Besta flokksins um græna borg, en hann er nú staddur í Brussel til að kenna Evrópubúum fræðin, enda þekkir enginn þar um slóðir gróður eða græn svæði, eins og allir vita sem komið haf til landa í álfunni.  Vonandi mun ekki fara fyrir útrás Jóns Gnarrs eins og endirinn varð á útrás fyrirrennara hans í þeim geira.

Besti flokkurinn hefur hins vega engan áhuga á fjárhagsáætlun borgarinnar fyrir næsta ár, ramma- og aðgerðaáætlun, eða forgangsröðun verkefna og alls ekki sátt við borgarfulltrúa minnihlutans um þau efni, sem skipta hagsmuni borgarinnar og borgarbúa einhverju verulegu máli.

Líklega heldur meirihluti borgarstjórnar áætlunum sínum leyndum fyrir minnihlutanum og almenningi vegna þeirra hækkana á sköttum og þjónustugjöldum, sem líklega er ætlunin að skella á borgarbúa um áramótin og því verður komið seint og um síðir komið fram með tillögurnar, til þess að gefa sem minnstan tíma í umræður um þær.

Vonandi skrifar Jón Gnarr um flugþreytu og annað álíka uppbyggilegt í vefdagbók sína, en hingað til hefur dagbókin aðallega fjallað um þreytu, höfuðverk og úrillsku borgarstjórans. 


mbl.is Gagnrýna fjarveru á fundi borgarstjórnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Færeyingar þurfa ekkert að skammast sín

Magni Laksáfoss, þingmaður í Færeyjum, segir færeysku þjóðina skammast sín fyrir ummæli Jenis av Rana um Jóhönnu Sigurðardóttur og neitun hans að taka þátt í kvöldverðarboði henni til heiðurs.  Afstaða Jenis stafar af viðhorfum hans til samkynhneygðra, sem söfnuður hans í Færeyjum finnur út úr túlkun sinni á biblíunni.

Færeyingar eiga alls ekkert að skammast sín fyrir manninn, heldur vera stoltir af því að í landi þeirra skuli vera málfrelsi og þegnarnir hafi full frelsi til að haga lífi sínu á þann hátt, sem þeir kjósa.  Jafn fáráðleg, sem manni finnst þessi skoðun hans, þá er ástæðulaust að fordæma manninn sem boðar hana, en hinsvegar þarf að berjast gegn þessum skoðunum eins og öðrum öfgahugmyndum.

Hér á landi er námvæmlega sömu öfgaskoðanir að finna og Jenis av Rana stendur fyrir og hér hefur fólk neitað að hitta og sitja til borðs með erlendum ráðamönnum vegna skoðana og starfa þeirra í heimalöndum sínum.  Íslenska þjóðin skammaðist sín ekkert fyrir þá aðila, heldur virtu skoðanir þeirra og rétt til að hafa þær, þó ekki væru allir sammála, hvorki skoðununum né mótmælunum.

Færeyingar eru frábær vinaþjóð Íslendinga og eiga að vera stoltir af sjálfum sér og eyjunum sínum.  Einnig þeim sem hafa einstrengingslegar skoðanir á meðan þeir halda sig innan ramma laga og regla og slasa engan, eða eyðileggja eignir annarra.


mbl.is Segir Færeyinga skammast sín
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Beinar skuldir Gaums aðeins hluti sannleikans

Kristín Jóhannesdóttir hefur sent frá sér yfirlýsingu í nafni Bónusgengisins um að skuldir Gaums séu "aðeins" sex milljarðar króna og vill með því leiðrétta rangfærslur um skuldastöðu félagsins, eftir því sem hún segir.  Gaumur er eins og kunnugt er eignarhaldsfélag Bónusgengisins, og á og er í ábyrgðum fyrir 50 milljarða skuldum 1988 ehf., sem aftur átti Haga, sem Arion banki hefur nú yfirtekið.

Ekki gefur hún upp hve skuldir Haga eru miklar, en þær munu þó nema a.m.k. 20 milljörðum króna, eftir því sem fregnir herma og því er borin von til þess að félag sem ekki skilaði nema 45 milljóna króna hagnaði á síðasta rekstrarári seljist fyrir upphæð, sem dugi til að greiða upp skuldir 1688 ehf. og hvað þá Gaums að auki.  Þrátt fyrir ekki meiri hagnað en þetta er félaginu gert að greiða gengisforingjanum 114 milljón króna "starfslokagreiðslu" fyrir "vel" unnin störf á undanförnum árum.

Bónusprinsessan segir um fyrirhugaða sölu Arion banka á Högum í yfirlýsingunni:  "Við söluna mun væntanlega koma í ljós, hvað kemur uppí skuldir 1998 ehf., ekki fyrr.“   Samkvæmt þessu gerir Bónusgengið ekki sjálft ráð fyrir því að söluverð Haga dugi til að greiða upp skuldir 1988 ehf. og alls ekki að eignarhaldsfélagið fái við hana nokkuð til sín af söluverðinu.  Þar með er það orðið viðurkennd staðreynd að Gaumur getur ekki greitt neitt af skuldum sínum og því er Bónusgengið skyldugt samkvæmt lögum að lýsa félagið gjaldþrota.

Fyrirsögn yfirlýsingar Bónusgengisins varðandi skuldir Gaums hljóðaði á þennan veg:  „Er sannleikurinn sagna verstur?“.  Svarið við spuningunni er auðvitað nei, því sannleikurinn er sagna bestur.

Allra best er þó að segja allan sannleikann og ekki sakar að standa líka við orð sín og skuldbindingar og taka afleiðingum misgerða sinna.

 

 


mbl.is Beinar skuldir Gaums 6 milljarðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 7. september 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband