30.8.2010 | 19:20
Næstsíðasti Bónusskandallinn?
Arion banki hefur tilkynnt að samningur hafi verið gerður við Jóhannes í Bónus um viðskilnað hans við Haga, en í samningnum felst að Jóhannes hættir í stjórn félagsins gegn hundrað milljóna króna greiðslu og "kaupir" um leið af bankanum íbúðarhúsið, bílinn og sumarbústaðinn, sem bankinn hefur lagt honum til. Þar að auki kaupir hann þrjár af verslunum Haga hér á landi og 50% í Bónusverslununum í Færeyjum.
Sjónvarpið greindi frá því, að Jóhannes myndi greiða rúmar tólfhundruð milljónir króna fyrir eignirnar í reiðufé og verður það að teljast með ólíkindum, þar sem Bónusgengið hefur alltaf haldið því fram, að það væri nánast eignaö og peningalaust, eftir að hafa sett á hausinn nánast hvert einasta félag sem gengið hefur komið nálægt á sínum hroðalega "viðskiptaferli"
Því hefur allta verið haldið fram, að allar sölur bankanna á þeim fyrirtækjum sem þeir hafa tekið yfir, yrðu gerðar fyrir opnum tjöldum og allar upplýsingar lagðar á borðið. Samkvæmt því verður að gera þá kröfu, að heildarsamningarir við Bónusgengisforingjann verði opinberaðir og skýr grein gerð fyrir því hvaðan fjármunirnir koma, sem nota á til greiðslu fyrir pakkann. Þar sem Bónusgengið hefur alltaf haldið fram blankheitum sínum, hlýtur Arion eða einhver annar banki að lána fyrir þessum gerningi og enginn þarf að láta segja sér að Bónusgengið hafi selt sig ódýrt í þessum viðskiptum.
Það þarf að komast á hreint hvort þetta sé næst síðasti Bónusskandall Arion banka og hvort salan á Högum til gengisins verði þá sá síðasti.
![]() |
Steinn Logi stýrir Högum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
30.8.2010 | 16:34
Til hamingju Björk
Björk Guðmundsdóttur hlotnast í dag sá heiður að verða afhent Polar tónlistarverlaunin, sem Stig Anderson, umboðsmaður hljómsveitarinnar ABBA, stofnaði til árið 1989 með stuðningi sænsku tónlistarakademíunnar. Gamalkunna ítalska tónskáldið Ennio Morricone verður einnig heiðraður með þessum verðlaunum í dag.
Ýmsir merkir tónlistarmenn hafa fengið þessi verðlaun frá stofnun þeirra og á Björk fullkomlega heima í þeim hópi vegna framlags síns til tónlistarsögunnar, en Björk er engri lík í sinni sköpun og er því brautryðjandi en ekki sporgöngumaður, eins og margir tónlistarmenn eru, sem eingöngu "afrita" tónsmíðar annarra, en leggja í raun lítið til sjálfir.
Þrátt fyrir að skrifari sé alls ekki sammála stjörnunni í ýmsum málum, sérstaklega hvað varðar virkjana- og atvinnumál, þá er Björk hér með óskað til hamingju með þennan heiður og þjóðinni til hamingju með Björk.
![]() |
Björk fær Polarverðlaunin í dag |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.8.2010 | 10:44
Laun hafa hækkað meira en verðtrygging lána
Lögfræðingar voru algerlega sammála um að gengistrygging lána væri fullkomlega lögleg, a.m.k. varð ekkert vart við efasemdir af þeirra hálfu um það, fyrr en eftir að Hæstiréttur kvað upp úrskurð sinn, eftir að þessi lán höfðu viðgengist athugasemdalaust í átta ár.
Nú deila lögfræðingar hins vegar um það hvort samningsvextir, sem grundvallaðir voru á hinni ólöglegu verðtryggignu sem gengistryggingin var, skuli gilda á lánunum, eða hvort vextir Seðlabanka Íslands af óverðtryggðum lánum, eins og þeir voru á hverjum tíma, skuli verða reiknaðir á þessi lán, eins og önnur óverðtryggð lán, en það dæmdust þau í raun vera eftir niðurstöðu Hæstaréttar.
Ekki skal neinn dómur lagður á þetta deiluefni hér, enda í verkahring Hæstaréttar að gera það, en hins vegar verður að gera athugasemd við þá fullyrðingu Sigurðar G. Guðjónssonar, hæstaréttarlögmanns, þegar hann segir: "Með því að velja gengistryggð lán fjármálafyrirtækja töldu lántakendur sig lausa bæði undan íslenskum okurvöxtum og oki íslensku verðtryggingarinnar; verðtryggingar sem á umliðnum árum hefur fært fjármagnseigendum ómælt fé á kostnað þeirra sem kosið hafa að koma sér upp húsnæði fyrir sig og sína."
Er lögmaðurinn virkilega að halda því fram, að fólk hafi ekki reiknað með því að gengistryggðu lánin myndu hækka með hækkandi verðbólgu og lækkun íslensku krónunnar? Allir vissu að krónan væri allt of hátt skráð á þeim tíma, sem þessi gengistryggðu lán voru í hávegum höfð.
Einnig er það hreint ekki rétt fullyrðing hjá lögmanninum, að verðtryggingin hafi fært fjármagnseigendum ómælt fé á kostnað húsnæðislánaskuldara, því launavísitala hefur hækkað miklu meira á síðustu tuttugu árum, en vísitala neysluverðs til verðtryggingar hefur gert. Þá þróun má sjá á neðangreindri töflu:
Mánuður/ | Vísitala n.v. | Hækkun í % | Launa- | Hækkun í % | Hækkun launa í % |
Ár | til verðtryggingar | frá Jan. 1989 | vísitala | frá Jan. 1989 | umfram verðtryggingu |
Janúar 1989 | 112,60 | 100,00 | |||
Ágúst 2008 | 307,10 | 172,74 | 350,40 | 250,40 | 44,96 |
Janúar 2009 | 327,90 | 191,21 | 355,70 | 255,70 | 33,73 |
Janúar 2010 | 356,20 | 216,34 | 366,90 | 266,90 | 23,37 |
Mai 2010 | 362,90 | 222,29 | 370,10 | 270,10 | 21,51 |
Júlí 2010 | 365,30 | 224,42 | 379,50 | 279,50 | 24,54 |
Þrátt fyrir kreppu og hrun, hefur launavísitalan vinninginn fram yfir verðtrygginguna, þannig að afborganir verðtryggðs láns, sem tekið var 1989 eru mun léttari núna en þær voru í upphafi, miðað við þróun launa.
Auðvitað er ekki hægt að alhæfa um að þetta eigi við um alla skuldara, þar sem aðstæður hvers og eins geta hafa breyst, t.d. vegna atvinnuleysis eða annarra ófyrirséðra atvika, en almennt er þetta þó niðurstaðan og þau meðaltöl, sem miða verður við.
![]() |
Telja væntanlega 21% vexti sanngjarna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (28)