Samfylkingin í ljósum logum

Innviðir Samfylkingarinnar standa í ljósum logum og brennuvargarnir sem kveiktu bálið eru Össur Skarphéðinsson og Jóhanna Sigurðardóttir og á bálið vörpuðu þau Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, fyrrverandi formanni flokksins, vegna þess að hún er hætt á þingi, en vilja hinsvegar forða Björgvini G. Sigurðssyni, fyrrverandi bankamálaráðherra, frá brennunni af þeirri ástæðu að hann er góður vinur Össurar, sem einnig gerði hann að þingmanni og ráðherra fyrir Samfylkinguna.

Jóhanna og Össur virðast hafa ógnartök á þingmönnum flokksins, sem líklegt er að fylgi þessum foringjum sínum í algerri blindni í atkvæðagreiðlunni um ráðherraákærurnar, en grasrótin í flokknum er ævareið forustunni fyrir framgöngu hennar gegn Ingibjörgu Sólrúnu og er allt við það að sjóða uppúr í flokknum vegna þessa.

Veði niðurstaða þingsins sú, að Ingibjögu verði stefnt fyrir Landsdóm, en Björgvini ekki og það vegna atkvæða þingmanna Samfylkingarinnar, er líklegast að flokkurinn klofni og stuðningsmenn Ingibjargar rói á önnur mið.

Fari svo verður fróðlegt að sjá hvað Össur stendur uppi með fjölmennan flokk eftir næstu kosningar, en þá verður Jóhanna bandamaður hans í þessari blóðhefnd farin af þingi fyrir fullt og allt.


mbl.is Skiptar skoðanir um ákærur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Heiðrunin" er Atla ekki til vegsauka

Einhver fámennur hópur, sem kallar sig alþingi götunnar sýndi Atla Gíslasyni aðdáun sína fyrir utan Alþingi Íslendinga, vegna þess hve Atli hafi staðið fast gegn hvers kyns mótbárum þingmanna og ráðherra við framgangi hans, sem formanns nefndarinnar um ráðherraákærur og telja talsmenn götunnar að mikill sómi sé að framgöngu Atla í þeirri herferð allri.

Af þessu tilefni vaknar sú spurnig, hverjir hafi kosið þessa þingmenn götunnar, hvenær kosningin hafi farið fram og hvernig þinginu sé skipað í meiri- og minnihluta og hvenær og hvernig samþykktin um heiðrun Atla hafi verið samþykkt og afgreidd á götuþinginu.

Getur verið að ekkert sé á bak við þetta alþingi götunnar nema örfáir sjálfkjörnir ofstækismenn, sem fréttamenn taki gagnrýnislaust við tilkynningum frá og fjalli um, eins og um alvörufélagsskap sé að ræða, sem komist að niðurstöðum sínum með atkvæðagreiðslu eftir lýðræðislegar umræður?

Eftir hvaða stefnuskrá starfar þetta götuþing og finnst alvöru Alþingismönnum virkilega heiður að því að fá viðurkenningar frá svona óskilgreindum hópi manna, sem fáir eða engir vita deili á? 

Fram að þessu hefur það ekki þótt nein heiðursnafnbót að vera talinn meðlimur í alþingi götunnar.  Móttaka Atla á þessari "viðurkenningu" er honum ekki til álitsauka, heldur þvert á móti.


mbl.is Heiðruðu Atla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver á að rannsaka rannsóknirnar?

Nú er tími hinna miklu rannsókna í þjóðfélaginu og hver þingmaðurinn eftir annan ber fram tillögur um að þetta og hitt sem gert var í fortíðinni verði rannsakað af sérstökum rannsóknarnefndum.  Að minnsta kosti tvær tillögur eru komnar fram á alþingi um að rannsakaðar verði sölur á Landsbankanum og Búnaðarbankanum á sínum tíma og hlýtur slík rannsókn að verða jafnframt rannsókn á Ríkisendurskoðun, sem mun vera búin að rannsaka þessar bankasölur tvisvar og skila skýrslum um þær rannsóknir sínar.

Rannsóknarnefnd þarf líka að setja í verk núverandi ríkisstjórnar, svo sem Icesave og andstöðuna við atvinnuuppbyggingu.  Svo þarf að setja rannsóknarnefndir í að rannsaka allt sem ekki hefur verið gert á undanförnum áratugum og hvers vegna það var ekki gert.  Rannsóknarnefndir þarf nauðsynlega til að rannsaka allar þingkosningar frá lýðveldisstofnun og komast að því hvort rétt hafi verið talið og hver sé skýringin á fylgi hvers flokks fyrir sig og af hverju aðrir buðu ekki fram en þeir sem buðu fram.

Þegar búið verður að rannsaka allt sem hægt verður að rannsaka, þarf að setja á fót sérstaka rannsóknarnefnd til að rannsaka allar rannsóknarnefndirnar og niðurstöður þeirra og kanna alla þá þætti, sem nefndunum kynni að hafa yfirsést í rannsóknum sínum.

Í öllum þessum rannsóknum skal hafa vinnubrögð rannsóknarréttar miðalda til fyrirmyndar.  Einnig má líta til fleiri slíkra fyrirmynda síðari tíma, t.d. menningarbyltingarinnar í Kína, en rannsóknir voru þó ekki mjög djúpar á þeim tíma, enda allt slíkt tímafrekt og eingöngu til að tefja fyrir dómsniðurstöðum.


mbl.is Vill rannsókn á einkavæðingu banka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skíðaskálasnobb

Ágúst Guðmundsson, Bakkabróðir, hefur átt í erfiðleikum með að fjármagna skíðakofann sinn í frönsku Ölpunum, en bankinn var búinn að gjaldfella ellefuhundruðogfimmtán milljóna króna lán, sem hann hafði tekið til kaupa á kofanum.  Áður hafa birst fréttir af basli Jóns Ásgeirs í Bónus með fjármögnun á sínum skíðakofa á svipuðum slóðum, en að lokum hljóp eiginkona hans undir bagga með honum og snaraði út tæplega tveim milljörðum króna til að forða skíðaathvarfinu frá uppboði.

Keppni útrásargarkanna um hver gat sýnst stærstur og ríkastur er sprenghlægileg fyrir þá sem með fylgjast af hliðarlínunni, en sýndarmennskukeppnin snýst um að "eiga" flottustu einkaþotuna, skíðahallir, lúxusíbúðir, lúxusbíla, snekkjur og sumarhallir.  Allt væri þetta í stakasta lagi, ef þessi gengi ættu eitthvað í þessum lúxus öllum, en ekki er það svo gott, því allt er þetta skuldsett upp fyrir rjáfur og mest af fjármálavitleysum þessara auraapa hefur lent í fanginu á lánadrottnum þeirra viða um heim og almenningi á Íslandi.

Greinilegt er að snobbið og mikilmennskubrjálæðið hefur verið alveg gengdarlaust hjá þessum "köppum" og t.d. algerlega óskiljanlegt hvað þeir hafa haft að gera með eins til tveggja milljarða króna skíðahallir til að dvelja í nokkrar helgar á vetri og álíka sumarhallir til að eyða í nokkrum sumarhelgum.

Þessir íslensku auðrónar eru skólabókardæmi um hvernig menn verða af aurum apar.


mbl.is Ágúst nær sátt í skuldamáli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 27. september 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband