Björgólfur Thor farinn að sleikja loppuna

Eins og allir vita felst kattarþvottur í því, að kisan sleikir á sér loppuna til að bleyta hana og nuddar svo á sér snoppuna og á bak við eyrun, en þvotturinn sem slíkur, er í sjálfu sér ekki talinn hreinsa kisugreyið svo neinu nemi.

Björgólfur Thor opnaði einkabloggsíðu í dag, þar sem hann reynir að þvo af sér allt kám vegna bankahrunsins hér á landi og bendir á alla aðra sem sökudólga, jafnt seljendur Landsbankans sem starfsmenn hans.  Björgólfur segir að þeir einu sem tandurhreinir séu í þeim efnum, séu þeir feðgar, hann sjálfur og pabbi, en þeir hafi bara ekki stjórnað einu eða neinu í bankanum.  Hvað sem var um aðkomu júniorsins að stjórn bankans, voru þeir feðgar drjúgir viðskiptavinir bankans síns og fengu þar lán til ýmissa hluta, misgáfulegra, t.d. kaupa á knattspyrnufélagi í Englandi og fleira slíkt, sem kom pabbanum í gjaldþrot, þó sonurinn hafi sloppið við það hingað til.

Allir sem með Björgólfi Thor störfuðu, virðast hafa unnið að því hörðum höndum að koma honum og fyrirtækjum hans á hausinn, t.d. Róbert Wessmann, forstjóri Actavis, en það fyrirtæki fór ekki að ganga að sögn Björgólfs, fyrr en hann var búinn að reka Róbert og bjarga fyrirtækinu þannig fyrir horn.  Á sínum tíma var sagt að Björgólfur Thor væri að kaupa alla aðra fjárfesta út úr Actavis, en segir nú að fyrirtækið sé gríðarlega skuldugt vegna þeirrar yfirtöku, þannig að hann virðist þá hafa látið fyrirtækið lána sér peninga til kaupanna, því ekki hefur Actavis keypt sjálft sig, fyrst Björgólfur Thor segist eiga það.

Björgólfur segir líka að nánast allir sem á annað borð höfðu símanúmerið hans, hafi hringt til að fá hann til að koma til landsins og bjarga bankakerfinu frá hruni, en líklega hefur Björgólfur bara komið deginum of seint, til að möguleiki væri að redda hlutunum, enda allir hinir sem að málinu komu hreinustu aumingjar í samanburði við snillinginn.  Þó er afar athyglisvert að heyra af því að Ólafur Ragnar hafi verið að vasast í þessari bankabjörgun og verið í símasambandi við Björgólf og hvatt hann eindregið til að bregða undir sig þotunni og skjótast á klakann til björgunarstarfa.  Víða hefur sú klappstýra dansað og sjálfsagt ekki frést af öllum danspöllunum ennþá.

Kattaþvottur Björgólfs Thors er rétt að byrja.  Hann er varla byrjaður að sleikja loppuna.


mbl.is Ólafur Ragnar bað Björgólf að koma heim
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ofstækisöflum vex sífellt fiskur um hrygg

Það er hárrétt hjá Brynjari Níelssyni, sem hann heldur fram um að ofstækisöfl hafi ráðist ómaklega að Björgvini Björgvinssyni, lögreglumanni, fyrir ummæli sem hann lét falla í viðtali, þess efnis að tímabært væri að fólk færi í meira mæli að líta inn á við og taka frekari ábyrgð á gerðum sínum, með því að forðast að verða hálfrænulaust vegna ofdrykkju eða dópneyslu.

Ofstækið braust út í því, að snúa út úr orðum Björgvins og láta líta svo út, að hann hefði verið að kenna fórnarlömbum nauðgana um verknaðinn og að sama skapi verið að verja þann sem glæpinn framdi.  Þetta var auðvitað algjör rangtúlkun á orðum Björgvins, sem einfaldlega var að benda á, að þeir sem ekki væru með fullri rænu, ættu frekar á hættu en aðrir, að lenda í klóm óprúttinna glæpamanna og því skyldi fólk forðast ofneyslu vímuefna, af hvaða tagi sem er.

Skömm Ríkislögreglustjóra er mikil fyrir að biðjast afsökunar á varnaðarorðum Björgvins og ekki síður fyrir að flytja hann til í starfi, en Björgvin er annálaður sómamaður og hefur sinnt starfi sínu af stakri trúmennsku, bæði við fórnarlömb nauðgana og yfirboðara sína.

Um þetta var áður búið að fjalla um þetta mál í bloggi og ef einhver hefur áhuga á að kynna sér umræðurnar, sem af því spruttu, má sjá þær HÉRNA


mbl.is Segir ofstæki ráða ferðinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tilgangslaus yfirheyrsla yfir Sigurði Einarssyni?

Sigurður Einarsson er kominn heim í heiðardalinn og mun heiðra Sérstakan saksóknara með nærveru sinni á skrifstofu hans í dag og spjalla þar um daginn og veginn og þó aðallega veðrið.  Sigurður telur þetta vera heppilegan tíma til þessa spjalls, enda búinn að hafa þrjá mánuði til að semja handritið, sem hann mun styðjast við í samræðum sínum við saksóknarann.

Félagar Sigurðar, sem sátu í varðhaldi og sættu yfirheyrslum fyrir þrem mánuðum síðan, eru auðvitað löngu búnir að gefa foringja sínum nákvæma skýrslu um allar þær spurningar sem fyrir þá voru lagðar í yfirheyrslunum, þannig að Sigurður er vel undirbúinn eftir þriggja mánaða yfirlegu yfir því, sem kom fram um vitneskju embættisins um gerðir þeirra félaga.  Ekki er heldur að efa, að Sigurður sé búinn að vera í þriggja mánaða þjálfunarbúðum með lögmönnum sínum, til þess að æfa svör við öllum hugsanlegum spurningum sem hugsast getur að fyrir hann verði lagðar og því ekki nokkur hætta á að hann tali af sér, eða bæti nokkru við það sem þegar liggur fyrir um þátttöku hans í stærsta bankaráni sögunnar, sem framið hefur verið innanfrá, eins og gerðir þeirra félaga hafa verið kallaðar.

Sigurður neitaði að mæta til viðræðna við saksóknarann vegna ótta síns við að verða hnepptur í gæsluvarðhald, en stórhöfðingjar láta nú ekki bjóða sér slíkar trakteringar, enda ekki leyfilegt að hafa með sér silkisængurfötin í svoleiðis gistingu, þannig að hann lét ekki sjá sig á landinu, fyrr en hann hafði fengið tryggingu fyrir því, að móttökunefndin í Keflavík væri ekki skipuð lögreglumönnum.

Á Keflavíkurflugvelli tók yfirþjálfari Sigurðar á móti honum, þ.e. Gestur Jónsson, lögmaður, og fór með hann rakleiðis í lokarennsli handritsæfinganna og því er Sigurður nú meira en klár í slaginn við þann sérstaka og mun auðveldlega renna í gegnum rulluna um að allt hafi þetta nú verið Davíð Oddsyni og öðrum álíka illmennum að kenna og hann sjálfur sé einungis fórnarlamb í málinu og eigi í raun rétt á stórkostlegum skaðabótum vegna meðferðarinnar, sem hann hefur mátt þola.

Varðhald í viku mun engu breyta um framburð Sigurðar, til þess er handritið of vel samið og einnig búið að fara í gegnum andlegan undirbúning undir nokkurra daga innilokun án silkináttfata og -rúmfata. 

Úr því sem komið var, mátti spara Sigurði farseðilinn til landsins a.m.k. þangað til dómur fellur og langtímagistingin fyrir austan tekur við.


mbl.is Sigurður mættur í yfirheyrslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á elli- og örorkulífeyrir að fjármagna innlimunina í ESB?

Bretar og Hollendingar náðu því í gegn í stjórn Fjárfestingarbanka Evrópu að loka fyrir lánveitingar til Landsvirkjunar vegna þess að þeir hafa ekki enn náð að kúga fram niðurstöðu í Icesave fjárkúguninni gegn íslenskum skattgreiðendum.

Þetta er enn eitt dæmið, sem sýnir að fjárkúgararnir bresku og hollensku svífast einskis í tilraunum sínum til að gera Íslendinga að skattaþrælum sínum til næstu áratuga og hafa til þess stuðning félaga sinna í ESB, þó ekki muni hafa verið alger einhugur innan stjórnar fjárfestingabankans um þátttöku í þessari atlögu að atvinnuuppbyggingu og endurreisn atvinnulífsins hér á landi.

Á sama tíma og ESB tekur þátt í hvers kyns ofbeldi gegn íslenskum hagsmunum, lætur VG Samfylkinguna þvinga sig til þátttöku í innlimunarferli landsins í evrópska stórríkið væntanlega, með undirbúningi upptöku laga og reglna stórríkisins, sem með blekkingum er kallað samningaviðræður, en er ekkert annað en innlimun, sem framkvæmd verður á lymskulegan hátt á næstu misserum.

Hvað ætlar VG að láta svipuhöggin dynja á sér lengi, áður en þeir rífa sig á lappir og segja innlimunarferlinu stríð á hendur og hætta að láta draga sig á asnaeyrunum innfyrir dyrnar á ESB?

Ætlar VG að samþykkja milljarða framlög á fjárlögum næsta árs í kosnað við innlimunarferlið og draga þá peninga af fjárveitingum til heilbrigðismála, skólamála og lífeyri fatlaðra og aldraðra?

 


mbl.is Lokað á lán vegna Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 19. ágúst 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband