28.9.2010 | 18:48
Skömm þings og þjóðar er mikil
Dagurinn í dag, 28. september 2010, mun lifa í sögunni sem dagurinn sem Alþingi lagðist lægst í meira en þúsund ára sögu sinni. Dagurinn sem pólitísk hrossakaup réðu því að fyrrverandi forsætisráðherra þjóðarinnar var stefnt fyrir Landsdóm án sérstakrar rannsóknar og að hafa fengið að taka til varna, áður en ákæra var gefin út.
Þór Sari, sem þó var einn kæruliðanna, kallaði það sem fram fór á Alþingi pólítískan hráskinnaleik og ætti vitnisburður manns úr innsta hring kæruliðanna að vera fullkomlega marktækur.
Í dag er skömm þjóðarinnar og þingsins mikil og sérstaklega þeirra þingmanna, sem hráskinnaleikinn léku.
![]() |
Þungbær og erfið niðurstaða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (31)
28.9.2010 | 13:16
Endemis rugl í Árna Þór
Árni Þór Sigurðsson, þingmaður VG, setti fram furðulega röksemdarfærslu á Alþingi í dag, þegar hann var að réttlæta tillögurnar um ákærur á hendur nokkrum fyrrverandi ráðherrum, sem VG þráir heitast að niðurlægja fyrir þjóðinni og sýna umheiminum hvað það séu kaldir karlar og kerlingar, sem nú eru við völd í landinu.
Árni heldur því fram að með því að fella tillögur um ákærur, þá sé þingið að kveða upp sýknudóm yfir þessum ráðherrum, en með því að samþykkja kærurnar sé alls ekki verið að gefa í skyn að þeir séu sekir. Að ganga úr skugga um að svo sé, sé seinni tíma mál og allt annarra en þingsins, að fella þann dóm.
Þetta verður að teljast furðulegasti málflutningurinn til þessa í þeim pólitíska skollaleik, sem VG, Hreyfingin og hluti Samfylkingarinnar leika í þinginu þessa dagana og tefja um leið umræður um þarfari mál, sem á þjóðinni brenna.
Allir hljóta að sjá hvílík endemis della það er, að segja að ef þú ákærir einhvern, sért þú ekki að gefa í skyn að hann sé sekur, en ef þú ákærir ekki, þá sértu þar með að sýkna einhvern. Að sjálfsögðu fer enginn að ákæra annan og stefna honum fyrir dómstóla, nema telja viðkomandi sekan um lögbrot.
Líklega eru þessir þingmenn undantekning frá þeirri reglu, enda bara í pólitískum hefndarleiðangri gegn andstæðingum sínum í stjórnmálum.
![]() |
Landsdómur dæmir - ekki Alþingi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
28.9.2010 | 09:21
Ákærur eða þakklæti?
Margir virðast standa í þeirri trú, að ákærur Atlanefndarinnar á hendur sumum ráðherrum síðustu ríkisstjórnar snúist um ábyrgð á banka- og efnahagshruninu í október 2008, en svo er auðvitað alls ekki, heldur snúast kærurnar aðallega um að þessir ráðherrar hafi ekki boðað til sérstakra ríkisstjórnarfunda um bankamál, skort á samningu skýrslna um málin, að hafa ekki séð um að flytja Icesave í erlenda lögsögu, að hafa ekki látið bankana minnka efnahagsreikning sinn og fleira í þessum dúr.
Að mörgu leyti er vandséð hvernig ráðherrar hefðu átt að grípa inn í rekstur einkabanka, sem lutu lögmálum ESB um frelsi til fjármagnsflutninga og eigendum sínum og stjórnum, sem ábyrgar áttu að vera fyrir þessum einkafyrirtækjum. Ákærurnar eru í flestum atriðum þær sömu á hendur öllum ráðherrunum og hljóðar t.d. ein þeirra svona: "Fyrir að hafa vanrækt að hafa frumkvæði að virkum aðgerðum af hálfu ríkisvaldsins til að draga úr stærð íslenska bankakerfisins með því til að mynda að stuðla að því að bankarnir minnkuðu efnahagsreikning sinn eða einhverjir þeirra flyttu höfuðstöðvar sínar úr landi."
Hvernig skyldu bankar minnka efnahagsreikning sinn? Það verður varla gert svo neinu nemi öðruvísi en með því að greiða niður skuldir bankans og til þess hefði hann væntanlega ekki haft neitt fjármagn, nema að innheimta útistandandi kröfur sínar og það hefði hann ekki getað gert, nema gjaldfella meirihluta þeirra og með slíkum aðgerðum hefðu bankarnir fallið umsvifalaust. Hvað hefði svo gerst, ef bankarnir hefðu verið orðnir að erlendum bönkum, eftir flutning höfuðstöðvanna úr landi og þeir hefðu hrunið hvort sem var, ekki síst vegna glæpsamlegs reksturs þeirra til margra ára?
Það sem hefði auðvitað gerst við slíkar aðstæður hefði verið það, að allar innistæður Íslendinga hefðu tapast, nema það sem fengist hefði úr tryggingarsjóðum, 20.008 evrur á hvern reikning, og þar með hefði tap þjóðarbúsins orðið gífurlegt og ekki nokkur möguleiki til að endurvekja bankakerfi hér á landi og þar með efnahagslíf, nema á mörgum áratugum.
Hefðu ráðherrarnir haft völd til að beita sér fyrir framangreindu og gert það, yrðu þeir sjálfsagt ákærðir fyrir að hafa beitt sér fyrir aðgerðum, sem hefðu valdið óbætanlegum skaða fyrir íslenskt efnahagslíf. Þá hefði mátt segja að þeir hefðu tekið glæpsamlegar ákvarðanir og ættu refsingu skilda.
Með því að gera það ekki var haldið opnum þeim möguleika, sem síðar var nýttur, en það var að stofna nýtt bankakerfi á grundvelli þeirra innistæðna sem hægt var að flytja úr gömlu bönkunum yfir í þá nýju. Þær björgunaraðgerðir sem þó tókst að framkvæma í kjölfar hrunsins voru afrek og allir sem að þeim komu eiga þakklæti þjóðarinnar skilið fyrir, en ekki vanþakklæti og ákærur.
Í þessu efni, sem öðrum, eru laun heimsins vanþakklæti.
![]() |
Atkvæði um málshöfðun í dag |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)