Loksins góð frétt

Loksins birtist jákvæð frétt úr atvinnulífinu, en nú mun vera búið að ganga frá samningum milli þeirra aðila, sem að því koma, svo Rio Tinto Alcan geti hafist handa við að uppfæra búnað og auka framleiðsluna í Straumsvík og mun fyrirtækið verja til þess fjörutíuogeinum milljarði króna.

Á framkvæmdatímanum mun þetta verk skapa nokkur hundruð störf og blása nokkru lífi í efnahagsmál þjóðarinnar á meðan unnið verður að þessu, en afkastaaukningin verður að fullu komin til framkvæmda á árinu 2014.  Vonandi hefur ríkisstjórnin engin ráð til að stöðva, eða tefja, þessa framkvæmd, en eins og allir vita, hefur hún barist eins og grenjandi ljón gegn hvers konar atvinnuuppbyggingu í landinu frá því að hún komst til valda og ekki allta beitt til þess löglegum meðulum og nægir að benda á umhverfisráðherrann því til sönnunar.

Nú þarf að leggja alla áherslu á, að koma af stað framkvæmdum við álverið í Helguvík og stóriðju við Húsavík.  Ennfremur verður að greiða fyrir uppbyggingu skurðsjúkrahúsa í Mosfellsbæ og í Reykjanesbæ, sem fyrirhuguð eru til þjónustu við útlendinga, en ríkisstjórnin hefur, samkvæm sjálfri sér, einnig tafið og þvælst fyrir þeim áformum.

Það munar um hvert einasta starf, sem tekst að skapa og því ber að fagna þessum framkvæmdum í Straumsvík og vona að þær séu aðeins upphafið að miklu meiri atvinnusköpun.


mbl.is 41 milljarður í framkvæmdir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gnarr-áhrifin

Á hundraðasta degi sínum í embætti borgarstjóra gortar Jón Gnarr sig af því að hann sé búinn að hafa slík áhrif á veröldina, að hann sé orðinn nýtt hugtak í stjórnmálafræði, eða "The Gnarr-effect", sem væntanlega á að þýða yfir á íslensku sem "Gnarr-áhrifin".

Hvaða áhrif Jón Gnarr telur sig hafa haft á heimsstjórnmálin liggur ekki alveg fyrir, en væntanlega er það þá að hann sé búinn að sýna og sanna, að uppistandari sem ekkert hefur fram að færa í stjórnmálum og er algerlega ófær um að gegna stjórnunarstarfi, getur tekist að láta kjósa sig í æðstu embætti, ef aðstæður og andrúmsloft í þjóðfélaginu er hentugt fyrir slíkan fíflagang.

Að sýna fram á að hægt sé að ná svo ótrúlegum tökum á hluta kjósenda er auðvitað rannsóknarefni út af fyrir sig og að því leyti gæti þetta fordæmi úr borgarstjórnarkosningunum síðustu haft áhrif á stjórnmálafræðin, en öfugt við það sem Jón Gnarr virðist halda, þá er ekkert jákvætt við þessi áhrif, heldur eru þau dæmi um skammarlega áhrifagirni kjósenda og öllum hlutaðeigandi til vansa.

Borgarstjórinn virðist ekki hafa skilning á Gnarr-áhrifunum, frekar en borgarmálunum.


mbl.is „The Gnarr-effect"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alþingi kjósi líka um Jóhönnu og Össur

Mogginn veltir því upp í morgun, að líklegt sé að þegar tillagan um Landsdóm komi til afgreiðslu á Alþingi, verði greidd atkvæði um hvern ráðherra sérstaklega, sem fyrirhugað er að stefna fyrir dóminn, þ.e. þau Geir H. Haarde, Ingibjörgu Sólrúnu, Árna Matt. og Björgvin G. Sigurðsson.

Dálítið virkar það þó einkennilega, að aðskilja ráðherrana þannig í atkvæðagreiðslunni, en þó má réttlæta það með því, að þingmönnum þyki líklegra að sumir þeirra þeirra, en ekki allir, verði sakfelldir fyrir Landsdómi.  Slíkt er þó vandséð, þar sem ásakanir Atlanefndarinnar á þá alla snúast að mestu um sömu ákæruatriði um vanrækslu og aðgerðarleysi.

Ekki verður öðru trúað, en að breytingartillaga komi fram í nefndinni, eða á Alþingi, um að bæta nöfnum Jóhönnu Sigurðardóttur og Össurar Skarphéðinssonar á lístann yfir þá ráðherra, sem atkvæði verða greidd um að stefna fyrir Landsdóminn, enda voru þau bæði miklir þátttakendur í öllum fundum og ákvörðunum (ákvarðanaleysi) síðustu ríkisstjórnar.

Verði einhverjum af þessum ráðherrum stefnt fyrir dóminn en öðrum ekki, yrði slík afgreiðsla Alþingis bæði óréttlát og ósanngjörn og myndi eingöngu ráðast af pólitískum ofsóknum á hendur einstaka mönnum, en ekki heiðarlegri tilraun til að gera upp við "hrunstjórnina".

Uppgjör við fortíðina verður að byggjast á heiðarlegum rannsóknum, en ekki pólitískum duttlungum þeirra þingmanna, sem svo vill til að sitja á Alþingi núna.


mbl.is Kosið um hvern og einn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 23. september 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband